Nýr formaður Alþjóða Rauða krossins kjörinn í Naíróbí

19. nóv. 2009

Tadateru Konoé, formaður Rauða krossins í Japan, var kjörinn formaður Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans á aðalfundi landsfélaga sem nú stendur yfir í Naíróbí í Kenýa. Konoé mun gegna formannsembættinu næstu fjögur ár.

Aðalfundur landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans er haldinn annað hvert ár og fer með æðsta ákvörðunarvald Alþjóðasambandsins. Á aðalfundinum verður einnig samþykkt ný stefna Alþjóða Rauða krossins sem mótar starf þeirra 186 landsfélaga sem eiga aðild að Alþjóðasambandinu. Rauði kross Íslands mun vinna að því á næstu misserum að endurskoða stefnu félagsins samkvæmt hinni nýju stefnu 2020.

Tadateru Konoé hefur verið formaður Rauða krossins í Japan síðan 2005, en hann gegndi áður embætti varaformanns í fjórtán ár og hefur alls um 45 ára starfsreynslu með Rauða kross hreyfingunni bæði sem sjálfboðaliði og starfsmaður. Hann hefur einnig innt af hendi ýmis trúnaðarstörf fyrir Alþjóða Rauða krossinn, meða annars sem varaformaður Alþjóðasambandsins.

Þrjú Rauða kross félög sem Rauði kross Íslands hefur stutt um árabil hlutu viðurkenningar fyrir verkefni í þágu ungmenna á fundinum: Rauði krossinn í Síerra Leóne fyrir lífsleikniþjálfun ungmenna í kjölfar borgarastyrjaldar; Rauði krossinn í Gambíu fyrir hljómsveitina Afromending sem hjálpar ungmennum að takast á við atvinnuleysi og fíkn í gegnum tónlist; og Rauði krossinn í Indónesíu fyrir sálrænan stuðning í kjölfar flóðbylgjunnar miklu sem reið yfir Asíu fyrir fimm árum.  Þá hlaut Rauði krossinn í Kenýa viðurkenningu fyrir forvarnarstarf sitt vegna lofstlagsbreytinga.