Rauða kross hreyfingin bregst við loftslagsbreytingum, stríði og efnahagskreppunni

26. nóv. 2009

Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans, sem er stærsta mannúðarhreyfing í heimi, mun leggja alla sína krafta í að bregðast við þeim mikla mannúðarvanda sem steðjar að heiminum í dag. Leiðtogar Rauða krossins munu halda áfram að brýna fyrir ríkisstjórnum og ráðamönnum að það skipti mestu máli að huga að velferð þeirra sem minnst mega sín og líða mest í hörmungum hvort sem er af völdum styrjalda, náttúruhamfara eða efnahagskreppu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu fullrúaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans á fundi sem lauk í Naíróbí í gærkvöldi. Fulltrúaráðið er skipað leiðtogum Rauða kross hreyfingarinnar og kemur saman annað hvert ár. Fulltrúar rúmlega 180 landa voru á fundinum, en nú eru 150 ár liðin frá því að grunnurinn var lagður að stofnun Rauða kross hreyfingarinnar.

„Rauða kross hreyfingin trúir því að með samstöðu og samvinnu sé hægt að bæta lífsgæði þeirra sem standa höllum fæti í heiminum í dag,” segir Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands að fundi loknum. „Þetta er aðeins hægt með samstöðu því þörfin fyrir mannúðaraðstoð Rauða krossins eykst með hverjum degi. Milljónir sjálfboðaliða Rauða krossins um allan heim vinna daglega að því að bæta líf þeirra sem verst eru staddir. Allir geta lagt sitt að mörkum við það starf."

Fulltrúaráð Rauða kross hreyfingarinnar varar við áhrifum af völdum loftslagsbreytinga sem ógna lífi milljóna manna um allan heim og eru helsta orsök náttúruhamfara af völdum veðurs.  Því sé lífsnauðsynlegt að leggja meira fé til almannavarna, draga úr hættu sem stafar af náttúruhamförum, og gera samfélög betur til þess fallin að verjast áföllum.

Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri, kynnti áherslur Rauða kross Íslands samkvæmt umhverfisstefnu félagsins í umræðum í málstofu sem um aðgerðir Alþjóða Rauða krossins í loftslagsmálum. Rauði kross Íslands er fyrsta landsfélagið til að marka sér umhverfisstefnu og er henni einnig ætlað að hafa áhrif á þessi mál hjá Alþjóða Rauða krossinum. Ýmis atriði sem eru í samræmi við umhverfisstefnu Rauða kross Íslands komu fram í niðurstöðum málstofunnar.
 
Loftslagsbreytingar, styrjaldir, ofbeldi og fátækt hafa orðið til þess að tugir milljóna hafa orðið að flýja heimkynni sín og eru nú á vergangi – innan eigin landamæra eða á flótta í öðrum löndum. Rauða kross hreyfingin mun beita sér fyrir því að koma í veg fyrir slíka fólksflutninga eins og mögulegt er, en veita fórnarlömbum jafnframt alla nauðsynlega aðstoð.  Innflytjendur sem lifa á jaðri samfélagsins og njóta engrar þjónustu eru einnig skjólstæðingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim.

Þá mun Rauða kross hreyfingin halda áfram baráttunni gegn vopnum sem granda mannslífum jafnvel áratugum eftir að þeim var beitt. Áfram er brýnt fyrir stjórnvöldum og ríkistjórnum að virða og fara eftir alþjóðlegum mannúðarlögum sem enn veita besta vörn gegn ólögmætum aðgerðum í stríði – 60 árum eftir að Genfarsamningarnir voru undirritaðir.