Hvernig er spornað við barneigum í þróunarlöndum?

21. des. 2004

Hvernig er spornað við barneignum í þróunarlöndunum. Hvergi í umræðu um bág kjör og vesöld heyri ég um getnaðarvarnir. Hvernig er þessari hjálp farið. Á meðan ég heyri ekkert um að reynt sé að takmarka fólksfjölda þar sem neyðin er mest get ég ómögulega verið að styðja endalaust að gefið sé mjöl og halda svo áfram að horfa á myndir af hungruðum börnum ár eftir ár þar sem þessi tækni er til í heiminum og tókst ágætlega í Kína?

Svar:
Það sem hefur gefist hvað best í viðleitninni við fækkun barneigna í heiminum er menntun og fræðsla. En það tekur tíma og þarfnast meiri fjármuna en virðast vera fáanlegir, því miður. Það er víða fjallað um þennan þátt en kannski þurfum við sem störfum að þessum málaflokki hér á landi einmitt að huga betur að því að koma þessum málum meira í umræðuna. Þakka þér ábendinguna.

Í þeim tvíhliða verkefnum sem Rauði kross Íslands styður s.s. í sunnanverðri Afríku -  í heilsugæslu og stuðningi við alnæmissjúka  - er mikið unnið að fræðslu, m.a. um getnaðarvarnir og barneignir. En þar er samt sem áður nauðsynlegt að veita aðstoð við að auka matvælaframleiðslu eða tímabundna mataraðstoð þar sem mörg börn hafa misst foreldra sína og um leið fyrirvinnu fjölskyldunnar og þeir sem sjúkir eru geta ekki unnið fyrir sér.