12. sep. 2009 : Umfangsmikil flugslysaæfing á Egilsstöðum

Hérðas- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins tók þátt í flugslysaæfingu sem sett var upp á Egilsstaðaflugvelli í dag. Flugvél með 32 farþega og þrjá í áhöfn átti að hafa hlekkst á við norðurenda flugbrautarinnar þar sem hún brotnaði í tvennt og eldur kom upp.

Sjálfboðaliðar deildarinnar opnuðu söfnunarsvæði aðstandenda þar sem 35 aðstandendur þolenda leituðu aðstoðar. Þar veitti skyndihjálparhópur Rauða krossins einnig skyndihjálp þeim 10 farþegum sem voru minnst slasaðir. Óskað var eftir áfallahjálparteymi úr Reykjavík. Sex þeirra voru strax tilbúnir og áttu að hafa farið austur með ímyndaðri flugvél.

10. sep. 2009 : Grillveisla á Reyðarfirði

Rauðakrossdeild Reyðarfjarðar, BYKO á Reyðarfirði og Rafveita Reyðarfjarðar buðu til heljarmikillar grillveislu í rafveitugilinu um síðustu helgi. Gunnar Th. Gunnarsson átti hugmyndina að hátíðinni og var markmiðið að gefa íbúum á Reyðarfirði kost á að kynnast betur enda hefur orðið mikil fólksfjölgun á Reyðarfirði á undanförnum árum.

Liðlega 300 manns mættu enda var boðið upp á glæsilegar veitingar – heilgrillað naut og pylsur fyrir krakkana. Þegar allir voru orðnir saddir settist fólk upp í gil þar sem sungið var fram á kvöld. Ákveðið hefur verið að stefna að því að bjóða aftur til veislu næsta sumar og þá mæta örugglega allir Reyðfirðingar.