14. okt. 2009 : Sjálfboðaliðar frá Alcoa vinna fyrir Rauða krossinn

Starfsmenn Alcoa Fjarðaáls lögðu hönd á plóg og unnu sjálfboðavinnu fyrir Rauða krossinn dag einn í október. Er þetta gert til að sína að starfsmenn fyrirtækisins séu tilbúnir að endurgjalda samfélaginu.

Í þetta sinn nutu fjórar Rauða kross deildir í Fjarðabyggð vinnuframlags  þeirra við fatasöfnun. Á Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði gengu sjálfboðaliðar  í hús og söfnuðu saman fatapokum frá Fatasöfnun Rauða krossins, á Reyðarfirði og Eskifirði dreifðu sjálfboðaliðarnir pokunum í hús. 

Á Eskifirði komu sjálfboðaliðar saman og máluðu skrifstofu Rauða krossins og festu fatasöfnunargám Rauða krossins við húsið svo hann fyki ekki.

13. okt. 2009 : Svæðisfundur Rauða kross deilda á Austurlandi haldinn þrátt fyrir óveður

Svæðisfundur deilda á Austurlandi var haldinn á laugardaginn á Djúpavogi og mættu fulltrúar sex deilda af ellefu. Áætlað var að halda deildarnámskeið áður en fundur hófst en vegna óveðurs komst leiðbeinandinn Hlér Guðjónsson ekki austur með flugi. Fyrirhugaðir fyrirlestrar frá Erni Ragnarssyni verkefnisstjóra fatasöfnunar og Svövu Traustadóttir varaformanni URKÍ féllu einnig niður vegna sömu orsaka en þrátt fyrir allt þetta var ákveðið að halda fundinn.
Málfríður Björnsdóttir formaður flutti skýrslu svæðisráðs þar sem farið var yfir þau verkefni sem unnin voru á svæðisvísu milli ára.

Starfs- og fjárhagsáætlun síðasta árs og árið 2010 var tekin fyrir og að því loknu var gengið til kosninga í svæðisráð. Pétur Karl Kristinsson formaður Eskifjarðardeildar lauk setu og inn kom Egill Egilsson formaður Djúpavogsdeildar, Málfríður Björnsdóttir formaður Héraðs- og Borgarfjarðardeildar lauk setu sem formaður en situr áfram í eitt ár í ráðinu og við tók Anna Ragnheiður Gunnarsdóttir varamaður í Reyðarfjarðardeild.