17. mar. 2010 : Aðalfundarhrinu lokið á Austurlandi

Aðalfundum deilda Rauða krossins á Austurlandi lauk með fjölmennum fundi á Stöðvarfirði. Sérstakir gestir á fundinum voru Halldór U. Snjólaugsson og Esther Brune sem sitja í stjórn Rauða kross Íslands.

Þóra Björk Nikulásdóttir formaður Stöðvarfjarðardeildar flutti skýrslu síðasta árs en þar kom meðal annars fram að deildin flutti í nýtt húsnæði og opnaði fatabúð sem kölluð er Litla Rauða kross búðin. Í haust bættist við lopasala í búðinni sem nýtur vinsælda.

Fjöldi sjálfboðaliða gekk til liðs við deildina og stærsta verkefnið var „Föt sem framlag". Framleiddir voru 74 ungbarnapakkar og þar af fóru 55 pakkar með sendingunni til Hvíta Rússlands í desember.

12. mar. 2010 : Töff krakkar á Rauða kross balli

Þegar Stóra Rauða kross búðin opnaði á Eskifirði kom upp sú hugmynd að halda Rauða kross ball  í Knellunni sem er félagsmiðstöð ungmenna á Eskifirði. Þegar Knellan flutti í nýtt húsnæði á dögunum var ákveðið að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.

Allir ballgestir versluðu sér föt í Stóru Rauða kross búðinni en hagnaðurinn var látinn renna til Knellunnar. Ágóðinn var einnig búðarinnar sem fékk góða auglýsingu fyrir þau fínu föt sem þar fást.

10. mar. 2010 : Hönnuðu og teiknuðu lukkumiða til styrktar Haítíbúum

Stór hluti krakkanna í yngri hópi ungmennastarfsins hjá Stöðvarfjarðardeild Rauða krossins kom saman í Heimalundi, húsnæði deildarinnar, til að safna fyrir þá sem eiga um sárt að binda á Haítí. Krakkarnir seldu kaffi og kökur og lukkumiða til stuðnings málefninu, og fengu auk þess allan ágóða af sölu Litlu Rauðakrossbúðarinnar þann daginn. 
 
Krakkarnir hafa verið afar áhugasöm um verkefnið og hönnuðu og teiknuðu til dæmis alla lukkumiðana sjálf. Þeir sem misstu af lukkumiðum á laugardag mega búast við heimsókn frá krökkunum næstu daga því þau ætla að ganga í hús og bjóða fólki þá til kaups. Síðan verður dregið úr seldum miðum í Heimalundi laugardaginn 20. mars.

10. mar. 2010 : Hönnuðu og teiknuðu lukkumiða til styrktar Haítíbúum

Stór hluti krakkanna í yngri hópi ungmennastarfsins hjá Stöðvarfjarðardeild Rauða krossins kom saman í Heimalundi, húsnæði deildarinnar, til að safna fyrir þá sem eiga um sárt að binda á Haítí. Krakkarnir seldu kaffi og kökur og lukkumiða til stuðnings málefninu, og fengu auk þess allan ágóða af sölu Litlu Rauðakrossbúðarinnar þann daginn. 
 
Krakkarnir hafa verið afar áhugasöm um verkefnið og hönnuðu og teiknuðu til dæmis alla lukkumiðana sjálf. Þeir sem misstu af lukkumiðum á laugardag mega búast við heimsókn frá krökkunum næstu daga því þau ætla að ganga í hús og bjóða fólki þá til kaups. Síðan verður dregið úr seldum miðum í Heimalundi laugardaginn 20. mars.

9. mar. 2010 : Íslenskuæfingar á Reyðarfirði

Sjálfboðaliðar Rauða krossins og Kirkjunnar á Reyðarfirði bjóða þeim sem vilja æfa sig í íslensku að koma í safnaðarheimilið í spjall og spil á miðvikudagsmorgnum klukkan 10. Allir eru velkomnir hvort sem þeir eru vanir að tala íslensku eða ekki.

Þeir sem vita af útlendingum sem vilja æfa sig í íslensku eru hvattir til þess að láta þá vita af þessum möguleika. Þjálfunin er ókeypis og ekki þarf að skrá sig. Þeir sem hafa lausa stund á miðvikudagsmorgnum og vilja hjálpa fólki að læra íslensku eru líka hjartanlega velkomnir.

2. mar. 2010 : Sköpunargleði í hjálparstarfi

Í félagsstarfi aldraðra á Reyðarfirði er hópur kvenna í prjónahópi. Þær prjóna reglulega saman og senda framleiðsluna í Rauðakrossbúðirnar. Reyðarfjarðardeild Rauða krossins hefur á móti útvegað prjónahópnum garn.

Víða á landinu eru hópar innan félagsstarfs eldri borgara sem gefa Rauða krossinum alls kyns hannyrðir. Afurðirnar fara annað hvort til þróunaraðstoðar eða eru seldar í fatabúðunum þar sem hagnaðurinn er notaður til hjálparstarfs.