15. des. 2010 : Fatamarkaðir á Austurlandi

Nokkrar deildir Rauða krossins á Austurlandi halda fatamarkaði í desember. Á Egilsstöðum var markaðurinn opinn dagana 3. til 11. desember í sláturhúsinu (menningarhúsinu) á Egilsstöðum á vegum Héraðs- og Borgarfjarðardeildar. Fjöldi sjálfboðaliða sáu um markaðinn og gekk salan mjög vel. Ágóðinn mun skiptast á milli verkefna í Malaví í Afríku og innanlands.

Eskifjarðardeild rekur Stóru Rauða kross búðina sem er opin á laugardögum fram að jólum frá klukkan 10-14. Þar er alltaf verið að taka upp nýjar vörur og einnig eru þeir sem áhuga hafa á sjálfboðnu starfi hvattir til að hafa samband í síma 661 7816. Það er einnig velkomið að hringja ef fólk vanhagar um föt og kemst ekki á laugardaginn.

8. des. 2010 : Sinn er siður í landi hverju

Það var glatt á hjalla um síðustu helgi þegar Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins stóð fyrir alþjóðlegri jólaveislu. Gestirnir sem voru frá ýmsum þjóðlöndum komu með góðgæti og kynntu jólasiði frá sínu heimalandi. Einnig voru íslenskir jólaréttir eins og laufabrauð og randakökur á boðstólnum.

Að lokum sameinuðust allir í dansi í kring um jólatréð og sungin voru íslensk jólalög.