3. jún. 2011 : Börn og umhverfi, sívinsælt námskeið fyrir börn

Nú stendur sem hæst kennsla á námskeiðunum Börn og umhverfi sem haldin eru af deildum Rauða krossins víðsvegar um landið. Hátt í 500 börn útskrifast árlega af þessum sívinsælu námskeiðum sem eru fyrir börn 12 ára og eldri sem gæta yngri barna.
 
Þátttakendur læra ýmislegt er varðar umgengni og framkomu við börn, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Einnig er lögð áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

1. jún. 2011 : Vorverkin hjá Seyðisfjarðardeild Rauða krossins

Sú hefð hefur skapast á Seyðisfirði að Rauða kross deildin færir forskólabönum reiðhjólahjálma á Hjólreiðadaginn sem haldinn er í lok hvers skólaárs. Margir aðilar koma að þessum degi þar á meðal lögreglan sem skoðar hjól barnanna og sjálfboðaliðar Rauða kross deildarinnar sem afhenda hjálmana ásamt fleirum. Börnin fengu ekki bara hjálma að þessu sinni því deildin gaf þeim líka endurskinsvesti. Kiwanishreyfingin gaf við sama tækifæri börnum úr 1. bekk reiðhjólahjálma.

En vegna úrhellis rigningar varð hjólatúr hópsins mjög stuttur. Farið var frá gamla barnaskólanum að Hótel Öldu þar sem í boði var heitt súkkulaði og meðlæti sem var vel þegið og allir hressir þrátt fyrir úrhellið utandyra.