Samstarf Rauða krossins og Fjarðabyggðar

14. des. 2009

Fimm deildir Rauða kross Íslands í Fjarðabyggð; Eskifjarðardeild, Fáskrúðsfjarðardeild, Norðfjarðardeild, Reyðarfjarðardeild og Stöðvarfjarðardeild hafa gert samning við sveitarfélagið Fjarðbyggð. Samningurinn er framhald á samningi sem gerður var þann 14. febrúar 2008, með viðeigandi breytingum í samræmi við breyttar aðstæður og gildir hann til ársloka 2011.

Innihald samningsins er að Rauða kross deildirnar vinni áfram með Fjarðabyggð að móttöku nýrra íbúa og þjónustu við þá. Nýir íbúar í Fjarðabyggð eru sóttir heim, boðnir velkomnir og þeim færður lykill að Fjarðabyggð ásamt handbók með upplýsingum um þjónustu í sveitarfélaginu.
Verkefnisstjóri Rauða krossins er Sigríður Herdís Pálsdóttir. Auk þess að annast móttöku nýrra íbúa mun hún vinna náið með deildunum að þeim verkefnum sem þær eru að vinna að á hverjum stað og kemur að fræðslu og námskeiðahaldi.

Við undirskrift samnings sagði Helga Jónsdóttir bæjarstjóri: „Rauði krossinn vinnur óeigingjarnt og vaxandi starf í þágu samfélagsins í Fjarðabyggð. Auk hefðbundinna félagslegra viðfangsefna á vegum Rauða krossins hefur starf móttökufulltrúa nýrra íbúa verið þróað í samstarfi Rauða krossins og bæjarins á síðustu misserum. Markmiðið er að nýir íbúar í sveitarfélaginu fái notið sín og samfélagið fái notið krafta þeirra. Bæjaryfirvöld fagna nýjum samstarfssamningi við Rauða kross félögin í Fjarðabyggð um framhald þessa verkefnis til næstu tveggja ára.“