Áramótakveðja frá formanni Stöðvarfjarðardeildar

25. jan. 2010

Við jól og áramót er tilhlýðilegt að líta til baka og skoða það sem gert var á síðasta ári. Um leið og ég sendi nýárskveðjur til allra langar mig að segja frá því sem við í Stöðvarfjarðardeildinni höfum verið að bardúsa á síðasta ári.

Árið 2009 var stórt ár hjá okkur sem hófst með því að þann 6. janúar var okkur tilkynnt að við fengjum íbúðarhúsið Heimalund til afnota. Íbúðalánasjóður á húsið og sýnir okkur þessa rausn.

Við einhentun okkur í að gera húsið klárt, þrífa og laga og koma okkur fyrir. Að því loknu skipulögðum við dagskrá fyrir húsið og þann 24. janúar opnuðum við það með pompi og prakt og komu um 50 manns til okkar í kaffi þann dag.

Í Heimalundi gerist flest það sem fram fer hjá deildinni. Hópurinn „Föt sem framlag“ hittist einu sinni í viku, stuðningshópur við fólk með geðraskanir hefur aðstöðu í húsinu og heimsóknavinir koma þar saman. Ungmennastarfið er í kjallaranum. Rósa og Zdenek sáu um það í fyrravetur en óvíst er í hvaða mynd það heldur áfram.

Litla Rauða kross búðin
Þann 4. apríl opnuðum við Litlu Rauða kross búðina og hefur verið mikið að gera þar; fjöldinn allur af fólki víðsvegar af að Austurlandi hefur heimsótt okkur og ótrúlegt hvað margir eru duglegir að koma með föt og gefa í búðina. Litla Rauða kross búið er opin á laugardögum frá kl. 14:00 til 16:00 og á mánudagskvöldum þegar hópurinn Föt sem framlag hittist og stundum lengur eftir þörfinni. Í sumar vorum við með föt til sölu á Salthúsmarkaðnum – handverksmarkaði heimafólks - og kom það vel út.

Haldið var skyndihjálpanámskeið í vor og tóku 15 manns þátt í því. Deildin bauð upp á súpu og brauð á námskeiðinu.

Við sendum frá okkur 20 fatapakka í janúar og 55 fatapakka til Hvíta Rússlands í haust.

Í byrjun desember buðum við sjálfboðaliðum okkar og gestgjöfum heimsóknavina á jólahlaðborð og var það frábær stund. Alls mættu 35 manns, sem voru alls ekki allir sem unnið hafa með okkur.

Við erum með kaffihorn sem er opið á laugardögum um leið og Litla Rauða kross búðin og er ávallt vel mætt þar.

Við sendum öllum bestu áramótakveðju með þökkum fyrir árið sem er að líða og hlökkum til áframhaldandi samstarfs á nýju ári.

Fyrir hönd  Stöðvarfjarðardeildar Rauða krossins
Þóra Björk Nikulásdóttir, formaður.