Hönnuðu og teiknuðu lukkumiða til styrktar Haítíbúum

10. mar. 2010

Stór hluti krakkanna í yngri hópi ungmennastarfsins hjá Stöðvarfjarðardeild Rauða krossins kom saman í Heimalundi, húsnæði deildarinnar, til að safna fyrir þá sem eiga um sárt að binda á Haítí. Krakkarnir seldu kaffi og kökur og lukkumiða til stuðnings málefninu, og fengu auk þess allan ágóða af sölu Litlu Rauðakrossbúðarinnar þann daginn. 
 
Krakkarnir hafa verið afar áhugasöm um verkefnið og hönnuðu og teiknuðu til dæmis alla lukkumiðana sjálf. Þeir sem misstu af lukkumiðum á laugardag mega búast við heimsókn frá krökkunum næstu daga því þau ætla að ganga í hús og bjóða fólki þá til kaups. Síðan verður dregið úr seldum miðum í Heimalundi laugardaginn 20. mars.

„Ég er mjög stolt af krökkunum, þau hafa verið svo dugleg og taka þetta verkefni mjög alvarlega," sagði Þóra Björk Nikulásdóttir formaður Stöðvarfjarðardeildar. „Það var hrein unun að vinna með þeim."

Eldri krakkarnir í ungmennastarfinu eru svo að vinna að öðru verkefni, einnig til styrktar þeim sem urðu illa úti í hamförunum á Haítí.

Krakkarnir gera sig klár að selja kaffið.
Þóra Björk formaður og gestir í Heimalundi bíða eftir kökunum góðu.
Nýjasti sjálfboðaliði Stöðvarfjarðardeildar, hún Þruma, kíkti í heimsókn og var ósköp spök en hálf hissa á að hafa þenna fína klút um hálsinn.