Eskifjarðardeild gefur endurskinsvörur

30. nóv. 2010

Eskifjarðardeild Rauða kross Íslands lagði sitt til umferðaröryggis í bænum með því að færa nemendum grunnskólans endurskinsvesti og endurskinsmerki.

Allir nemendur fyrsta og fjórða bekkjar fengu endurskinsvesti sem merkt voru Rauða krossinum, skólanum og nemendum sjálfum. Hafa því allir nemendur á yngsta stigi grunnskólans fengið slík vesti til eignar, en nemendur annars og þriðja bekkjar fengu sín síðasta vetur.
Ennfremur var öllum nemendum í 5.-10. bekk gefin tvö minni endurskinsmerki sem hægt er að líma á úlpur eða skólatöskur.

Grunnskólanum var einnig fært eitt bekkjarsett af vestum og fimm vesti á starfsmenn. Er það von deildarinnar að hægt sé að nýta þessi vesti við ýmis störf og leiki á vegum skólans og að með þessu verði þeir nemendur og  starfsmenn sem eiga erindi út fyrir skólann sýnilegri í umferðinni.

Eskifjarðardeildin hvetur nemendur eindregið til að nota vestin og endurskinsmerkin óspart svo þau sjáist auðveldlega í myrkrinu í vetur og til þess að auka öryggi barnanna enn frekar er því beint til foreldra að þau hvetji börnin til að nota vestin við sem flest tækifæri.