Hannaði Rauða kross vesti fyrir vinnuna

3. feb. 2011

Jóhanna María Henriksson, starfsmaður Héraðs- og Borgarfjarðardeildar Rauða krossins er vel merkt í vinnunni. Jóhanna hannaði og prjónaði lopavesti til að nota við skyldustörfin þar sem merki Rauða krossins er í forgrunni. Vestið var vígt í gær á fundi Þekkingarnetsins á Egilstöðum þar sem Jóhanna kynnti úrræði Rauða krossins fyrir atvinnuleitendum, og var gerður góður rómur að klæðnaðinum.

Jóhanna segir hugmyndina hafa kviknað við prjónaskap fyrir verkefnið Föt sem framlag, en stór hópur sjálfboðaliða Rauða krossins um allt land prjónar föt og útbýr ungbarnapakka sem sendir eru í gegnum systrafélög Rauða krossins í Hvíta Rússlandi og Malaví.

„Ég átti afgangslopa, og ákvað að skella í vesti til að nota í vinnunni.  Þetta er miklu þægilegra og betra en flíspeysan sem við notum oftast til að auðkenna okkur," segir Jóhanna.

Og nú er spurning hvort fleiri taki upp hönnun Jóhönnu til að merkja sig Rauða krossinum. Óhætt að leita til hennar um góð ráð við prjónaskapinn.