Október

15. des. 2004

Austurland   -    Svæðisfréttir                             
Október 2004  
      
                                      

Frá opnun deidarinnar á Höfn 8. maí.

Alþjóðadagur Rauða krossins haldinn hátíðlegur á Höfn
Ný aðstaða deildarinnar á Höfn var tekin í notkun 8. maí. Á opnu húsi þennan dag komu tvær dömur frá URKÍ og kynntu starf þeirra. Ungt fólk hefur verið áberandi í starfi deildarinnar nú í haust og voru í meirihluta í hópi þeirra sem gengu til góðs 2. október. Deildin hefur haldið námskeið í sálrænni skyndihjálp sem Margrét Blöndal hefur stýrt. Það er heilmargt framundan á Höfn, námskeið og opin hús einn laugardag í mánuði.

Mannúð og menning í Austurbyggð
Stöðvarfjarðar- og Fáskrúðsfjarðardeildir RKÍ gengust sameiginlega fyrir námskeiðinu Mannúð og menning í Austurbyggð dagana 7. - 11. júní sl. Meira.

Bás taílendingana var vinsæll.
Þjóðahátíð
Þjóðahátíð Austurlands var haldin í þriðja sinn í íþróttahúsinu á Egilsstöðum, sunnudaginn 12. september sl. Hátíðin hefur áður verið haldin á Reyðarfirði og Seyðisfirði, en ákveðið var að hafa hana á Egilsstöðum þar sem fjölgun útlendinga hefur orðið á svæðinu vegna framkvæmdanna á Kárahnjúkum. Sýndu þeir hátíðinni mikinn áhuga og tóku þátt í henni með mikilli ánægju.
Á hátíðinni var boðið upp á fjölbreytta skemmtidagskrá frá hinum ýmsu þjóðlöndum með ávarpi, dansi, söng og spili auk kynninga í básum frá 14 löndum og 5 stofnunum. Um eitt þúsund manns voru á hátíðinni, þar af um 150 sjálfboðaliðar.
Kvöldið áður var kertafleyting haldin í þágu friðar á tjörninni á Egilsstöðum ásamt ávarpi og tónlistarflutningi.

Góðir gestir frá Suður-Afríku
Stöðvarfjarðardeild RKÍ fékk góða gesti í heimsókn í september. Similo og  Fernel frá Suður-Afríku komu til okkar eftir að hafa verið með um þrjátíu öðrum  ungmennum í alþjóðlegum sumarbúðum á Snæfellsnesi.  Þeir félagar eru frá Höfðaborg (Cape Town) sem er á syðsta oddi Suður-Afríku og  eru báðir leiðtogar í starfi RKÍ í heimaborg sinni. Í augum okkar venjulegra  Íslendinga eru þeir eins: Afríkubúar! Uppruni þeirra er þó ólíkur. Fernel er  "litaður" ("coloured"), sem þýðir að
hann er af indversk-evrópskum uppruna, en Similo er "svartur" ("black/kafee") sem merkir að hann er suður-afrískur í húð og hár. Þeir tala sitt hvor tungumálið, annars vegar afrikaan og hins vegar xhosa. Sín á milli hafa þeir síðan þróað sitt eigið tungumál, blöndu beggja málanna, sem þeir halda að enginn skilji nema þeir tveir!

Eftir að hafa heimsótt Steinasafn Petru Á Stöðvarfirði fóru þeir Fernel
og Similo m.a. í grunnskólann okkar og ræddu við nemendur um heimaland sitt, áhugamál, alnæmi  o.fl. Nemendur kunnu vel að meta heimsóknina og voru duglegir að leggja spurningar fyrir þá, allt frá því af hverju hárið á þeim væri "svona" og til þess hvort það væru til tölvur heima hjá þeim.

Similo hreykinn af með fenginn.
Þeir  félagar fóru líka í róður  með heimamönnum og þótti mikið til koma. Veiddu sinn fiskinn hvor, þótt á ólíkan  hátt væri -- Similo tókst nefnilega að vefja girninu utan um sporðinn á lítilli  ýsu og er ekki vitað um neinn sem hefur tekist að veiða ýsu á þann hátt. Var ákveðið að þessi veiðiaðferð gengi héðan í frá undir nafninu "afríska leiðin". Eftir dvöl á Stöðvarfirði lá leið þeirra félaga í Breiðdalinn, þar sem þeir gistu tvær nætur og fóru m.a. í kajaksiglingu, útreiðartúr, mjólkuðu kýr o.fl.

Að þeirri heimsókn lokinni lá leiðin á Þjóðahátíð á Egilsstöðum sem
haldin var sunnudaginn 12. september. Þar sáu þeir um bás um Suður-Afríku og vöktu óskipta athygli gesta, ekki síst fyrir elskulega framkomu. Það var einstaklega skemmtilegt og lærdómsríkt að fá Fernel og Similo í heimsókn og óskandi að við gætum gert meira af því að bjóða til okkar
ungu fólku frá öðrum löndum með ólíka menningu. Við lærum svo ótrúlega mikið á því.