Óku um göturnar í hundakerru

18. júl. 2012

Áhugasamir gestir á sjúkradeild Héraðssjúkrahúss Austurlands fengu ökuferð með óhefðbundnum fararskjóta í blíðunni á Egilsstöðum. Mynd/Margrét Aðalsteinsdóttir Óvenjuleg sjón blasti við vegfarendum á Egilsstöðum á föstudaginn var þegar aldraðir vistmenn á sjúkradeild Héraðssjúkrahúss Austurlands þeystust um götur í nágrenni sjúkrahússins á vagni sem tveir hundar drógu.

Ökuferðirnar reyndust á vegum Hjördísar Hilmarsdóttur, sjálfboðaliða hjá Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins á Íslandi en Hjördís fer í reglulegar heimsóknir með hundinn Eld til vistmanna á sjúkradeildinni. Eldur er af tegundinni Síberíu Huský en í þetta skiptið var hvolpurinn Bergur með í för. Þá spennti Hjördís þá fyrir vagn og bauð áhugasömum upp á stuttar ferðir með vagninum.

Reyndist lítill áhugi á ferðunum fyrst um sinn en eftir að einn vistmaður braut ísinn létu fjórir til viðbótar tilleiðast og skemmtu sér víst hið besta.

Um 550 sjálfboðaliðar Rauða krossins taka þátt í vikulegum heimsóknum líkum þessari til um 650 manns á ári. Markmiðið með heimsóknunum er að rjúfa félagslega einangrun og einmanaleika vistmanna á stofnunum og heimilum meðal annars fyrir langveik börn, aldraða og fatlaða.

Þá eru tæplega fimmtíu sérþjálfaðir hundar stundum með í för en hundarnir ná oft betur til þeirra sem eiga erfitt með samskipti við annað fólk.