Hjálpumst að um jólin

17. des. 2012

Eins og undanfarin ár er samvinna milli Rauða krossins í Fjarðabyggð og Breiðdalsvík, Kirkjunnar, Fjarðabyggðar og mæðrastyrksnefndar á Norðfirði um að styrkja þá sem eiga erfitt um jólin. Fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar hafa undanfarið styrk jólasjóðinn veglega.

Styrkurinn felst í úttektarkorti í nokkrum matvöruverslunum í Fjarðabyggð. Einnig er kominn jólasveinn í Molann á Reyðarfirði sem tekur á móti jólapökkum sem dreift verður til bágstaddra á svæðinu fyrir jólin og í Nytjamarkaðnum í Steininum á Norðfirði.

Jólasjóðnum barst veglegt framlag frá Nytjamarkaðnum í Steininum í Neskaupstað, sem koma mun sér vel í úthlutunum sjóðsins fyrir jólin. Framlagið felst í úttektarheimildum í kjörversluninni Nesbakka í Neskaupsstað.

Krakkar í TTT starfi hjá kirkjunni á Fáskrúðsfirði afhentu sjóðnum framlag á aðventukvöldi á Fáskrúðsfirði á miðvikudag, helming af því sem þau söfnuðu í Bíblíumaraþoni í vor.

Þeir sem vilja leggja þessu verkefni lið er bent á að leggja inn á sameiginlegan jólasjóð Fjarðarbyggðar: Banki 0166-15-380065, kennitala 520169-4079.