Málþing um fjölmenningarlegt Austurland

16. okt. 2006

Á dögunum var haldið málþing um fjölmenningarlegt Austurland sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi stóð fyrir. Áherslan var lögð á stöðu málefna íbúa af erlendum uppruna og leiðir til úrbóta. Fjallað var um stefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda, upplýsingamiðlun til þeirra og rannsóknir og túlkaþjónustu. Þá var varpað fram spurningunni um hvað mæti nýjum íbúum á Austurlandi og hvort íslensk tunga sé lykillinn að samfélaginu.

María Helena Haraldsdóttir svæðisfulltrúi Rauða krossins á Austurlandi fjallaði um starf Rauða krossins og hvaða verkefni eru í boði til að rjúfa einangrun.

Mikil áhersla er lögð á að innflytjendur læri íslensku og því hafa nokkrar Rauða kross deildir á Austurlandi styrkt þá með niðurgreiðslu á íslenskunámi. Einnig er boðið upp á aðstoð við heimanám erlendra barna í grunnskólum með það að markmiði að auðvelda þeim aðlögun að íslensku samfélagi og virkja þau til þátttöku í því.

Ýmis verkefni eru á döfinni á Austurlandi. Áætlað er að halda næstu Þjóðahátíð í mars á næsta ári á Fáskrúðsfirði í samvinnu við erlenda starfsmenn og maka er vinna hjá Bechtel á Reyðarfirði og á Kárahnjúkum.

Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins ætlar að hafa opið hús á sunnudögum í vetur fyrir erlenda verkamenn á Kárahnjúkum og verkefni í samvinnu við Vegahúsið er í pípunum.