Nýtt spennandi verkefni á Austurlandi

30. nóv. 2006

Héraðs-og Borgarfjarðardeild Rauða kross Íslands og vegaHÚSIÐ sem er ungmennahúsið á Egilsstöðum eru að byrja með nýtt spennandi verkefni. Markmið verkefnisins er að rjúfa einangrun fólks af erlendum uppruna, sérstaklega erlendra kvenna og kynnast menningu ólíkra landa.

Boðið verður upp á ýmis námskeið, til dæmis að búa til íslenska kjötsúpu, prjóna úr íslensku ullinni og þæfingu. Einnig munu erlendu konurnar koma með eitthvað úr sinni menningu til að deila með öðrum.

Nú þegar hafa verið tvær uppákomur í vegaHÚSINU. Shelly Saxen frá Indlandi sem býr á Kárahnjúkum sýndi indverskar myndir, var með indverskan mat og gerði „henna tattoo” á þær konur sem vildu.

Shelly Saxen frá Indlandi gerði „henna tattoo" á þær konur sem vildu.
Einnig kynntu tvær kínverskar konur vörur frá Kína. Þóttist þetta takast mjög vel. Í seinna skiptið var kynnt úkraínsk menning þar sem Olena Yushchenko (frá Kiev) kynnti land sitt og þjóð og sýndi myndir og spilaði tónlist frá landinu hennar. Í bæði þessi skipti komust færri að en vildu.

Á nýju ári verður þessu haldið áfram af krafti og hefur verið stofnaður hópur sem heldur utan um verkefnið. Í þeim hópi eru Shelly Saxen frá Indlandi, Agnieszka frá Póllandi og fleiri erlendar konur, einnig Helga Sæunn stjórnarkona í Héraðs-og Borgarfjarðardeild og Kristín forstöðukonu í vegaHÚSINU. Það verður gaman að fylgjast með fleiri uppákomum á nýju ári.