Ferjuslysaæfing á Seyðisfirði

Herdísi Sigurjónsdóttur

21. nóv. 2005

Einar Hólm fjöldahjálparstjóri Seyðisfjarðardeildar Rauða kross Íslands skipar sínu liði í hlutverk.
Síðasta laugardag, 19. nóvember, var haldin umfangsmikil ferjuslysaæfing á Seyðisfirði. Æft var eftir séráætlun vegna ferjuslyss á Seyðisfirði undir stjórn Ástríðar Grímsdóttur sýslumanns. Æfð var samvinna viðbragðsaðila á vettvangi, fulltrúa í aðgerðastjórn í héraði og áhöfn samhæfingarstöðvarinnar í Reykjavík.

Klukkan 13:14 barst tilkynning frá Neyðarlínunni um að hafin væri æfing þar sem komið hafði upp eldur um borð í ferjunni Sky Princess í höfn á Seyðisfirði og að unnið yrði á Neyðarstigi F1 RAUÐUR. Aðgerðastjórn var virkjuð á Egilsstöðum og vettvangsstjórn almannavarna á Seyðisfirði og en Rauða kross deildirnar á svæðinu eiga fulltrúa í þeim. Samhæfingarstöðin í Reykjavík var virkjuð og Hjálparsíminn 1717.  Opnuð var loftbrú milli Egilsstaða og Reykjavíkur til að flytja aðstoðarlið frá sjúkrahúsum og slökkviliði austur til aðstoðar og til að flytja sjúklinga í aðra landshluta.

Fjöldi um borð í ferjunni var um 1300 manns og flestir óslasaðir og því var þáttur Rauða krossins viðfangsmikill, en þeir sem voru ekki slasaðir voru fluttir í fjöldahjálparstöð á Seyðisfirði og þaðan til Egilsstaða og áfram til Reykjavíkur. Ef um raunverulegt slys hefði verið að ræða hefðu verið opnaðar margar fjöldahjálparstöðvar í Reykjavík en á æfingunni  einungis ein á Seyðisfirði og enginn fluttur þaðan.

Júlía Siglaugsdóttir frá Egilsstöðum skráir einn farþega ferjunnar í fjöldahjálparstöðina.
Alls tóku 22 sjálfboðliðar og starfsmenn Rauða kross Íslands þátt í æfingunni og störfuðu þeir við margvísleg verkefni. Fjöldahjálparstjórn sem skipuð verður fulltrúum úr neyðarnefnd Seyðisfjarðardeildar stýrðu aðgerð Rauða kross deildanna og var stjórnin staðsett í Herðubreið. Skipaði fjöldahjálparstjórnin stjórnendur til að stýra fjöldahjálparstöð og söfnunarsvæði aðstandenda.

Opnað var söfnunarsvæði aðstandenda í grunnskólanum á Seyðisfirði, Nýja skólanum og var fólki bent á að fara þangað og leita upplýsinga. Þangað komu 15 aðstandendur sem léku hlutverk sitt af stakri snilld og þurftu sjálfboðaliðar Rauða krossins, prestar og áfallahjálparfólk frá HSA að glíma við erfið verkefni. Fjöldahjálparstöð var staðsett í Herðubreið, þar sem sjálfboðaliðar störfuðu við skráningu og aðhlynningu fórnarlamba.

Æfð voru viðbrögð Hjálparsímans 1717 vegna ferjuslyss og fyrirspurna ættingja. Rúmlega 20 símtöl bárust til sérþjálfaðra sjálfboðaliða Hjálparsímans frá aðstandendum og vinum sem voru að leita upplýsinga um afdrif síns fólks. Í samhæfingarstöðinni var unnið úr skráningarupplýsingum og æfð samskipti við sendiráð og ræðismenn vegna þeirra erlendu ríkisborgara sem lentu í slysinu. 

Æfingin tókst í alla staði vel og skilaði dýrmætri reynslu til allra sem tóku þátt í henni.

Hér er hægt að sjá fleiri myndir.