Nemendur Fellaskóla styrkja barnahermenn í Síerra Leone

26. okt. 2011

Nemendur í Fellaskóla á Fljótsdalshéraði hafa að undanförnu fræðst um stríðsátök og áhrif þeirra. Í framhaldinu efldu þeir til fjáröflunar, og rann helmingurinn af tekjunum í ferðasjóð, en að auki vildu nemendur styrkja Rauða krossinn. Nemur framlag þeirra 26 þúsund krónur.

Ákveðið var að nýta tekjurnar til styrktar börnum á stríðshrjáðum svæðum. Rauði krossinn er með verkefni í Síerra Leone þar sem rekið er athvarf fyrir fyrrum barnahermenn sem nú fá tækifæri til að mennta sig í iðngreinum, en í Síerra Leone herjaði um árabil borgarastyrjöld.

Rauði krossinn þakkar nemendum kærlega fyrir rausnarlegt framlag.