Sjálfboðaliðar Rauða krossins brugðust strax við rútuslysi

27. ágú. 2007

Tölvert reyndi á viðbragðskerfi Rauða krossins í kjölfar rútuslysins sem varð á Fljótsdalsheiði í gær. Um 30 farþegar voru í rútunni sem fór út af veginum í beygju í Bessastaðabrekkum á Fljótsdalsheiði og slösuðust um 15 þeirra misalvarlega.

Samhæfingastöðin í Skógahlíð í Reykjavík var virkjuð og jafnframt voru sjálfboðaliðar Rauða krossins í Héraðs- og Borgarfjarðardeild kallaðir út til að koma upp fjöldahjálparstöð í grunnskólanum á Egilsstöðum.

Fjöldahjálparstöðin var opnuð kl. 13:30, eða um 15 mínútum eftir að Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins var gert viðvart um slysið. Þangað voru þeir fluttir sem hlutu minniháttar meiðsli svo sem skrámur eða vægari högg, alls 18 menn. Aðrir voru fluttir með sjúkrabíl eða flugi til heilsugæslunnar á Egilsstöðum, á Fjórðungssjúkrahúsin á Akureyri og í Neskaupstað. Þeir sem hlutu alvarlega áverka voru fluttir til Reykjavíkur á Landspítala – Háskólasjúkrahús.

Í fjöldahjálparstöðinni var hlúð að mönnunum og þeim veitt áfallahjálp. Rauði krossinn kallaði út átta túlka á Egilsstöðum, og virkjaði presta á svæðinu til að veita sálgæslu.  Kaþólskur prestur og munkar sem þjóna kaþólskum íbúum á svæðinu aðstoðuðu einnig við sálrænan stuðning.

Rauði krossinn útvegaði einnig túlka í samvinnu við túlkaþjónustu Alþjóðahúss til að aðstoða þá sem fluttir höfðu verið á Landspítala og til að svara fyrirspurnum frá aðstandendum og sendiráðum í gegnum Hjálparsíma Rauða krossins 1717.  Hjálparsíminn gegnir mikilvægu hlutverki við að svara slíkum fyrirspurnum á neyðarstundu, og bárust að minnsta kosti 25 símtöl erlendis frá þar sem grennslast var fyrir um afdrif ástvina.

Mennirnir sem fluttir voru á fjöldahjálpastöð Rauða krossins á Egilsstöðum voru misjafnlega á sig komnir og voru sumir með skurði en aðrir þjáðust af höfuð- og axlarverkjum. Það kom í hlut nýstofnaðs skyndihjálparhóps ungmenna hjá Rauða kross deildinni eystra að veita þeim fyrstu hjálp. Þarna reyndi verulega á skyndihjálparkunnáttu neyðarvarnarfólks Rauða krossins í fjöldahjálparstöðvum og leysti hópurinn sitt verkefni með mikilli prýði. 

„Allt starf Rauða krossins vegna þessa slyss gekk mjög vel. Sjálfboðaliðar Rauða kross deildanna brugðust við í samræmi við skipulag í fjöldahjálp. Hér reyndi verulega á túlkaþjónustu og eins þurfti skyndihjálparfólk að sinna þeim sem komu í fjöldahjálparstöðina því allir sem þangað komu voru eitthvað meiddir,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands
 
Nýverið hafði á Austurlandi verið farið yfir viðbrögð við fjöldaslysi sem þessu.  Framkvæmd Rauða kross deildarinnar á neyðarvarnarviðbrögðum vegna slyssins á sunnudag sýndi í reynd hve slíkar æfingar eru mikilvægar. Sjálfboðaliðar Rauða krossins vissu allir hvaða hlutverki þeir hefðu að gegna og leystu verkefnið eins og best verður á kosið.