Skiptir öllu að yfirvinna óttann

Hallgrím Helga Helgason blaðamann á Morgunblaðinu

28. ágú. 2007

Sveinn Snorri Sveinsson er nýr formaður Geðhjálpar á Austurlandi. Viðtal eftir Hallgrím Helga Helgason um geðsýki hans og þátttöku í starfi sjálfshjálparhóps sem Geðhjálp og Rauði krossinn komu á fót í heimabyggð hans, Egilsstöðum birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst.

Geðsýki Sveins Snorra Sveinssonar var komin á það stig að hann sá ekki út úr svartnættinu. Auk þess að vera félagsfælinn, veruleikafirrtur og haldinn ofskynjunum, var hann alkóhólisti og spilafíkill. Í samtali við Hallgrím Helga Helgason dregur hinn nýi formaður Geðhjálpar á Austurlandi ekki dul á veikindi sín, en kveðst jafnframt hafa náð miklum bata frá því hann hóf þátttöku í starfi sjálfhjálparhóps, sem Geðhjálp og Rauði krossinn hafði komið á fót í heimabyggð hans, Egilsstöðum.

Víða um land hafa úrræði fólks í slíkri stöðu verið af skornum skammti sérstaklega í fámennum plássum. Til að bæta úr því hefur Geðhjálp og Rauði krossinn gert sérstakt átak með því að koma á fót svonefndum sjálfshjálparhópum á smærri stöðum. 

Sveinn Snorri Sveinsson er liðlega þrítugur Egilsstaðabúi sem tekið hefur þátt í starfi slíks sjálfshjálparhóps á Egilsstöðum. Hann var um tíma illa haldinn af sjúkdómi sínum og lifði nánast í svartnætti. Hann var einnig haldinn ríkri félagsfælni og átti erfitt með öll samskipti. Nú hefur hann náð talsverðum bata og er nýskeð orðinn formaður deildar Geðhjálpar á Austurlandi.  

Eins og að svamla um í olíupytti

Sveinn Snorri er greindur með sjúkdóm sem felur í sér geðklofa og geðhvörf. Sjúkdómnum fylgja hvers kyns ranghugmyndir og oflæti (manía). Veikindi Sveins Snorra hófust árið 1993 er hann stóð á tvítugu. Þá skyndilega tóku að sækja á hann ofskynjanir, stundum oft á dag.  Sveinn Snorri vill ekki ræða það hvers kyns ofskynjanir hafi verið um að ræða.  Það sé erfitt að tala um þær.

-En þú hefur ekki áttað þig á því strax á því að þetta væru ofskynjanir?

„Nei, ég fór um víðan völl að reyna að finna útskýringar. En ég get sagt þér að það er þess eðlis að ég er að skynja hluti sem eru ekki til staðar. Og það er erfitt að útskýra fyrir fólki svona hluti sem eru ekki til eðlilega í reynsluheimi neins.  

Í janúar 1994 fékk ég andlegt áfall og fór yfir um á einu augnabliki og hef í raun ekki komið til baka síðan það gerðist. Ég reyni hins vegar ákaft að koma til baka og mun halda því áfram.”

Sveinn Snorri hafði verið í mikilli neyslu bæði áfengis og fíkniefna þegar þetta var. Og sjúkdómnum fylgdi síðan mikið þunglyndi.  

„Ég var svo þunglyndur að ég hugsaði um sjálfsmorð á hverjum degi,”  segir Sveinn Snorri. „Það var eins og að vera svamlandi um í olípytti í brunni og sjá í lok hátt fyrir ofan þaðan sem dagsbirta skini í gegn.”

-Varstu þá kominn á þröskuld þess að stytta þér aldur?

„Ég fór einu sinni upp á gjörgæslu þrisvar sinnum í sömu vikunni og hafði þá í eitt sinn tekið lyf sem heitir Fenemal og er mjög sterkt flogaveikilyf. Ég hefði dáið þá ef ekki hefði verið dælt upp úr mér. Ég hef ekki hugmynd um hvernig ég komst á gjörgæsluna. Ég man ekkert eftir þessu en pabbi segir mér að ég hafi bara dottið niður á götunni og það hafi verið lögreglubíll rétt hjá. Ég skar mig líka mjög illa í eitt skipti. Það var blóð út um allt en ég vissi ekki að það væri úr mér. Ég tengdi það ekki. Þetta var svona svakalegt ástand.“

Sjálfsbjörg af illri nauðsyn

- Hvernig voru aðstæðurnar hér á Austurlandi þegar þú byrjar að fikra þig áfram við að brjótast út úr sjúkdómi þínum?
 
„Áður en sjálfshjálparhópurinn kemur til eru aðstæðurnar í raun og veru engar. Eða við skulum segja að þær séu hverfandi. Í dag er verið að vinna gott starf á Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Austurlandi, þar sem nýlega hefur fengist fjárveiting í þennan málaflokk frá Félagsmálaráðuneytinu.

Ef þú ert í reglulegum viðtölum við geðlækni þá ertu í þerapíu, þá er verið að vinna með þig. En ef geðlæknir er ekki á staðnum eins og hér og hann kemur bara á þriggja mánaða fresti eða fimm þá verður símtalið til heimilislæknisins neyðarúrræði, því hann veitir ekki fulla meðferð heldur pantar bara á endanum innlögn á geðdeild. Síðan kemur maður aftur út, hefur náð ákveðnum bata, fer að lifa sínu lífi, veikist hægt og hægt og hringir loks aftur í heimilislækninn eftir fleiri mánuði, jafnvel ár, kominn í mjög slæmt ástand. Hann pantar pláss á nýjan leik. En ekkert gerist þess á milli. Þetta hefur verið svona mjög lengi. Og það hefur verið gangurinn í kerfinu að maður fékk ekki neitt nema leita eftir því sjálfur.”

-Þú ert búinn að gera mikið sjálfur í þínum málum, hefur þú sjálfur rekist í að ganga eftir hlutum?

„Já, já. Eftir að ég kem út úr neyslunni fer ég að ranka aðeins við mér og þá kemur þessi sjálfsbjargarviðleitni til. En hún sprettur líka af illri nauðsyn.”

Grundvallaratriði að gefast upp

„Í raun og veru er lykillinn að mínum bata edrúmennska í alkóhólisma. Því að ef ég var undir áhrifum vímuefna þá versnaði geðsjúkdómurinn. Og það var þannig að því lengra sem ég gekk þeim mun meiri skaða olli neyslan mér. Ég er búinn að vera edrú síðan 1998 vegna þess að ef ég myndi prófa að neyta vímuefna á ný þá er ég ekki viss um að ég kæmist jafnlangt til baka aftur og ég er kominn nú. Ég hef þurft að leggjast inn á geðdeild eftir að ég varð edrú. Auðvitað er reynt að vinna með andlegt heilbrigði í sambandi við alkóhólsmann. En þetta er bara tvískipt þannig að ég get verið í gríðarlega góðum bata frá alkóhólismanum og því hugarfari sem einkennir hann en verið mjög slæmur af geðveikinni á meðan.”

-Svo þú varðst að kippa neyslunni út til að geta tekist á við allt hitt?

„Já, ég er búinn að missa mikið vegna alkóhólismans. Ég var sviptur sjálfræði um tíma. Það var eins gott því ég gat ekki stöðvað neysluna sjálfur. Þetta var mestmegnis hass og róandi. Ég fór í afvötnun og var alltaf metinn þannig að ég væri ekki nógu heilbrigður til þess að geta farið í eftirmeðferð. Svo ég fór bara alltaf í afvötnun og svo sé ég núna eftir á hvernig ég kom alltaf í verra andlegu ástandi inn í hverja edrúmennsku og var á endanum svo slæmur að það var orðin spurning um að enda í algerri geðveiki eða deyja.”

-Og það hefur ekki verið auðvelt að hætta?

„Alls ekki. Það er alltaf sagt varðandi alkóhólismann að við þurfum andlega reynslu og vakningu, að upplifa mátt sem er sterkari en maður sjálfur. Úr því að ég get ekki sjálfur hætt í neyslu þá reyni ég að gefa það til einhvers annars sem getur það og það er eitthvað sem ég kalla æðri mátt. Það er grundvallaratriði að gefast upp fyrir þessu og eftir það er leiðin bara upp á við. Við heyrum oft talað um að sökkva til botns og hafa þá einhverja viðspyrnu til að spyrna sér upp aftur. Og það er það sem gerist hjá mér. Mér fannst ég ekki geta farið lengra niður. En ég fór reyndar ekki í fangelsi.”

Sveinn Snorri kveðst ekki hafa verið ofbeldisfullur með neyslunni.

„Samt réðst ég einu sinni á gæslumann, segir hann. Þá var ég að koma í sólarhrings innlögn eftir of stóran skammt. Það var fáránleg réttlæting á bak við það, mér fannst það vera mitt hlutverk að ráðast á hann. En ég sé rosalega eftir því.”  

Sorgin myndar rúm fyrir gleðina

Sveinn Snorri segir sjálfshálparhópinn á Egilsstöðum hafa breytt miklu í lífi sínu.

„Ég hafði lesið um þennan hóp. Þá var ég byrjaður að ná bata sjálfur en um leið var ég algerlega félagslega einangraður. Ég hafði reyndar tengst bókmenntahópi á netinu sem heitir The Writing Bridge og hélt í mér lífinu. Ég hafði líka áður tjáð mig í hópi um alkóhólismann. Svo var ég spilafíkill og hafði farið á spilafíklafundi. Svo ég var orðinn vanur að tala. Og í sjálfshjálparhópnum gat ég loks tjáð mig um geðsjúkdóminn. Það var mjög gott. Ég átti líka í miklum erfiðleikum með sjúkdómseinkenni sem gerðu mér erfitt fyrir með að vera nálægt fólki og þetta stuðlaði mikið að því að þau fóru að minnka.”

-Hvers konar einkenni voru það?

„Ég get til dæmis ekki farið í bíó eða leikhús. Ef ég fæ einhvern í sjónlínuna þá fer einbeitingin á þann sem situr til hliðar eða framan við mig.  Og ég vil ekki sýna af mér óeðlilega hegðun innan um fólk. Þess vegna fer ég ekki neitt.

Fyrst það eru ekki ákveðin úrræði fyrir hendi þá verður að sýna frumkvæði til að mæta á slíka fundi til að ná einhverjum bata sem maður sækist eftir. Það er líka ákveðin losun fyrir fólk með geðsjúkdóm að tala um hann.  Þetta fólk er hvert með sinn sjúkdóm en á samt margt sameiginlegt. Þetta er allt saman þjáning og oft kvöl að vera með geðsjúkdóm. En þá verður gleðin líka miklu meiri. Það segir í Spámanninum að þegar þjáningin eða sorgin hafi holað mann að innan þá myndist líka tómarúm fyrir gleðina að fylla út í. Þetta á svolítið við um geðsjúkdóma.”

-Og þú hefur fundið fyrir því?

„Já. Ég finn sjaldan fyrir þessari innilegu gleði eða hamingju. En þegar ég finn fyrir henni þá verð ég rosalega þakklátur. Það er frábært og þá líður mér vel.”

-Við hvers konar kringumstæður er það þá?

„Þá hef ég náð að hugsa eitthvað eða sjá flöt á vandamáli í sambandi við geðsýkina, komast einhvern veginn inn í réttan hugsanagang sem er heilbrigður. Og þá finn ég til heilbrigðis stutta stund. Og um leið verður það eftirsóknarvert að halda áfram að leita og vinna sig upp.”

Þátttakan í sjálfshálparhópnum hefur einnig hjálpað Sveini Snorra að kljást við félagslega einangrun sína. 

„Það var beðið um fulltrúa héðan á vinnufund hjá Geðhjálp fyrir sunnan og ég fór. Og þar gerðist kraftaverk. Ég fór með rútu og sat þétt upp við ókunnugan einstakling í tvo og hálfan tíma. Það gaf mér mikið frelsi. Ég náði síðan að sitja alla dagskrána í návist annars fólks.”

Síðastliðið vor var Sveinn Snorri loks kjörinn formaður nýstofnaðrar deildar Geðhjálpar á Austurlandi. Engu að síður kveðst hann í raun enn vera mjög félagslega einangraður.

„Það er þessi veruleikafirring, ef þú ert ekki í eðlilegum samskiptum við fólk þá fjarlægistu eðlilegan reynsluheim fólks. Og þá geta komið alls kyns hugmyndir inn sem gera mann miklu veikari vegna þess að maður er ekki í tengslum við aðra. Afleiðingarnar af hinni félagslegu einangrun stuðla síðan í raun að enn meiri einangrun.

-Þetta verður vítahringur?

„Já.”

-Hvernig rýfur maður slíkan hring?

„Þar þarf eitthvað að koma til, eins og þessi sjálfshjálparhópar og eins og athvarf sem við ætlum að koma á fót nú í haust og köllum Kompuna. Þangað verður öllum frjálst að koma sem glíma við geðsjúkdóma og eru félagslega einangraðir. Vonandi veldur það því að a.m.k. einn einstaklingur nær að brjótast út úr mynstri sínu. Það væri nóg.”

Að sögn Sveins Snorra er auk þess að fara af stað samstarf milli Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um að bæta meðferð geðsjúkra á svæðinu. Hann bindur miklar vonir við það.

Ekki lengur sjúkdómurinn holdi klæddur

-Finnst þér þú hafa öðlast einhvern tiltekinn lærdóm í baráttu þinni við geðsjúkdóminn sem þú getir miðlað öðrum?

„Já og þá fyrst og fremst þann að það skiptir öllu máli að yfirstíga óttann. Óttann við að vera í þannig aðstæðum að þú finnir fyrir geðsjúkdóminum á þínu skinni. Ég gerði þetta t.d. þannig að ég fór út að ganga. Ég hef átt mjög erfitt með að mæta bílum og fólki, það hefur þyrmt yfir mig og ég fundið fyrir mikilli hræðslu. En ég hætti ekki að fara út. Málið er að halda áfram og reyna á óttann. Hlusta ekki alltaf á sjúkdóminn heldur gera þvert á það sem maður vill sjálfur. Ef þú vilt ekki fara út þá skaltu fyrir alla muni fara út.”

-Geturðu sagt að þú sért orðinn annar maður í dag en fyrir nokkrum árum?

„Tvímælalaust. Og ég hef líka haft einlægan vilja til að bæta mig sem manneskju. Og ákveðnir þættir í mínum geðsjúkdómi eru þess eðlis að ég verð að standa á móti þeim. Eins og þessar ranghugmyndir.”

-Þú færð þær enn?

„Já, já. Ég er veikur enn. Ég hef hins vegar hlotið mikinn bata á mörgum sviðum. Eftir fyrsta viðtal mitt hjá lækninum fannst mér ég hafa setið hjá honum í klukkutíma. Ég var orðinn úrvinda, óttasleginn og kominn með miklar ranghugmyndir gagnvart honum. Loks varð ég að fara. Og svo reyndist viðtalið bara hafa verið10 mínútur sem voru þó eins og heil eilífð fyrir mér. En nú hef ég getað setið á spjalli við þig og horfst í augu við þig allan tímann. Það er eitthvað sem ég hef átt mjög erfitt með. Það hefur yfirleitt valdið mér sektarkennd.” 

-Geturðu þá horft um öxl á sjálfan þig og séð breytinguna sem hefur orðið á þér?

„Já, ég fylgist með því og legg þróunina á minnið. Ég get séð hvernig sjúkdómseinkenni þróuðust á 7-8 árum. Ég er með það á hreinu.”

-Og það er þér mikils virði?

„Já, að sjá breytinguna. Því það tala aðrir um það líka, breytinguna sem hefur orðið. Maður fer úr því að vera sjúkdómurinn holdi klæddur þar sem hann er ráðandi yfir í það að vera með hann undirliggjandi. Þar sem hann er alltaf að seilast upp en stjórnar manni ekki lengur.”

Sveinn Snorri segir miklu máli skipta að fá stuðning af starfi Geðhjálpar fyrir sunnan.

„Ef Geðhjálp væri ekki til í Reykjavík væri Geðhjálp ekki til á Austurlandi, segir hann. Svo tilvist þessa félags er gríðarlega mikilvæg.”

Sveinn Snorri hefur gefið út sex ljóðabækur. Um leið hefur hann tekist á við félagsfælni sína með eftirtektarverðum hætti því hann hefur gengið í hús með ljóðabækurnar og boðið þær til sölu. Hann segir sumar fyrri bækur sínar ortar í neyslu og að þær beri þess merki. Hins vegar kveður víða við vonglaðari tón í nýjustu bók hans, Að veiða drauminn. Titilljóð bókarinnar er svona:

Að veiða drauminn
Andi þinn
er eins og þoka
sem lyftist og hnígur
yfir vötnum hugans
á meðan þú sefur.
Þú situr einn
við þessi vötn
og rennir fyrir
himneska drauma
í draumi.
Straumlaust renna árnar
um aðra heima
þrá að renna óheft
um vegu nýrrar vöku.
- -  - 
Afli skilinn eftir
ásamt veiðistöng á bakka
Eins og einhver hafi
brugðið sér frá
og snúi bráðum aftur
að vitja þessa draums.