Opið hús og alþjóðadagur í Breiðdalsvík

25. okt. 2007

Breiðdalsdeild Rauða kross Íslands var með opið hús og alþjóðadag í síðustu viku.  Börn í efstu bekkjum grunnskólans frá ýmsum þjóðernum höfðu undirbúið glærukynningu af kostgæfni.  Þau sögðu frá og sýndu myndir frá Póllandi, Nýja-Sjálandi, Íslandi og Hong Kong og buðu gestum upp á kræsingar frá þessum löndum. 

Breiðdælingar gæddu sér meðal annars á kleinum og pólskri tertu, drukku kínverskt te,lærðu að heilsa og kveðja að hætti Mára og skoðuðu luktir frá Hong Kong. Rúmlega 40 manns mættu, sem eru 20 % íbúa Breiðdalshrepps.