30 ára afmæli Stöðvarfjarðardeildar

27. okt. 2011

Stöðvarfjarðardeild Rauða krossins hélt upp á 30 ára afmæli deildarinnar þann 22. október í Samkomuhúsinu á Stöðvarfirði og mættu yfir 80 manns í hófið, sem er alveg frábært!

Þóra Björk Nikulásdóttir formaður Stöðvarfjarðardeildar hélt tölu;

Fimmtudaginn 24. september 1981 kl. 21:30 var Stöðvarfjarðardeild Rauða kross Íslands stofnuð, hér í Samkomuhúsinu. Formaður var Björn Kristjánsson og var deildin stofnuð um öldrunarmál og sjúkrabíl.

Fyrsti sjúkrabílinn var keyptur eftir 1983
Árið 1995 hættu allir í stjórn félagsins og ný stjórn tók við. Árið 1998 keypti deildin Lúkas bílaklippur sem kostuðu 1,3 milljónir og afhentum við slökkviliðinu þær til afnota ásamt sjúkrabílnum sem tækjabíl og fórum í samstarf við Fáskrúðsfjörð um sjúkrabílinn þar. Eftir þetta breyttust áherslur hjá deildinni og hún fór að snúa sér meira að mjúku málunum.

Litla Rauða kross búðin er elsta búðin sinnar tegundar hér á Austurlandi en nú eru þær orðnar fjórar. En okkar búð er bæði fata- og nytjahlutabúð, auk þess sem við seljum lopa. Búðin er alltaf opin frá 14:00 -16:00 á laugardögum, nema annað sé auglýst. Rósa hefur haldið utan um verkefnið. Við höfum ætlað að setja upp skráningardagatal til að fá fleiri til að vinna í búðinni, og það mun koma að því að við framkvæmum það. Trúlega mun það hanga uppi á Brekkunni þannig að fólk geti skráð sig á þá daga sem það getur unnið. Auk þess flokkum við föt og förum yfir þau föt sem koma úr gámnum, séu þau ekki sérstaklega merkt RVK.

Síðustu ár höfum við verið með sex heimsóknavini sem hafa farið í heimsóknir einu sinni í viku í eina klukkustund í senn til ákveðins hóps.

Tombólubörnin hafa verið dugleg að safna og gefa félaginu. M.a. safnaði yngri hópur í ungmennastarfinu, þ.e. 6. - 8. bekkur rúmum 50.000 kr. handa krökkum á Haítí.

Verkefnið „Föt sem framlag“ hefur undið upp á sig. Framleidd eru aðallega föt á 0 -1 árs og auk þess er núna verkefni í gangi fyrir börn á aldrinum 1 -12 ára, en þar er um að ræða fatnað sem sendur er til Hvíta Rússlands.

Við höfum verið í samstarfi við deildirnar í Breiðdalsvík og Fáskrúðsfirði með Haustfagnað eldri borgara á Suðurfjörðum en það er þannig að við hittumst einu sinni á hausti og drekkum kaffi og höfum gaman. Í haust eiga Fáskrúðsfirðingar leikinn.

Við höfum tekið þátt í Salthúsmarkaðinum með því að vera með lopasölu sem gengið hefur vel auk þess að vera með sýnishorn af fötum til sölu út búðinni.
 

[Mynd 2]
Jói Jó, fyrsti gjaldkeri deildarinnar og Bjössi Kristjáns, fyrsti formaður deildarinnar.
[Mynd 3]
Auðvitað setur maður inn mynd af veisluföngum. Heitu réttirnir eru undir álpappír.
[Mynd 4]
Það voru frjáls framlög í kaffisjóðinn. Þessi litla dama hafði töluverðar áhyggjur af því hvernig hún gæti komið til okkar þar sem foreldrar hennar voru að vinna. En auðvitað kom hún.
[Mynd 5]
Þessi var svo heppinn að koma í heimsókn til hennar Boggu Jónu með foreldrum sínum og hún dreif þau með sér í kaffi (auk þess varð hún að mæta á svæðið :)).
[Mynd 6]
Prinsessurnar Hugdís, Margarette og Hanna Dís.
[Mynd 7]
Þetta eru þau Freydís Þóra sem er að segja frá Á flótta sem haldin var á Eiðum, Katrín Ragna að segja frá sumarbúðunum í Alviðru og Leó Örn að segja frá alþjóðlega flóttaleiknum en þá var hann að taka þátt í annað sinn í leiknum og var því folald.
[Mynd 8]
Fólk að tínast í salinn og að veisluborðinu.
[Mynd 9]
Auðvitað kom einn úr aðalstjórn og heiðraði okkur með nærveru sinni.
[Mynd 10]
Nokkrir gestir á spjalli.
[Mynd 11]
Krakkarnir komu sér vel fyrir í spilahorninu okkar.
[Mynd 12]
Fólk að horfa á  myndasýninguna sem við vorum með, hinir að spjalla.
[Mynd 1]