VegaHÚSIÐ á Egilsstöðum komið í stærra húsnæði

24. jan. 2008

VegaHÚSIÐ var enduropnað í Sláturhúsinu sem er menningarsetur Fljótsdalshéraðs 22. janúar og í tilefni þess var haldin hátíð þar sem bæjarbúar fjölmenntu.

Eiríkur Bj. Björgvinsson bæjarstjóri hélt opnunarræðu, María Helena Haraldsdóttir svæðisfulltrúi Rauða kross deilda á Austurlandi afhenti Kristínu Scheving forstöðumanni gjafir f.h. Rauða krossins og síðan var boðið uppá skemmtiatriði.

Í samvinnu við Fljótsdalshérað og Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins var ungmennahúsið stofnað á árinu 2003 og opnað 13. október 2004 í litlu húsnæði á Egilsstöðum. Fljótlega fór starfsemin að stækka og blómstra og ljóst að ungmennahúsið þyrfti stærra húsnæði.

Á nýja staðnum er aðstaðan orðin glæsileg og meðal þess sem VegaHÚSIÐ býður uppá er hljóðvinnslustúdíó, æfingaraðstaða fyrir hljómsveitir, leiktæki, þráðlaust net, beinar útsendingar á breiðtjaldi, aðstaða til kvikmyndavinnslu, námskeiðahald af ýmsum toga og í  samvinnu við Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins eru haldnir mömmumorgnar einu sinni í viku.