Ársskýrsla 2007

23. apr. 2008

Svæðissamstarf deilda á Austurlandi er myndað af 11 deildum; Breiðdalsdeild, Djúpavogsdeild, Eskifjarðardeild, Fáskrúðsfjarðardeild, Héraðs- og Borgarfjarðardeild, Hornafjarðardeild, Norðfjarðardeild, Reyðarfjarðardeild, Seyðisfjarðardeild, Stöðvarfjarðardeild og Vopnafjarðardeild. Formaður svæðisráðs er Pétur Karl Kristinsson. Svæðisskrifstofan er staðsett á Eiðum og svæðisfulltrúi er María Helena Haraldsdóttir.

Þjóðahátíð á Fáskrúðsfirði
Þjóðahátíð á Austurlandi, sú fjórða í röðinni, var haldin sunnudaginn 18. febrúar í félagsheimilinu Skrúð á Fáskrúðsfirði. Að hátíðinni stóðu allar deildir Rauða krossins á Austurlandi. Margir sjálfboðaliðar frá Fáskrúðsfjarðar- og Stöðvarfjarðardeild Rauða krossins komu að undirbúningi á hátíðisdeginum sjálfum og styrktu sveitarfélög og fyrirtæki á Austurlandi hátíðina. Kristín Arna Sigurðardóttir (Karna) var ráðin sem verkefnastjóri. Talið er að um 500 til 600 manns hafi sótt hátíðina. Einstaklingar frá 10 löndum sýndu listir sýnar í formi tónlistar, myndlistar, glerlistar og leirlistar, svo að eitthvað sé nefnt og fagna Austfirðingar greinilega þeirri fjölmenningu sem orðin er staðreynd. Helga Jónsdóttir bæjarstjóri Fjarðarbyggðar flutti opnunarræðu og heiðursgesturinn Amal Tamimi hélt erindi. Amal er upprunalega frá Pakistan og starfar sem fulltrúi í fræðsludeild Alþjóðahússins í Reykjavík. Börn frá leikskólanum og tónlistarkólanum á Fáskrúðsfirði sungu erlend lög og fleiri tónlistaratriði voru flutt, bæði af erlendum og innlendum tónlistarmönnum sem myndaði skemmtilega stemningu.

Skyndihjálparhópur ungmenna
Stofnaður var skyndihjálparhópur ungmenna í Vegahúsinu á Egilsstöðum 25. apríl á vegum Héraðs- og Borgarfjarðardeildar Rauða kross Íslands. Jón Brynjar Birgisson og Viðar Arason verkefnisstjóri skyndihjálparhóps ungmenna hjá Reykjavíkurdeild fóru yfir undirstöðuatriði í skyndihjálp og kynntu út á hvað verkefnið gengur. Tilgangur hópsins er að vera með gæslu á böllum og öðrum uppákomum á Austurlandi ásamt því að vera hluti neyðarvarnarhóps ef opna þarf fjöldahjálparstöð. Með haustinu var ákveðið að hópurinn yrði á svæðisvísu þar sem ungmenni frá öðrum stöðum á Austurlandi komu inn í starfið og er hópurinn sístækkandi.

Haldið var fjöldahjálparstjóranámskeið á Seyðisfirði og sótti hluti skyndihjálparhópsins námskeiðið og tók þátt í rýmingaræfingu vegna Stíflurofs á Kárahnjúkum. Hópurinn tók þátt þegar opnuð var fjöldahjálparstöð á Egilsstöðum vegna rútuslyss í Fljótsdalshéraði og hlúðu þau að slösuðum.

Stíflurof á Kárahnjúkum – rýmingaræfing
Rýmingaræfing vegna stíflurofs á Kárahnjúkum var haldin 9. júní þar sem rýma þurfti heimili og sumarbústaði í Jökuldal. Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins opnaði fjöldahjálparstöð í grunnskólanum á Egilsstöðum og tóku fjöldahjálparstjórar frá deildinni og Seyðisfjarðardeild ásamt skyndihjálparhópi ungmenna á Egilsstöðum á móti íbúum til skráningar en í Jökuldal og nágrenni búa um 200 manns. Skráning gekk vel og fóru upplýsingar frá fjöldahjálparstöðinni til fulltrúa Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð og aðgerðastjórn á héraði.

Fjöldahjálparstöð opnuð á Egilsstöðum vegna rútuslyss í Bessastaðabrekkum
Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins opnaði fjöldahjálpastöð í grunnskólanum á Egilsstöðum vegna rútuslyss sem varð í Fljótsdalshéraði er rúta fór út af veginum í beygju í Bessastaðabrekkum með 31 erlendan starfsmann frá verktakafyrirtækinu Arnarfelli. Sjálfboðaliðar Rauða krossins veittu áfallahjálp og hlúðu að slösuðum en alls komu 18 manns í fjöldahjálparstöðina. Rauði krossinn kallaði út átta túlka á Egilsstöðum og virkjaði presta á svæðinu til að veita sálgæslu. Kaþólskur prestur og munkar sem þjóna kaþólskum íbúum á svæðinu aðstoðuðu einnig við sálrænan stuðning. Rauði krossinn útvegaði einnig túlka í samvinnu við túlkaþjónustu Alþjóðahúss til að aðstoða þá sem fluttir höfðu verið á Landspítala og til að svara fyrirspurnum frá aðstandendum og sendiráðum í gegnum Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Mennirnir sem fluttir voru á fjöldahjálpastöð Rauða krossins á Egilsstöðum voru misjafnlega á sig komnir, sumir með skurði en aðrir þjáðust af höfuð- og axlarverkjum. Það kom í hlut nýstofnaðs skyndihjálparhóps ungmenna að veita þeim fyrstu hjálp. Þarna reyndi verulega á skyndihjálparkunnáttu neyðarvarnarfólks Rauða krossins í fjöldahjálparstöðvum og leysti hópurinn sitt verkefni með mikilli prýði.

Fjöldahjálparstjóranámskeið á Seyðisfirði
Fjöldahjálparstjóranámskeið var haldið á Seyðisfirði í september og komu þátttakendur frá Egilsstöðum, Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði. Átta nýir leiðbeinendur bættust í hóp fjöldahjálparstjóra á Austurlandi og þrír sóttu námskeiðið til að endurnýja skírteini sín.
Gerðar voru tvær skrifborðsæfingar og farið var í fjöldahjálparstöðina á Seyðisfirði sem er í grunnskólanum og settu þátttakendur upp merkingar í stöðinni samkvæmt teikningum. Lárus Bjarnason sýslumaður flutti erindi um almannavarnir og Ágúst Ólafsson fréttamaður RUV á svæðisvísu um fjölmiðlun þegar á reynir.
 
Námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál á Neskaupstað
Um 35 manns sóttu námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál sem haldið var í Egilsbúð á Neskaupstað í október. Er þetta 15. námskeiðið sem Rauði krossinn hefur haldið af þessum toga og það þriðja á Austurlandi. Þátttakendur komu frá Vopnafirði, Egilsstöðum, Seyðisfirði, Reyðarfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Norðfirði. Meginmarkmið námskeiðsins er að fræða fólk um málefni geðfatlaðra og setja á fót sjálfshjálparhópa. Í lokin voru þrír hópar stofnaðir, tveir á Norðfirði, annar fyrir foreldra barna með geð- og hegðunarraskanir og hinn fyrir aðstandendur geðfatlaðra. Á Egilsstöðum var stofnaður hópur aðstandenda geðfatlaðra. Í undirbúningi er að stofna sjálfshjálparhóp á Eskifirði fyrir foreldra barna með geð- og hegðunarraskanir sem mun sinna fólki frá Reyðarfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Þess má geta að nú þegar eru fjórir sjálfshjálparhópar starfandi á Austfjörðum, ýmist fyrir aðstandendur eða notendur geðheilbrigðisþjónustunnar. Fyrirlesarar á námskeiðinu voru Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur, Salbjörg Bjarnadóttir geðhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu, Halldór Reynisson verkefnisstjóri fræðslumála á Biskupsstofu, Margrét Ómarsdóttir foreldri og Sveinn Snorri Sveinsson formaður Geðhjálpar á Austurlandi.

Geðræktarmiðstöðin Kompan á Egilsstöðum opnuð
Í tilefni Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins þann 10. október var haldin hátíð í Kompunni þar sem opnuð var geðræktarmiðstöð. Fullt var út úr dyrum og bauð Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins uppá veitingar. Jón Knútur Ásmundsson verkefnastjóri hjá Saust svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi sagði frá starfsemi Kompunnar en búið er að ráða starfsmann í hlutastarf. Áætlað er að Geðhjálp verði með símatíma og tveir sjálfshjálparhópar verða með fund einu sinni í viku (einn fyrir notendur og annar fyrir aðstandendur geðfatlaðra). Málfríður Björnsdóttir formaður Héraðs- og Borgarfjarðardeildar Rauða krossins sagði frá aðkomu deildarinnar að geðræktarmiðstöðinni en deildin mun útvega sjálfboðaliða og koma að starfseminni með ýmiss konar styrkjum. Saust og Fljótsdalshérað skrifuðu undir samkomulag um starfsemi Kompunnar. Margir komu í pontu til að lýsa ánægju sinni með tilvonandi opnun og óskuðu starfseminni velfarnaðar. Að lokum las Sveinn Snorri Sveinsson formaður Geðhjálpar á Austurlandi eigin ljóð og Bjartmar Guðlaugsson skemmti með spjalli og söng.

Ungmennastarf á Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði
Í Grunnskólanum á Stöðvarfirði er mannréttindafræðsla valgrein fyrir 9. og 10. bekk. Stuðst er við bókina Mannréttindi eftir Ágúst Þór Árnason sem gefin er út af Rauða krossinum. Leiðbeinandi er Björgvin Valur Guðmundsson en hann sér um vetrarstarf ungmenna Rauða krossins á staðnum.

Fjögur ungmenni fóru á landsmótið URKI sem haldið var í Klébergsskóla á Kjalarnesi. Er þetta í fyrsta skipti sem ungmenni frá Stöðvarfirði fara á mót. Á landsmótinu fræddust ungmennin um flóttafólk og hittu þar fólk víðsvegar að úr heiminum sem sagði þeim sögu sína. Mótið stóð frá föstudegi til sunnudags og voru krakkarnir hæstánægðir með förina. Í kjölfar ferðarinnar hefur Stöðvarfjarðardeild hug á því að setja upp leikinn „Á flótta" í samvinnu við aðrar Rauða kross deildir á Austurlandi.

Barnastarf var haldið á Fáskrúðsfirði fyrir 12 – 15 ára börn. Börnin voru til dæmis með jólamarkað og söfnuðu kr. 20.000 til einstaklingsaðstoðar á svæðinu.

Svæðisfundur Rauða kross deilda á Austurlandi á Egilsstöðum
Svæðisfundur Rauða kross deilda á Austurlandi var haldinn í Rauða kross húsinu á Egilsstöðum í október og mættu fulltrúar frá átta deildum. Auk venjulegra fundarstarfa var farið yfir leiðbeiningar um framkvæmd stefnu Rauða krossins og fulltrúum skipt upp í tvo hópa sem skiluðu af sér áliti. Rauða kross deildir á Austurlandi hafa verið í vinadeildasamstarfi við Western Cape í S-Afríku frá því 1998 og mun því samstarfi vera lokið á næsta ári. Af því tilefni kom Helga Þórólfsdóttir sviðsstjóri alþjóðasviðs á fundinn og kynnti vinadeildasamstarf við Gambíu og Malaví. Nokkrar deildir Rauða kross Íslands hafa nú þegar hafið vinadeildasamstarf við deildir á þeim svæðum.

Í svæðisráði Austurlands sitja þrír fulltrúar frá Rauða kross deildum á Austurlandi. Sigurbjörg Petra Erlendsdóttir í Breiðdalsdeild lauk setu sinni og inn kom Málfríður Björnsdóttir frá Héraðs- og Borgarfjarðardeild. Pétur Karl Kristinsson í Eskifjarðardeild tók við sem formaður af Þóru Björk Nikulásdóttur í Stöðvarfjarðardeild.

Heimsóknavinanámskeið á Stöðvarfirði og Hornafirði
Haldið var heimsóknavinanámskeið á Stöðvarfirði í október fyrir nýja sjálfboðaliða í heimsóknaþjónustu sem komu frá Stöðvarfirði og Egilsstöðum. Heimsóknaþjónusta er eitt af öflugustu verkefnum Stöðvarfjarðardeildar Rauða krossins og eftir námskeiðið eru 11 starfandi heimsóknavinir á svæðinu. Hornafjarðardeild hélt heimsóknavinanámskeið í nóvember og mættu sjö manns en fleiri deildir eru með það á áætlun strax eftir áramót.

Á Egilsstöðum er Héraðs- og Borgarfjarðardeild byrjuð að undirbúa heimsóknaþjónustu í samvinnu við kirkjuna og verður haldið námskeið í byrjun næsta næsta árs.
Vopnafjarðardeild er með heimsóknaþjónustu og gengur starfið mjög vel.

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar sem rjúfa einsemd og félagslega einangrun með heimsóknum og veita félagsskap með spjalli, göngutúrum, handavinnu, ökutúrum svo eitthvað sé nefnt.

Kynningarvika Rauða kross deilda á Austurlandi dagana 14. – 20. október
Breiðdalsdeild var með opið hús og alþjóðadag þar sem börn í efstu bekkjum grunnskólans frá ýmsum þjóðernum höfðu undirbúið glærukynningu af kostgæfni. Þau sögðu frá og sýndu myndir frá Póllandi, Nýja-Sjálandi, Íslandi og Hong Kong og buðu gestum upp á kræsingar frá þessum löndum. Breiðdælingar gæddu sér meðal annars á kleinum og pólskri tertu, drukku kínverskt te, lærðu að heilsa og kveðja að hætti Mára og skoðuðu luktir frá Hong Kong. Rúmlega 40 manns mættu, sem eru 20% íbúa Breiðdalshrepps.

Héraðs- og Borgarfjarðardeild var með opið hús með kynningu á starfinu og stúlkur úr skyndihjálparhópi ungmenna kynntu starfið og dreifðu bæklingum í Samkaup á Egilsstöðum. 18 nýir sjálfboðaliðar bættust í deildina á þessum degi.

Seyðisfjarðardeild var með kynningu í Samkaup og dreifði bæklingum.

Hornafjarðardeild tók þátt í kynningarvikunni þar sem deildin lagði áherslu á að safna sjálfboðaliðum í skyndihjálparhóp. Einnig var heimsóknavinaverkefnið kynnt og Ásgerður Gylfadóttir stjórnarmaður skrifaði grein í Eystra – Horn þar sem hún sagði frá starfsemi deildarinnar. Auglýsingar og myndir sem tengdust kynningarvikunni voru birtar í skjávarpa. Í lokin var opið hús sem tókst með ágætum og komu margir og sýndu starfsemi deildarinnar áhuga.

Stöðvarfjarðardeild var með opið hús og gaf út fréttabréf sem dreift var í öll hús á staðnum ásamt fræðslu- og kynningarefni á starfi deildarinnar. Vopnafjarðardeild og Fáskrúðsfjarðardeild voru með opin hús og kynningu á starfinu og Eskifjarðardeild og Reyðarfjarðardeild kynntu starfið í grunnskólum staðanna.

Fatamarkaður á Egilsstöðum fyrir hönd allra deilda á Austurlandi
Rauða kross deildir á Austurlandi stóðu fyrir fatamarkaði á Egilsstöðum dagana 8. og 9. desember og rann ágóðinn af sölunni til styrktar fólki sem smitað er af alnæmi í Suður-Afríku en Rauði krossinn á Austurlandi er í vinadeildarsamstarfi við deild í Western-Cape í Suður-Afríku. Fjöldi sjálfboðaliða tóku þátt í fatamarkaðnum og gekk salan vel.

Haustfagnaður eldri borgara – samvinna þriggja Rauða kross deilda á Austurlandi
Haustfagnaður eldri borgara var haldinn í félagsheimilinu Skrúð á Fáskrúðsfirði. Er það samvinnuverkefni Breiðdalsdeildar, Fáskrúðsfjarðardeildar og Stöðvarfjarðardeildar. 75 manns mættu á fagnaðinn. Tilgangur skemmtunarinnar er að rjúfa einangrun eldri borgara á svæðinu og var boðið uppá tónlistaratriði, happdrætti og kynningu á starfi Rauða krossins. Eftir kaffið var nikkan þanin og notuðu menn og konur tækifærið og fengu sér snúning. Haustfagnaðurinn er árlegur viðburður og skiptast deildir á að halda hann á sínu svæði.

Föt sem framlag á Eskifirði og Fáskrúðsfirði
Í samvinnu við félag eldri borgara á Eskifirði fór Rauða kross deildin af stað með verkefnið Föt sem framlag og sauma sjálfboðaliðar og prjóna fatnað til neyðar- og þróunaraðstoðar erlendis. Einnig hafa eldri borgarar á elliheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði tekið þátt með Rauða kross deildinni á staðnum. Í bígerð er að fleiri Rauða kross deildir á Austurlandi fari í þetta verkefni.

Óvissuferð eldri borgara á Reyðarfirði
Reyðarfjarðardeild Rauða krossins bauð eldri borgurum í óvissuferð og mættu 32 manns. Farið var í Hamarsel og Suðurbyggð á Austurlandi í yndislegu veðri. Í nokkur ár hefur deildin boðið uppá óvissuferð annað hvert ár þar sem sjálfboðaliðar deildarinnar fara með og er ferðin hluti af því að rjúfa einangrun eldri borgara og mikil tilhlökkun þegar farið er.

Jólaaðstoð – samvinna átta deilda á Austurlandi
Jólaaðstoð var veitt til einstaklinga í samvinnu við átta Rauða kross deildir á Austurlandi (Eskifjarðardeild, Fáskrúðsfjarðardeild, Héraðs- og Borgarfjarðardeild, Norðfjarðardeild, Reyðarfjarðardeild, Seyðisfjarðardeild, Stöðvarfjarðardeild og Vopnafjarðardeild) ásamt verkalýðsfélaginu Afli, Lionsklúbbnum Múla á Egilsstöðum og Samkaup á Egilsstöðum. Er þetta fimmta árið sem þessi félög hafa semeiginlega veitt jólaaðstoð. Hugað hefur verið að því að fá fleiri félög í samvinnu og þess má geta að Alcoa á Reyðarfirði veitti veglegan styrk í sjóðinn í fyrra.

Almennt skyndihjálparnámskeið
Breiðdalsdeild hélt námskeið fyrir almenning og bauð elstu bekkjum grunnskólans á námskeiðið. Eskifjarðardeild, Hornafjarðardeild og Norðfjarðardeild héldu námskeið fyrir 10. bekk grunnskólans, Stöðvarfjarðardeild hélt námskeið fyrir börnin í ungmennastarfinu og Vopnafjarðardeild hélt námskeið fyrir almenning.

Námskeið í sálrænum stuðningi
Breiðdalsdeild og Héraðs- og Borgarfjarðardeild héldu námskeið fyrir almenning og fjöldahjálparstjóra og var mjög góð þátttaka.

Námskeiðið Börn og umhverfi
Héraðs- og Borgarfjarðardeild, Hornafjarðardeild og Vopnafjarðardeild héldu námskeið fyrir börn á svæðunum og var mikil þátttaka.