Vel heppnuð hópslysaæfing á Reyðarfirði

19. sep. 2011

Rauða kross deildir í Fjarðabyggð opnuðu fjöldahjálparstöð og söfnunarsvæði aðstandenda í tengslum við rútuslysaæfingu á Reyðarfirði um helgina. 18 fjöldahjálparstjórar auk annars hjálparliðs stóðu vaktina og tóku á móti ,,slösuðum“ farþegum úr rútunni og hlúðu að þeim.

Rauði krossinn sá einnig um áverkaförðun á æfingunni og kom að uppsetningu vettvangsins áður en æfingin sjálf hófst. Æfingin þótti takast með afbrigðum vel ef undan eru skilin fjarskipti. Það hefur myndast ákveðin hefð fyrir því að kvarta undan fjarskiptum á æfingum sem þessari og er það talið til marks um vel heppnaða æfingu ef aðeins er hægt að kvarta undan þeim.

Um 100 manns kom að æfingunni frá öllum viðbragðsaðilum í Fjarðabyggð, auk ráðgjafa frá landsskrifstofu Rauða krossins, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landspítalanum, Neyðarlínunni og Slökkviliði Akureyrar.

Myndir frá æfingunni