Færri Gengu til góðs en fengu frábærar móttökur

5. okt. 2008

Um 1000 sjálfboðaliðar Gengu til góðs í gær með Rauða krossinum til styrktar verkefnis um sameiningu fjölskyldna í Kongó sem sundrast hafa vegna stríðsátaka. Reynslan hefur sýnt að það þarf að minnsta kosti um 2000 manns til að ganga í öll hús á landinu, og því er ljóst að einungis tókst að ná til um 50% landsmanna í söfnuninni í gær. Rauði krossinn er mjög þakklátur þeim sem gáfu af tíma sínum í gær og Gengu til góðs, og vill einnig þakka þeim sem tóku á móti sjálfboðaliðunum og gáfu í söfnunina.

Rauði krossinn hvetur þá sem ekki gafst tækifæri til að gefa í söfnunina í gær að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 903 1010, 903 3030 og 903 5050. Þá dragast frá kr. 1000 kr., kr. 3000 kr. eða kr. 5000 frá næsta símreikningi. Símarnir verða opnir út þessa viku.

Um 2600 sjálfboðaliðar tóku þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs fyrir tveimur árum, og var það í fyrsta sinn sem tókst að ganga í allar götur á höfuðborgarsvæðinu. Þá söfnuðust um 40 milljónir króna, en búist er við því að söfnunarfé nú verði hlutfallslega í samræmi við það hversu miklu færri tóku þátt í að ganga í hús. Endanlegar tölur liggja ekki fyrir fyrr en eftir helgi.

Þeir sjálfboðaliðar sem söfnuðu fyrir Rauða krossinn í gær voru þó allir ánægðir með þær viðtökur sem þeir fengu þegar þeir bönkuðu upp á.

„Það var vel tekið á móti sjálfboðliðum sem gengu í hús um allt land og voru flestir mjög jákvæðir í garð söfnunarinnar þrátt fyrir erfitt efnahagsástand hér heima fyrir,” segir Anna Stefánsdóttir formaður Rauða kross Íslands. „Það er sérstök upplifun að ganga í hús og safna fé með þessum hætti, og ég held að við öll sem gerðum það fyrir Rauða krossinn í gær höfum fundið fyrir samstöðu almennings með góðu málefni.”

„Við vissum að það var á brattann að sækja vegna tíðinda liðinnnar viku um efnahagslífið. Það kom því miður á daginn að stemmningin í þjóðfélaginu hafði áhrif á hvernig söfnunin gekk í gær,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins. „Okkur er þó efst í huga þakklæti til allra sjálfboðaliðanna sem gengu í gær og til þeirra sem gáfu.”