Hjálparsími Rauða krossins 1717 er alltaf opinn!

10. okt. 2008

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem finnst þeir vera komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu.

Síðustu daga hefur fjöldi manns hringt í 1717 í tengslum við fjárhagsáhyggjur og vanlíðan vegna þeirra umbrota sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Starfsmenn og sjálfboðaliðar 1717 veita upplýsingar um hvar leita megi frekari úrræða ásamt því að veita sálrænan stuðning á erfiðum tímum.

Starfsmenn og sjálfboðaliðar svara í Hjálparsíma Rauða krossins. Þeir hafa reynslu af að svara slíkum símtölum og fá reglulega þjálfun í að ræða við fólk sem glímir við erfiðar aðstæður.