Sparifötum safnað á Fáskrúðsfirði

22. des. 2008

Formaður Fáskrúðsfjarðardeildar Rauða krossins, Halldór U. Snjólaugsson, tók að sér að selja smákökur fyrir foreldrafélag leikskólans á jólamarkaði sem haldinn var í Glaðheimum, félagsmiðstöð eldri borgara. Fannst honum upplagt að nota tækifærið og leita til fólks um að gefa spariföt til Rauða krossins.

Afraksturinn voru tveir pokar en Halldór fékk loforð um meira sem staðið var við og hefur bæst talsvert við. Fáskrúðsfjarðardeildin er jafnframt með fataskúr (fatamóttöku) og er vonast til að þessi kynning auki skil á fötum þangað.

Það má geta þess á þessu ári hefur deildin sent níu bretti af fötum til Fatasöfnunarstöðvar Rauða krossins.