Litla Rauða kross búðin á Austurlandi

14. apr. 2009

Á Stöðvarfirði hefur verið opnuð Rauða kross búð sem heimamenn kalla Litlu Rauða kross búðina. Til sölu verða notuð föt fyrir börn og fullorðna ásamt skóm, töskum, beltum, dúkum, sængurverum og prjónavörum sem konur í verkefninu Föt sem framlag hafa verið að búa til á Stöðvarfirði og Reyðarfirði.

Mikið var um dýrðir á opnunardaginn, 4. apríl, í sól og blíðu og mættu margir til að skoða búðina og kaupa sér föt.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins sjá um búðina og má þar sérstaklega nefna Rósu Valtingojer sem hefur haldið utan um verkefnið af miklum áhuga og Þóru Björk Nikulásdóttur formann deildarinnar á Stöðvarfirði.

Tekið er á móti notuðum fötum og er fatagámur fyrir utan búðina sem hægt er að setja fötin í.

Búðin verður opin á mánudögum frá kl. 19.30 - 22.00 og laugardögum frá kl. 14.00 - 16.00 og er staðsett í Heimalundi húsnæði Rauða kross deildarinnar að Fjarðabraut 48, Stöðvarfirði (beint á móti gamla Pósti og síma). Alltaf heitt á könnunni.