Starfið á árinu 2008

12. jún. 2009

Svæðissamstarf deilda á Austurlandi er myndað af 11 deildum;
Breiðdalsdeild, Djúpavogsdeild, Eskifjarðardeild, Fáskrúðsfjarðardeild, Héraðs- og Borgarfjarðardeild, Hornafjarðardeild, Norðfjarðardeild, Reyðarfjarðardeild, Seyðisfjarðardeild, Stöðvarfjarðardeild og Vopnafjarðardeild.

Þrjár deildir eiga fulltrúa í svæðisráði og skiptast deildir á um að eiga fulltrúa í ráðinu. Formaður svæðisráðs er Málfríður Björnsdóttir. Svæðisskrifstofan er staðsett á Eiðum og svæðisfulltrúi er María Helena Haraldsdóttir.

Heimsóknavinir
Námskeið fyrir verðandi heimsóknavini var haldið 16. október í Kirkjuselinu í Fellabæ í samvinnu við Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins og safnaða Þjóðkirkjunnar í Eiða- Vallanes og Valþjófsstaðarprestakalli.

Undanfarin ár hefur heimsóknaþjónustuhópur starfað í Egilsstaðakirkju og félagar í hópnum bæði sótt einstaklinga heim og stuðlað að samverustundum á sjúkrahúsinu og á sambýli aldraðra.

Rauði krossinn hefur það á stefnuskrá sinni að rjúfa einangrun þeirra sem einhverra hluta vegna búa við einsemd og einangrun og því hafa þessir tveir aðilar ákveðið að vinna saman að verkefninu „Heimsóknavinir“. Í framhaldi af námskeiðinu var unnið að því að leiða saman gestgjafa og heimsóknavini.
Rauða kross deildir á Hornafirði, Stöðvarfirði og Vopnafirði eru einnig með heimsóknavini.

Nýir íbúar á góðum stað – innflytjendaverkefni í Fjarðabyggð
Fimm deildir Rauða kross Íslands í Fjarðabyggð; Eskifjarðardeild, Fáskrúðsfjarðardeild, Norðfjarðardeild, Reyðarfjarðardeild og Stöðvarfjarðardeild og sveitarfélagið Fjarðabyggð gerðu með sér samning í febrúar um þjónustu við nýja íbúa í sveitarfélaginu í febrúar.

Ráðinn var verkefnisstjóri sem sér um móttöku nýrra íbúa. Hjá honum geta þeir leitað, á einum stað, nauðsynlegra upplýsinga og ráðgjafar s.s. varðandi húsnæðismál, dvalar- og atvinnuleyfi, heilsugæslu, aðgengi að íslenskunámi, réttindi og skyldur á vinnumarkaði, fræðslu og námskeið sem í boði eru og aðrar upplýsingar er varða búsetu í nýju landi og í sveitarfélaginu Fjarðabyggð.

Rauða kross deildirnar, í samvinnu við Fjarðabyggð, vinna að því að byggja upp félagsstarf með nýjum íbúum, sérstaklega fólki af erlendum uppruna. Markmiðið er að auka þekkingu þeirra á íslenskri menningu, koma á félagslegum tengslum og stuðla að gagnkvæmri aðlögun.

Góð samvinna er við stéttarfélög, atvinnurekendur, félags- og tryggingamálaráðuneyti, Fjölmenningarsetur, Alþjóðahús og aðrar stofnanir, félög og félagasamtök.

Fjölmenningardagur á Austurlandi

Rauði krossinn tók þátt í fjölmenningardeginum „Ormsteiti” sem haldinn var á Egilsstöðum í ágúst. Fyrr þann sama dag var haldinn fundur með deildum í Fjarðarbyggð þar sem kynnt voru verkefni sem henta innflytjendum sérstaklega og komin er reynsla á í starfi Rauða krossins.

Markmiðið fundarins var að auðvelda deildum að hefja verkefnin á svæðinu. Stefna Rauða krossins í innflytjendamálum og áherslur voru kynnt í byrjun fundarins en síðan tók við kynning á ýmsum verkefnum: heimanámsaðstoð barna af erlendum uppruna, mentorverkefninu Félagsvinir, Félagsleiðbeinendum barna af erlendum uppruna og Alþjóðlegum foreldrum.

Mentoranámskeið á Reyðarfirði
Rauða kross deildirnar í Fjarðabyggð héldu námskeiðið Félagsvinur – mentor er málið í Grunnskólanum á Reyðarfirði laugardaginn 1. nóvember og mættu 13 konur frá öllum fjörðum er hafa áhuga á að gerast Mentorar.

Hugmyndafræði verkefnisins byggir á nokkurs konar námssambandi milli tveggja kvenna sem báðar njóta góðs af, önnur frá heimalandinu (mentor) og hin af erlendum uppruna (mentee).  Með því eru tengdar saman innlendar konur og konur af erlendum uppruna sem geta skipst á upplýsingum og þekkingu á jafningjagrundvelli. Þannig er unnið að því að beisla þann óvirkjaða mannauð sem felst í menntun, þekkingu og reynslu hjá konum af erlendum uppruna, bæði þeim og íslensku samfélagi til framdráttar.

Þjónusta við erlenda nýbúa í bókasafninu á Egilsstöðum

Í samstarfi þriggja félagasamtaka, Sóroptimista, Norræna félagsins á Austurlandi og Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins, var opnuð þjónusta við erlenda nýbúa í bókasafninu á Egilsstöðum 31.

Sjálfboðaliðar frá félögunum skiptast á um að vera í bókasafninu einu sinni í viku á fimmtudögum frá kl. 17.00 – 19.00 og kynna íslenskt samfélag, veita upplýsingar og fl. Í tilefni opnunarinnar gáfu Sóroptimistakonur bókasafninu bækur á pólsku, hjón frá Finnlandi sungu og spiluðu og lesið var uppúr erlendum bókum á pólsku og þýsku. Þess má geta að Fljótsdalshérað styrkti Þekkingarnetið til að halda ókeypis tölvunámskeið fyrir erlenda íbúa.

Sumarbúðir á Löngumýri
Svæðisráð Rauða krossins á Austurlandi styrkti sumarbúðir fyrir fatlaða á Löngumýri í Skagafirði um 500.000 kr. á sl. sumri og telur að halda eigi áfram að styrkja það góða starf.

Sumarbúðirnar eru fyrir fatlaða einstaklinga 15 ára og eldri og því gerði svæðisráð könnun á því hve margir þeir eru á Austurlandi. Samkvæmt upplýsingum frá svæðisskrifstofu fatlaðra á Austurlandi eru um 31 fatlaðir einstaklingar 15 ára og eldri sem geta nýtt sér sumardvöl á Löngumýri. Um 20 fatlaðir einstaklingar eru á Fljótsdalshéraði, Borgafirði eystra og Seyðisfirði og 11 fatlaðir eru í Fjarðabyggð.

Sjálfshjálpahópar fólks með geðraskanir og aðstandenda þeirra

Svæðissjóður og Rauða kross deildir á Austurlandi hafa stutt við bakið á sjálfshjálparhópum fólks með geðraskanir og aðstandenda þeirra sem starfa á Austurlandi.

Boðið var uppá handleiðslu fyrir sjálfshjálparhópana á Egilsstöðum í febrúar er var í umsjón Einars Guðmundssonar geðlæknis. Sjálfshjálparhópur aðstandenda fólks með geðraskanir á Egilsstöðum fékk Gunnar Hersvein heimspeking til að halda erindi í nóvember í Kompunni um málefni aðstandenda en Héraðs- og Borgarfjarðardeild hefur stutt við starfið í Kompunni (geðræktarmiðstöð)á ýmsan hátt á árinu.

Sjö sjálfshjálparhópar fólks með geðraskanir og aðstandenda þeirra eru á Austurlandi: á Hornafirði, fólk frá Breiðdalsvík, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði hittist á Stöðvarfirði, Egilsstöðum, Norðfirði og Vopnafirði.

Vetrarstarf með ungmennum

Öflugt vetrarstarf er með ungmennum á Stöðvarfirði og var þeim m.a. boðið uppá námskeið í mannréttindum í grunnskólanum og um Viðhorf og virðingu sem haldið var á Löngumýri í Skagafirði.

Skyndihjálparhópur ungmenna
Skyndihjálparhópur ungmenna Rauða kross deilda á Austurlandi hefur stækkað mikið og koma ungmennin frá Egilsstöðum, Seyðisfirði og Reyðarfirði.

Hugmyndin er þó að hópurinn sé til á hverjum stað á Austurlandi og áætlað er að fulltrúar úr hópnum munu fara í alla skóla á Austurlandi og kynna starfsemi skyndihjálparhópsins og fá fleiri ungmenni til starfa og þjálfunar.

Hópurinn hefur haft nóg að gera og má þar nefna að í febrúar fóru fulltrúar úr hópnum í Alviðru á Suðurlandi í náms- og skemmtiferð með skyndihjálparhópnum á Selfossi og myndaðist mjög gott samband á milli hópanna.

Eitt stærsta verkefni sumarsins var þegar hópurinn tók þátt í sjúkragæslu fyrir LungA, sem er listahátíð ungs fólks á Austurlandi, haldin árlega á Seyðisfirði. Hópurinn sér um gæslu á böllum í Menntaskólanum á Egilsstöðum og í VegaHúsinu sem er ungmennahús á Egilsstöðum.

Um 10 manns á aldrinum 18-24 eru virkir í skyndihjálparhópnum. Hópurinn hefur verið duglegur að sækja námskeið og má þar nefna námskeið í almennri skyndihjálp og sálrænum stuðningi og fjöldahjálparstjóranámskeið.

Tveir fulltrúar í hópnum sitja í stjórn Ungmennahreyfingar Rauða krossins og einn sem áheyrnarfulltrúi í svæðisráði Rauða kross deilda á Austurlandi. Einnig er verið að byggja upp leiðbeinendahóp svo hægt verði að halda hlutverkaleikinn Á flótta á Austurlandi og hafa fimm úr hópnum farið á leiðbeinendanámskeið í janúar sl. og stefnt er að því að halda leikinn haustið 2010 í samvinnu við Rauða kross deildir á Austurlandi.

VegaHÚSIÐ á Egilsstöðum komið í stærra húsnæði
VegaHÚSIÐ (ungmennahús) var opnað á ný þann 22. Janúar í Sláturhúsinu sem er menningarsetur Fljótsdalshéraðs. Af því tilefni var haldin hátíð þar sem bæjarbúar fjölmenntu.

Í samvinnu við Fljótsdalshérað og Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins var ungmennahúsið stofnað á árinu 2003 og opnað 13. október 2004 í litlu húsnæði á Egilsstöðum. Fljótlega fór starfsemin að stækka og blómstra og ljóst að ungmennahúsið þyrfti stærra húsnæði.

Á nýja staðnum er aðstaðan orðin glæsileg og meðal þess sem VegaHÚSIÐ býður uppá er hljóðvinnslustúdíó, æfingaraðstaða fyrir hljómsveitir, leiktæki, þráðlaust net, beinar útsendingar á breiðtjaldi, aðstaða til kvikmyndavinnslu, námskeiðahald af ýmsum toga og í samvinnu við Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins eru haldnir mömmumorgnar einu sinni í viku.

Vinadeildasamstarf
Vinadeildasamstarfi við Rauða kross deild í Suður-Afríku er lokið og ákváðu Rauða kross deildir á Austurlandi í samvinnu við alþjóðasvið landsskrifstofu að hefja samstarf við deild Rauða krossins í Mwansa héraði í Malaví.

Föt sem framlag
Fjórar deildir Rauða krossins á Austurlandi starfa að verkefninu Föt sem framlag en þær eru á: Breiðdalsvík, Eskifirði, Reyðarfirði og Stöðvarfirði. Félagsstarf aldraðra á Eskifirði og Breiðdalsvík prjóna og sauma ungbarnapakka sem sendir eru til Afríku, félagsstarf aldraðra á Reyðarfirði prjónar ýmsan fatnað s.s. sokka, vettlinga, trefla og húfur í Rauða kross búðirnar á Íslandi og prjóna- og saumahópurinn á Stöðvarfirði eru konur á aldrinum 24 – 80 ára sem hittast einu sinni í viku og útbúa ungbarnapakka til Afríku.

Svæðisfundur deilda Rauða krossins á Austurlandi á Egilsstöðum

Svæðisfundur deilda Rauða krossins á Austurlandi var haldinn í Grunnskólanum á Reyðarfirði 11. október og mættu fulltrúar frá sjö deildum af ellefu.

Pétur Karl Kristmundsson fráfarandi formaður flutti skýrslu svæðisráðs þar sem farið var yfir þau verkefni sem unnin voru á svæðisvísu milli ára. Stærsta verkefnið er stuðningur við skyndihjálparhóp ungmenna sem stækkaði mikið síðasta ár. Svæðissjóður styður við bakið á stuðningshópum fólks með geðraskanir og aðstandendum þeirra og eru sjö hópar starfandi á Austurlandi.

Fræðslufundur var haldinn fyrir áhugafólk um geðheilsu. Stutt hefur verið við vetrarstarf ungmenna og vinadeildasamband Rauða kross deilda á Austurlandi byrjar í Malaví í vetur en stefnt er að heimsókn sjálfboðaliða þangað á næsta ári. Karen Erla Erlingsdóttir í stjórn Rauða krossins fór yfir nýsamþykktar siðareglur félagsins og Birna Halldórsdóttir á alþjóðasviði kynnti Malaví fyrir fulltrúum í máli og myndum.

Þóra Björk Nikulásdóttir formaður Stöðvarfjarðardeildar lauk setu í svæðisráði og í hennar stað hlaut Anna Ragnheiður Gunnarsdóttir varamaður í Reyðarfjarðardeild kosningu. Pétur Karl Kristinsson formaður Eskifjarðardeildar lauk setu sem formaður en situr áfram í eitt ár og við tók Málfríður Björnsdóttir formaður í Héraðs- og Borgarfjarðardeild.

Göngum til góðs
Allar deildir á Austurlandi tóku þátt í landssöfnun Rauða krossins Göngum til góðs og mættu margir sjálfboðaliðar og gengu í hús og gekk söfnunin mjög vel.

Jólamarkaður á Egilsstöðum og Stöðvarfirði
Héraðs- og Borgarfjarðadeild á Egilsstöðum og Stöðvarfjarðardeild stóðu fyrir fatamarkaði í desember og rann ágóðinn til vinadeildasamstarfs deildanna á Austurlandi við deild Rauða krossins í Malaví. Fjöldi sjálfboðaliða félagsins tóku þátt í fatamarkaðnum og gekk salan vel.

Sparifatasöfnun á Fáskrúðsfirði og Egilsstöðum
Fáskrúðsfjarðardeild og Héraðs- og Borgarfjarðardeild á Egilsstöðum stóðu fyrir sparifatasöfnun í desember og tókst söfnunin mjög vel.

Haustfagnaður eldri borgara – samvinna þriggja Rauða kross deilda á Austurlandi
Rauða kross deildirnar á Austurlandi; Breiðdalsdeild, Fáskrúðsfjarðardeild og Stöðvarfjarðardeild héldu árlega skemmtun fyrir eldri borgara í safnaðarheimilinu á Stöðvarfirði í nóvember.

Barnakór Grunnskólans á Stöðvarfirði söng fyrir gesti og boðið var uppá sýningu gamalla ljósmynda. María H. Haraldsdóttir svæðisfulltrúi Rauða kross deildanna á Austurlandi hélt kynningu á verkefninu „Föt sem framlag” auk þess sem afurðir prjóna- og saumaklúbbsins á Stöðvarfirði voru til sýnis, en hluti afurðanna fer til Malaví í Afríku og í Rauða kross búðirnar hér heima.

Jólaaðstoð – samvinna átta deilda á Austurlandi
Jólaaðstoð var veitt til einstaklinga í fjárhagsþrengingum. Sjö Rauða kross deildir á Austurlandi (Eskifjarðardeild, Fáskrúðsfjarðardeild, Héraðs- og Borgarfjarðardeild, Norðfjarðardeild, Reyðarfjarðardeild, Seyðisfjarðardeild og Stöðvarfjarðardeild) ásamt verkalýðsfélaginu Afli, Lionsklúbbnum Múla á Egilsstöðum og Samkaupum á Egilsstöðum stóðu saman að verkefninu.

Samvinna var hafin við Krónuna á Reyðarfirði sem útbjó úttektarkort fyrir þá einstaklinga sem fengu styrk í Fjarðabyggð. Einnig var stofnaður nýr sjóður í Fjarðabyggð sem Rauða kross deildir á svæðinu sjá um. Fyrirtækin Alcoa á Reyðarfirði, Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði og Launafl veittu veglega styrki í ár.

Almennt skyndihjálparnámskeið og námskeiðið Börn og umhverfi
Flestar deildir á Austurlandi halda reglulega námskeið í almennri skyndihjálp og Börn og umhverfi.
 
Viðbrögð vegna efnahagshruns
Sett var á stofn nefnd á Fljótsdalshéraði vegna efnahagshrunsins sem skipuð er aðilum frá sveitarfélaginu, öðrum opinberum aðilum, fyrirtækjum og félagasamtökum. Fulltrúi frá Héraðs-og Borgarfjarðardeild Rauða krossins og svæðisfulltrúi Austurlands eiga sæti í nefndinni.

Í framhaldi var opnuð miðstöð atvinnulausra á Egilsstöðum þar sem Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins kemur að. Deildin réð tvo atvinnulausa menn í vinnu í samvinnu við Atvinnumiðlun við að koma húsnæði í lag sem verður notað sem nytjahús við hlið Sorpu. Deildin fékk tvö einingahús gefins frá Landsvirkjun.

Allar deildir á Austurlandi bjóða uppá námskeið í sálrænum stuðningi, bæði fyrir almenning og sérstaka hópa fólks sem atvinnu sinnar vegna þarf á stuðningi að halda. Flestar deildir veittu neyðaraðstoð í samvinnu við önnur félög og fyrirtæki til fjölskyldna og einstaklinga fyrir jólin og sérstaklega miðsvæðis á Austurlandi þar sem neyðin er mest.