Svæðisfundur Rauða kross deilda á Austurlandi haldinn þrátt fyrir óveður

13. okt. 2009

Svæðisfundur deilda á Austurlandi var haldinn á laugardaginn á Djúpavogi og mættu fulltrúar sex deilda af ellefu. Áætlað var að halda deildarnámskeið áður en fundur hófst en vegna óveðurs komst leiðbeinandinn Hlér Guðjónsson ekki austur með flugi. Fyrirhugaðir fyrirlestrar frá Erni Ragnarssyni verkefnisstjóra fatasöfnunar og Svövu Traustadóttir varaformanni URKÍ féllu einnig niður vegna sömu orsaka en þrátt fyrir allt þetta var ákveðið að halda fundinn.
Málfríður Björnsdóttir formaður flutti skýrslu svæðisráðs þar sem farið var yfir þau verkefni sem unnin voru á svæðisvísu milli ára.

Starfs- og fjárhagsáætlun síðasta árs og árið 2010 var tekin fyrir og að því loknu var gengið til kosninga í svæðisráð. Pétur Karl Kristinsson formaður Eskifjarðardeildar lauk setu og inn kom Egill Egilsson formaður Djúpavogsdeildar, Málfríður Björnsdóttir formaður Héraðs- og Borgarfjarðardeildar lauk setu sem formaður en situr áfram í eitt ár í ráðinu og við tók Anna Ragnheiður Gunnarsdóttir varamaður í Reyðarfjarðardeild.

Margrét Inga Guðmundsdóttir varamaður í Héraðs- og Borgarfjarðardeild og í stjórn URKI hélt erindi um starf URKI í stað Svövu.

Í umræðum deildanna undir önnur mál var farið yfir Rauðakrossvikuna, ungmennamál en áætlað er að halda leikinn Á Flótta haustið 2010 á Austurlandi og fréttabréf svæðis um verkefni deildanna sem fór á öll heimili á Austurlandi  í vikunni.  Þegar lesin var kveðja frá Erni í fatasöfnuninni á tölvupósti mynduðust skemmtilegar umræður um fatasöfnun, fatamarkaði, nytjagáma og Rauða kross búðina á Stöðvarfirði og er mikið átak í gangi á Austurlandi í þeim málum.