27. júl. 2004 : Ungliðahreyfing Skagafjarðardeildar tók þátt í Hafnardegi á Sauðárkróki

Hafnardagur var haldinn hátíðlegur á Sauðárkróki 17. júlí síðastliðinn. Á dagskránni voru ýmsir viðburðir í bænum á vegum hinna ýmsu aðila.  Ungliðahreyfing Skagafjarðardeildar tók virkan þátt í þessum dögum með  því að opna fatamarkað og kaffisölu fyrir utan húsakynni sín við Aðalgötu 10.  Þar unnu sjálfboðaliðar við að selja föt, leikföng og margt fleira á sanngjörnu verði.  Fötin komu frá Fataflokkunarstöð Rauða krossins í Hafnarfirði og nokkrir velunnarar Skagafjarðardeildar gáfu tertur sem seldar voru með kaffinu og auk þess bökuðu sjálfboðaliðar vöfflur sem runnu út eins og heitar lummur.

Allur ágóði sem fékkst við þessa sölu mun renna til mannúðarmála Rauða krossins.

13. júl. 2004 : BUSLarar í Sommarsol

Mánudaginn 28. júní síðastliðinn lögðu fimmtán BUSLarar (Besta Unglingastarf Sjálfsbjargar) af stað til Sommarsol á Vejbystrand í Suður Svíþjóð ásamt níu leiðbeinendum.

Mikill undirbúningur hefur verið fyrir ferðina og ýmislegt gert til þess að safna fé. Markmið ferðarinnar er meðal annars að víkka sjóndeildarhring unglinganna og hvetja þau til þess að vera óhrædd að takast á við hið óþekkta í framtíðinni. Ýmislegt skemmtilegt var á dagskrá í ferðinni. Hópurinn hefur sett fréttir frá ferðinni á heimasíðuna  http://busl.vortex.is  þar sem finna má ýmislegt um þessa skemmtilegu ferð. Hópurinn kom heim 4. júlí síðastliðinn. 

Myndasýning

12. júl. 2004 : Námskeiðin Mannúð og Menning haldin á höfuðborgarsvæðinu

Þátttakendur á námskeiðinu Mannúð og Menning með leiðbeinendunum Susan Martin og Hildi Tryggvadóttur Flóvenz.
Sumarið 2004 ákváðu Rauða kross deildirnar á höfuðborgarsvæðinu að bjóða krökkum á aldrinum 9-11 ára á námskeiðið Mannúð og Menningu, sem var áður haldið á vegum Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins. 

Dagskrá námskeiðsins, sem er vikulangt, er fjölbreytt blanda af fræðslu og leik sem stuðla á að auknum þroska þeirra í samskiptum við aðra. Sérstök áhersla er lögð á að útskýra og túlka tilgang og markmið í starfi Rauða kross hreyfingarinnar þannig að börnin geti tileinkað sér þau gildi sem felast í mannúðarhugsjóninni. Með öðrum orðum erum við að benda krökkunum á að allt starf Rauða krossins byggist fyrst og fremst á sameiginlegum eiginleika sem allir menn búa yfir, sem er góðmennska eða kærleikur.

9. júl. 2004 : Sjálfboðaliða vantar á sumarbúðirnar að Löngumýri í Skagafirði 24.júlí nk.

Þennan dag stendur til að fara í gönguferð á Gvendarskál fyrir ofan Hóla í Hjaltadal. Sumarbúðirnar eiga þar til gerðan sérsmíðaðan stól sem hægt er að bera í þá sem ekki komast af sjálfdáðum upp á fjallið. Því vantar sjálfboðaliða til að bera stólinn upp. 

Reiknað er með 4 tímum í gönguna frá kl. 11 til 15 þannig að gott væri að sjálfboðaliðar hefðu nesti með sér en síðan er boðið upp á miðdegiskaffi að Löngumýri um kl. 16 og sund fyrir þá sem vilja í Varmahlíð og svo kvöldmat á eftir að Löngumýri. Eitthvað pláss er inni í svefnpokaplássi og svo er hægt að tjalda í garðinum. Þá væri hægt að taka þátt í kvöldvöku sumarbúðanna en þær eru hin besta skemmtun.

7. júl. 2004 : SAMAN-hópurinn kynnir niðurstöður könnunar á viðhorfum foreldra

SAMAN-hópurinn stóð að gerð sjónvarpsauglýsinga „Setjum okkur í spor annars".
Þriðjudaginn 6. júlí sl. hélt SAMAN-hópurinn blaðamannafund þar sem kynntar voru niðurstöður könnunar sem Gallup gerði á viðhorfum foreldra til ýmissa þátta er varða uppeldi barna og unglinga og áfengis- og vímuefnanotkun.

Árið 2003 gerði Rannsóknir og greining ehf., könnun á vímuefnaneyslu nemenda í 8. ,9. og 10. bekk. Athyglisvert er að bera þessar kannanir saman. Um 20% foreldra barna í 10. bekk vissu að barn þeirra hefði drukkið áfengi, hins vegar sögðust 75% nemenda í 10. bekk árið 2003 hafa smakkað áfengi, þar af sögðust tæp 54% hafa orðið drukkin. Ljóst er að þrátt fyrir að foreldrar telji sig fylgjast vel með börnum sínum og hafi ákveðnar reglur og ramma í uppeldinu kemur í ljós að misræmis gætir milli hugmynda foreldra um neyslu unglinganna og þeirra svara sem unglingarnir gefa um eigin neyslu.

1. júl. 2004 : Fræðsla fyrir nemendur Vinnuskóla Reykjavíkur

Krakkar frá Hvassaleitisskóla, Álftamýrarskóla og Háaleitisskóla með leiðbeinendum Vinnuskólans og Bóasi og Sigríði Víðis.
Þessa dagana er mikið um að vera í Sjálfboðamiðstöð Reykjavíkurdeildarinnar á Hverfisgötunni. Næstu vikurnar er reiknað með að um sjö hundruð unglingar leggi þangað leið sína.

Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands og Geðrækt gerðu samning við Vinnuskóla Reykjavíkur um að bjóða 15 ára nemendum Vinnuskólans uppá fræðsludag og koma á milli 15 og 25 nemendur á hverjum degi dag hvern frá 14 júní og út júlí.