27. sep. 2004 : 2.500 sjálfboðaliðar óskast!

Þorkell Þorkelsson ljósmyndari, Kristján Sturluson varaformaður Rauða krossins, Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Ellert Schram forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands opnuðu ljósmyndasýningu sem er tileinkuð börnum í stríði í dag og hófu um leið átak til að safna 2.500 sjálfboðaliðum til að ganga til góðs.

Rauði kross Íslands ætlar að freista þess að fá 2.500 sjálfboðaliða til að safna fé til styrktar stríðshrjáðum börnum í landssöfnun félagsins Göngum til góðs, sem fram fer laugardaginn 2. október. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson er verndari söfnunarinnar og kynnti hana við opnun ljósmyndasýningar Þorkels Þorkelssonar tileinkaðri börnum í stríði í Smáralind í dag.

Á fundinum í dag minnti Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á að tvær milljónir barna hefðu látið lífið í stríðsátökum á síðastliðnum tíu árum og að áður en dagurinn liði væri líklegt að 25 börn hefðu stigið á jarðsprengju. Mikil þörf væri á aðstoð við yngstu fórnarlömb stríðs.

9. sep. 2004 : Samstarfsverkefni Kvennaathvarfsins og Urkí

Um miðjan september hefst samstarf Kvennaathvarfsins við Ungmennadeild Reykjavíkurdeildarinnar og Háskóla Íslands um sjálfboðastarf til að sinna þeim börnum sem koma með mæðrum sínum í Kvennaathvarfið. 

Sjálfboðaliðar munu koma á laugardögum í vetur og gera eitthvað skemmtilegt með börnum sem dvelja í athvarfinu eða hafa dvalið þar. Markmiðið er að létta börnum dvölina í athvarfinu með markvissu félagsstarfi og sömuleiðis létta undir með mæðrunum. 

Verkefnið er unnið í samvinnu við félagsráðgjöf við Háskóla Íslands undir handleiðslu Steinunnar Hrafnsdóttur og mun stór hluti sjálfboðaliðanna koma þaðan en sjálfboðastarfið er hluti af námi fólks við deildina.

6. sep. 2004 : Rætt um börn í stríði á alþjóðlegum sumarbúðum á Snæfellsnesi

 

Um þrjátíu ungmenni taka þátt í sumarbúðunum og ræða þar um málefni barna í stríði.
Um þrjátíu ungmenni frá átta löndum komu saman á Alþjóðlegum sumarbúðum Rauða kross Íslands á Snorrastöðum á Snæfellsnesi um helgina og ræddu um málefni barna í stríði. Fregnir bárust af því að hundruð barna hefðu látið lífið eftir að hafa verið tekin í gíslingu í Norður-Ossetíu í Rússlandi. Undirstrikuðu fréttirnar alvarleika umræðnanna og settu svip sinn á þær.

Á síðasta áratug er talið að tvær milljónir barna hafi látið lífið af völdum styrjaldarátaka. Í umræðunum á Snæfellsnesi var rætt um málefni barnahermanna, barna á flótta og barna sem er misþyrmt í ólgu átaka víða um heim.2. sep. 2004 : Rauða kross strákurinn Hjálpfús heimsækir leikskólana

Kamilla Ingibergsdóttir framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar Rauða krossins afhendir Elísabetu Eyjólfsdóttur leikskólastjóra námsefnið „Hjálpfús heimsækir leikskólann."
Deildir Rauða kross Íslands eru þessa dagana að afhenda leikskólum um allt land námsefnið „Hjálpfús heimsækir leikskólann", sem hefur það markmið að kenna leikskólabörnum mikilvægi þess að rétta fólki hjálparhönd þegar eitthvað bjátar á.

Námsefnið inniheldur litla brúðu og kennsluefni fyrir sex sögustundir. Rauða kross strákurinn Hjálpfús er í formi fingurbrúðu sem leikskólakennarar geta notað til að leiða börnin í gegnum námsefnið.

„Þetta efni er eins og sniðið að stefnu okkar í leikskólanum Álfaheiði," sagði Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri þegar fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins afhentu henni námsefnið. „Við leggjum mikla áherslu á lífsmennt, sem byggir á nokkrum grundvallargildum eins og friði, virðingu og umburðarlyndi."