Heimsókn frá Gambíu
Fabukary Kalleh á kynningu í höfustöðvum R-RkÍ að Laugavegi 120. |
Heimsóknin er í tengslum við fyrirhugað vinadeildasamstarf Reykjavíkurdeildar við Rauða krossinn í Gambíu. Bundnar eru miklar vonir við þetta samstarf enda möguleikarnir óþrjótandi.
Þann tíma sem Fabukary Kalleh hefur dvalið hér hefur hann kynnt sér verkefni deildarinnar gaumgæfilega semog starfsemi og uppbyggingu íslenska Rauða krossins. Þá hefur hann haldið fjölda fyrirlestra m.a. í Fjölsmiðjunni, Alþjóðahúsi, Fjölbrautaskóla Akraness og fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Rauða krossins. Fabukary Kalleh hefur í þessum fyrirlestrum m.a. fjallað um stöðu kvenna í heimalandi sínu, um mannlíf og menningu í Gambíu og síðast en ekki síst um gambíska Rauða krossinn og verkefni hans.
Ba ba ba bababababa
Varla eru haldnir svo stórtónleikar á Reykjavíkursvæðinu öðruvísi en að Skyndihjálparhópurinn sé ekki kallaður til að sinna sjúkragæslu, enda vinnubrögð hópsins jafnan fagmannleg og fumlaus.
Meðlimir hópsins sinna þessum vöktum í sjálfboðnu starfi en vaktirnar eru gott tækifæri fyrir meðlimi hópsins til að þjálfa færni sína og skipulag. Þó er tekið hógvært gjald af þessari þjónustu til að mæta kostnaði við kaup á nauðsynlegum búnaði og þjálfun hópmeðlima.
Á sunnudaginn kemur verða sólskinsdrengirnir í Beach boys með tónleika í Laugardalshöll. Skyndihjálparhópurinn verður með sjúkragæslu á tónleikunum. Þeir meðlimir hópsins sem geta mætt á vaktina hafi samband við Birgi 1/2 verkefnastjóra, [email protected] eða Tuma, [email protected]
Námskeið í sálrænni skyndihjálp
Sjálfboðaliðar í Busl og Sjálfboðamiðlun sóttu saman námskeið í sálrænni skyndihjálp mánudagskvöldið sl.
Námskeiðið var haldið í húsnæði landsfélagsins að Efstaleiti 9. Verið er að vinna að því að útbúa nýtt húsnæði Reykjavíkurdeildar með þarfir hreyfihamlaðra í huga og verður það tilbúið innan tíðar.
Mjög góð mæting var á námskeiðið og gerðu þátttakendur góðan róm að fræðslunni en það var Margrét Blöndal hjúkrunarfræðingur sem kenndi
Sjálfboðaliða vantar
Leitað er eftir sjálfboðaliðum sem gætu aðstoðað ungt fólk á aldrinum 18-20 ára frá Víetnam og Taílandi við enskunám ca. einu sinni í viku.
Viðkomandi þurfa að hafa nokkuð gott vald á skrifaðri og talaðri ensku.
Aðstoðin er óformleg og fer þannig fram að hver sjálfboðaliði hittir einn nema á þeim tíma og stað sem báðum hentar.
Áhugasamir hafi samband við Tumi í síma 5450-407 eða Tumi @redcross.is
Kaffihúsakvöld hjá Fjölbrautarskólanum við Ármúla til styrktar götubörnum í Mósambík
![]() |
Nemendur bökuðu og fengu kökur og vínarbrauð frá bakaríum í nágrenni skólans sem var selt til styrktar götubörnum í Mósambík. |
Meira en hundrað nemendur ásamt vinum og kunningjum mættu á kaffihúsakvöld Fjölbrautarskólans við Ármúla fimmtudaginn 4. nóvember. Skemmtunin var haldin í húsakynnum skólans og rennur allur ágóði af henni í verkefni Rauða krossins til styrktar götubörnum í Mósambík.
Sendifulltrúar kynna Rauða krossinn í skólum
![]() |
Hlín Baldvinsdóttir talar við nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri |
Hlín Baldvinsdóttir sendifulltrúi gerði víðreist um norðurlandið í október. Hún byrjaði á að heimsækja Framhaldsskólann á Húsavík og hitti þar fyrir nemendur í nokkrum bekkjardeildum og einnig nemendur sem eru í skyndihjálparhópi innan skólans. Hún nýtti daginn sérstaklega vel því um kvöldið hitti hún stjórnarmenn Húsavíkurdeildar Rauða krossins. Næsta dag fór hún í Verkmenntaskólann á Akureyri og hitti þar fyrir nemendur í sal skólans. Kvöldið notaði hún eins og fyrri daginn og hitti fyrir stjórnarmenn Akureyrardeildar Rauða krossins.