16. des. 2004 : Við höfum margt að segja

„Við erum framtíðin, en umfram allt fortíðin”
 Þetta voru skilaboðin frá ungliðaleiðtogum Rauða krossins og Rauða hálfmánans frá 27 löndum um allan heim sem hittust í Tarragona á Spáni 22. og 23. september 2004.

Þetta unga fólk, sem kom m.a. frá nokkrum ungliðanefndum Alþjóðasamtaka Rauða krossins, komu saman til að ræða um hvernig auka ætti þátttöku þeirra í ákvarðanatöku á öllum sviðum starfseminnar. Þá hittu þeir einnig forseta alþjóðasamtakanna, Juan Manuel Suárez Del Toro, og kynntu fyrir honum ályktanir sínar og tillögur.

14. des. 2004 : Fatasendingar koma að góðum notum í Kabúl

Rauði kross Íslands sendi föt til Afganistan. Hluti fatasendingarinnar var sérstaklega flokkaður og pakkaður fyrir börn á sjúkrahúsi sem Steina Ólafsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins vann á.

Rauði kross Íslands stóð fyrir fatasöfnun á Lækjartorgi í maí sl. þar sem óskað var eftir hlýjum fatnaði á konur og börn í Afganistan. Almenningur brást vel við og söfnuðust um 10 tonn af fatnaði.

Þremur vikum síðar lenti á flugvellinum í Kabúl flugvél frá utanríkisráðuneytinu full af hjálpargögnum frá Rauða krossi Íslands og Hjálparstarfi kirkjunnar. Örn Ragnarsson formaður fataflokkunarstöðvar Rauða kross Íslands var með í för og afhenti fulltrúum Alþjóðasambands Rauða krossins og Indira Ghandi barnaspítalans hjálpargögnin.

11. des. 2004 : Konukot, athvarf fyrir heimilislausar konur var opnað á 80 ára afmæli Rauða kross Íslands

Katla Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, Brynhildur Barðadóttir verkefnastjóri og Ómar Kristmundsson formaður deildarinnar fyrir utan Konukot.
Athvarf fyrir heimilislausar konur var formlega opnað í Reykjavík í dag, á 80 ára afmæli Rauða kross Íslands. Ómar H. Kristmundsson formaður Reykjavíkurdeildar opnaði húsið að viðstöddu fjölmenni, meðal annars Úlfari Haukssyni formanni félagsins og Björk Vilhjálmsdóttur formanni félagsmálaráðs Reykjavíkur, en Reykjavíkurborg leggur til húsnæðið.

Björk sagðist vilja þakka Rauða krossinum fyrir að hafa vakið athygli á vanda heimilislausra kvenna. „Rauði krossinn er oft í fararbroddi og sýnir yfirvöldum fram á þörfina og þá geta þau tekið við,” sagði Björk. „Ég efast ekki um að þannig verður það með þessa starfsemi.”

11. des. 2004 : Páll Pétursson hlýtur æðstu viðurkenningu Rauða kross Íslands

Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson veitir Páli Péturssyni viðurkenningu á 80 ára afmæli Rauða kross Íslands.
Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson sæmdi Pál Pétursson æðstu viðurkenningu Rauða kross Íslands – heiðursmerki úr gulli - í dag, á 80 ára afmæli félagsins. Sem félagsmálaráðherra ákvað Páll að bjóða árlega, utan eins árs, hópum flóttamanna frá gömlu Júgóslavíu til Íslands, alls 218 manns.

Í rökstuðningi fyrir veitingunni segir að auk þess að hafa staðið fyrir hingaðkomu flóttamanna hafi Páll á ráðherraferli sínum beitt sér fyrir stofnun Fjölsmiðjunar, sem er verkþjálfunarsetur fyrir ungt fólk, og látið málefni geðfatlaðra til sín taka. Verkefni til stuðnings geðfötluðum hafa verið forgangsverkefni Rauða krossins á síðustu árum.