29. des. 2005 : Um áramót


Stjórn URKÍ sendir öllum sjálfboðaliðum og fjölskyldum þeirra bestur óskir um farsæld á komandi ári og þakkar vel unnin störf í þágu Rauða krossins á líðandi ári.
Jafnframt viljum við minna ykkur á að fara varlega með flugelda því eins og allir vita geta þeir verið mjög hættulegir ef ekki er rétt að öllu staðið.

Megið þið öll eiga gott og gleðilegt gamlárskvöld - söfnum góðum minningum saman.

Með áramóta kveðju,
Stjórn Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands.

28. des. 2005 : Hjálpum Pakistan

Munið söfnunarsíma Rauða krossins, hann er opinn núna.
Símanúmerið er 907 2020, ef hringt er í númerið færast 1000 krónur af símareikningi.

Einnig er hægt að ... 

23. des. 2005 : Gleðileg jól

Stjórn Ungmennahreyfingar Rauða Kross Íslands vill óska öllum sjálfboðaliðum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla.
Við þökkum fyrir óeigingjarnt starf sem ungt fólk á landinu öllu hefur unnið af hendi fyrir Rauða Kross Íslands á árinu.

Stjórn Ungmennahreyfingar Rauða Kross Íslands

22. des. 2005 : Gleðilega hátíð

Stjórn URKÍ sendir öllum þeim sem hafa lagt okkur lið á liðnu ári kærar kveðjur með

ósk um gleðilega hátíð og þökk fyrir árið sem er að líða.                                                   

Við sjáumst svo á næsta ári, enn öflugri og hressari.                                                                                                                                                                          

 

20. des. 2005 : Rauði krossinn leggur Heilsugæslu Hornafjarðar lið


Þórgunnur Torfadóttir afhenti Ragnhildi Magnúsdóttur héraðslækni hálfa milljón króna fyrir hönd Hornafjarðardeildar Rauða krossins í gær.
Heilsugæslan á Höfn fór af stað með söfnun fyrr í haust og er stefnan að kaupa ný stafræn röntgentæki um leið og nægilegt fjármagn hefur safnast.  Að sögn héraðslæknis eru þau gömlu á síðasta snúningi, þau virka alls ekki alltaf þegar grípa á til þeirra og ómögulegt er að fá varahluti í þau.   Ný stafræn röntgentæki kosta...

12. des. 2005 : Ungt fólk framtíð Rauða krossins

Alls voru 65 fulltrúar ungliðahreyfinga viðstaddir ársþing Rauða krossins sem haldið var í Seoul í síðasta mánuði.
Þátttakendur frá ungliðahreyfingum landsfélaga Rauða krossins hafa aldrei verið fleiri en á ársþingi Alþjóða Rauða krossins sem haldið var í Seoul í Suður-Kóreu í síðasta mánuði.

Alls voru 65 fulltrúar ungliðahreyfinga viðstaddir þingið og ungir þingfulltrúar voru alls um 100. Framlag unga fólksins til þessa þings var því mikið, og það tók virkan þátt í pallborðsumræðum og vinnuhópum á þinginu.

Ungum fulltrúum á stórum fundum Rauða krossins fer fjölgandi. Á ársþinginu 2001 voru aðeins átta fulltrúar frá ungliðum.

5. des. 2005 : Dagur sjálfboðaliðans er í dag

 Á vegum Rauða kross Íslands starfa um 1100 sjálfboðaliðar í fjölbreyttum mannúðarverkefnum innanlands. Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna óeigingjarnt starf sem er íslensku samfélagi afar dýrmætt.

Starf sjálfboðaliða er undirstaða starfsemi Rauða krossins um heim allan og er 5. desember alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans. Tvær deildir á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurdeild og Kópavogsdeild, fagna degi sjálfboðaliðans með opnu húsi fyrir sína fjölmörgu sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðar og gestir þeirra eru hvattir til að mæta og eiga glaða stund saman.

5. des. 2005 : Rauði kristallinn

Alþjóðlegi Rauði krossinn vinnur nú að því ákvörðun um hvort eigi að taka upp þriðja táknið við hlið krossins og hálf-mánans.  Það væri Rauði kristallinn. Persónulega styð ég þetta framtak og ef ég væri allsráður myndi ég leggja niður krossinn og hálf-mánann og taka kristalinn upp í staðinn.  

Í dag þá fær hvert landssamtak að velja hvort merkið er nota.  Annað hvort kross eða hálfmána.  það hefur alltaf verið talað um að þessi merki tengist ekki trú, það er náttúrlega ekki rétt. 

Það þarf ekki að gera meira en að skoða hvaða lönd nota krossinn og hvaða lönd nota hálfmánann. Merkið fer eftir landstrú
.... 

1. des. 2005 : Rauði krossinn leggur ungu fólki lið


Súðavíkurdeild Rauða kross Íslands afhenti síðasta þriðjudag Félagsmiðstöð unglinga í Súðavíkurskóla veglega gjöf sem samanstendur af 32 tommu sjónvarpi með flatskjá og heimabíói. Gjöfin er ætluð sem stofnbúnaður fyrir félagsmiðstöðina. Það var Sigríður Hrönn Elíasdóttir, formaður súðavíkurdeildar sem afhenti Elísabet Margréti Jónsdóttur, forstöðumanni félagsmiðstöðvarinnar, gjöfina. 
Í gjafabréfi Rauða krossins segir að lokum: „Það er von okkar að gjöf þessi komi að góðum notum og að félagsstarfið haldi áfram að blómstra um ókomna framtíð.“

24. nóv. 2005 : Fyrirlestur um óformlega menntun og þátttöku ungs fólks í samfélaginu

Dr. Howard Williamson flytur fyrirlestur um  óformlega menntun og þátttöku ungs fólks í  samfélaginu í Háskólanum í Reykjavík, stofu 101, mánudaginn 28. nóvember nk. kl. 13:15.

Fyrirlesturinn  er í boði menntamálaráðuneytisins og Háskólans í Reykjavík.

24. nóv. 2005 : Afmælishátíðin í Kringlunni

Laugardaginn 19. nóvember hélt Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands upp á 20 ára afmæli sitt. Var þetta tækifæri einnig nýtt til að kynna URKÍ fyrir almenningi í Kringlunni.

Var okkur einstaklega vel tekið og margir stoppuðu við til að spjalla og fræðast um verkefnin okkar. Meðal þess sem kynnt var voru skyndihjálparhópur sem slysafarðaði meðlim úr stjórn URKÍ, verkefnið ,,á flótta” og Vin. Við dreifðum nýju eintaki af Plús C en í því er umfjöllun um sögu URKÍ og þau verkefni sem við erum að vinna að. Þá gáfum við líka smakk af afmælisköku og dró það marga að.

23. nóv. 2005 : Afmælishátíð URKÍ, samantekt

 Afmæli URKÍ síðast liðin laugardag gekk í alla staði mjög vel.

Kynningin í Kringlunni gekk vonum framar og eru allir ánægðir með hana. Kynningin stóð í þrjá tíma og nánast allan þann tíma voru förðunarsnillingarnir Jón og Viddi að slysafarða þann sem þetta skrifar og var ég nú bara orðinn nokkuð hrikalegur þegar þeir fengust loksins til þess að hætta og fara að gera að „sárum“ mínum. Margir stoppuðu til þess að fylgjast með þó svo að færri vildu hjálpa til við að hlúa að sárunum. Mátti heyra setningar á borð við: „Þetta er ógeðslegt,“ „Æ hvað kom fyrir,“ „Hann hefur meitt sig þessi“ og „Að sjá þennan viðbjóð svona rétt fyrir jól.“

Margir kynntu sér hlutverkaleikinn ‘Á flótta’ og Athvarfið Vin og til þess að rabba um ungmennahreyfinguna við þá sem þarna voru.
Sumir komu bara til að fá köku eða blöðru og fengu þá að vita hverjir væru þar á ferðinni og hvert tilefnið væri.

Sjálfboðaliðarnir sem voru í básnum voru duglegir að dreifa eintökum af nýja PlúsC...

23. nóv. 2005 : Rauði krossinn á Friðar og mannréttindaráðstefnu.

Síðastliðinn laugardag skrópaði ég í afmæli URKÍ og fór í staðin á ráðstefnu. 
Ráðstefna þessi bar yfirskriftina „Hvað getur ungt fólk lagt að mörkum til mannréttinda og friðarmála á 21. öldinni sem einstaklingar?“. 


Ungmennahreyfingin var beðin um að vera með framsögu á þessari ráðstefnu og fór ég sem fulltrúi hennar.  Þetta var ágæt ráðstefna, eini gallin var sá að alla umræðu vantaði.  Ég fékk líka á tilfinninguna að ráðstefnan væri einhverskonar uppskeruhátíð vegna sýningarinnar sem hefur verið gangi í Ráðhúsinu síðastliðnar vikur.

 

Þegar ég var að skrifa ræðuna þá flaug sú hugsun í mig að Rauði krossinn ætti eignlega lítið erindi inná ráðstefnu um frið og mannréttindi.  Þar sem svona ráðstefnur eru oftast um hvað hægt sé að gera til að breyta ástandinu í dag. 
En þar sem ég kom sem fulltrúi Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands þá var það kannski ekkert svo stór mál.  En ég er viss um að ef Rauði krossinn myndi vera með framsögu um friðar og mannréttindamál í Bandaríkjunum eða í Palestínu þá væri það ekkert gaman mál...

21. nóv. 2005 : Afmælishátíð URKÍ í Skagafirði

Krakkar úr Ungliðahreyfingum Skagafjarðar- og Skagastrandadeilda skera saman afmæliskökuna.
Á laugardag hélt URKÍ (Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands) upp á 20 ára afmæli sitt í Reykjavík. Ungmennadeildum á landsbyggðinni var boðið til veislunnar og/eða hvattar til að gera eitthvað í tilefni dagsins heima fyrir. 

Ungmennadeild Skagafjarðardeildar Rauða krossins og nýstofnuð Ungmennadeild Skagastrandardeildar tóku sig saman og buðu til sameiginlegrar og veglegrar veislu í húsnæði Skagafjarðardeildar á Sauðárkróki milli kl.16 og 20.

19. nóv. 2005 : Ungmennahreyfing Rauða krossins á tímamótum

Tumi er forstöðumaður Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar og Unnur er formaður.

18. nóv. 2005 : Ungmennahreyfingin Rauða krossins 20 ára

 
Ingibjörg Halldórsdóttir formaður Ungmennahreyfinar Rauða kross Íslands.
Breytum heiminum
Þar sem ég sit við að skrifa þennan pistil verður mér hugsað til ástæðu þess að ég gekk í Rauða krossinn. Mig langaði til að breyta heiminum, svo einfalt var það. Ég áttaði mig þó fljótt á því að það væri varla á færi eins dropa í mannhafinu.

Ég er, líkt og svo margir af minni kynslóð, alin upp með sjónvarpinu sem svo oft kætir, en á líka til að græta. Hörmungar, sem birtast í fréttatímum og foreldrar geta ekki útskýrt fyrir börnum að séu bara þykjustu, snerta barnssálina. Í flestum þessum fréttum er einnig talað um hvað Rauði krossinn er að gera í málinu. Ég setti því fljótt samasemmerki á milli mannúðar og Rauða krossins og vissi að þeim samtökum vildi ég tilheyra.

Það kom mér þó skemmtilega á óvart þegar ég fór að taka þátt í starfi Ungmennahreyfingarinnar hve mikið og víðfeðmt starfið innanlands er. Hundruð sjálfboðaliða sem reyna allir að gera heiminn og landið að betri stað. Það fyllti mig stolti að geta sagst vera sjálfboðaliði í Rauða krossinum, þó að framlag mitt hafi verið fremur lítið. Ég lærði líka fljótt að því fylgir mikil vellíðan að geta gert eitthvað til að bæta líf annarra. Auk þess hef ég kynnst fjölmörgu frábæru fólki sem vinnur að sömu hugsjón.

16. nóv. 2005 : Afmæli Urkí

15. nóv. 2005 : Afmælishátíð

Stjórn Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands vill minna á afmælishátíð í tilefni 20 ára afmæli hreyfingarinnar, sem haldin verður næst komandi laugardag.

Hátíðin hefst klukkan 14 í Kringlunni. Þar verðar helstu verkefni hreyfingarinnar kynntar, sem og rifjuð verða upp önnur verkefni með myndböndum og gömlum myndum og plakötum og margt fleira spennandi.
...heyrst hefur að skyndihjálparhópurinn verði á staðnum... Langar þig ekki að sjá útlærða skyndihjálparspekúlanta slysafarða, sýna réttu handtökin við hjartahnoð og fleira slíkt?
Þá er tækifærið núna, komdu í Kringluna á laugardaginn milli klukkan 14 og 17.

Um kvöldið býður URKÍ núverandi og fyrrverandi sjálfboðaliðum til veislu í húsakynnum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands við Laugaveg (Sama húsi og KB Banki við Hlemm) og hefst hún klukkan 20 og mun standa fram eftir kvöldi. Kjörið tækifæri til að njóta góðra veitinga, syngja og skemmta sér í góðum félagsskap.
Allir sjálfboðaliðar hreyfingarinnar í gegnum tíðina eru hvattir til að mæta.

Taktu daginn frá!

Ungmennahreyfing Ruða kross Íslands,
     Mannúð - hlutleysi - sjálfstæði
                         í 20 ár.

4. nóv. 2005 : „Ég hef séð of mikið"

Þessi grein birtist í Tímariti Morgunblaðsins, 23.10.2005.
Sigríður Víðis er blaðamaður.   Ljósmyndir: Þorkell Þorkelsson
Myndirnar eru úr ljósmyndaverkefninu The Survival of the Human Being, sem unnið er í samvinnu við Gunnar Hersvein

3. nóv. 2005 : 20 ára afmæli URKÍ

Undirbúningshópur vinnur nú hörðum höndum að skipulagningu hátíðar sem haldin verður í tilefni af 20 ára afmæli Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands.
Hátíðin hefst í Kringlunni þann 19. nóvember, þar verður kynning á helstu verkefnum Ungmennahreyfingarinnar auk annarra uppákomna...

1. nóv. 2005 : Vinnufundur stjórnar

Hluti af stjórn URKÍ hittist á vinnufundi um síðustu helgi þar sem rædd voru m.a. niðurstöður ungmennateymis RKÍ, heimasíða URKÍ, hlutverk stjórnar og stefnumál. Niðurstaðan af fundinum var sú að stjórnin er sátt við þá vinnu sem ungmennateymið hefur verið að vinna og þær leiðir sem það telur að séu færar til þess að fjölga sjálfboðaliðum í hreyfingunni. Eins hyggst stjórnin ætla að einbeita sér að því næstu mánuðina að styrka starfið innanlands og vinna að leiðum til þess að aðstoða deildir við að koma á ungmennastarfi.      

31. okt. 2005 : Námskeið í skyndihjálp fyrir ungt fólk á Vestfjörðum.

Rauða Kross deildirnar á Vestfjörðum bjóða ungmennum frá 16 ára aldri á námskeið í almennri skyndihjálp þann 20.-22. nóvember n.k.  Farið verður yfir grunnatriði skyndihjálpar sem vissulega er nauðsynlegt fyrir alla að læra. Námskeiðið mun fara fram í Gamla Apótekinu, upplýsinga og menningarmiðstöð ungs fólks, sem Rauða Kross deildirnar á n. verðum vestfjörðum tóku dyggilega þátt í að koma því á laggirnar árið 2000. Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Skráning fer fram í síma 456-5700

12. okt. 2005 : Krakkar á Húsavík voru ,,Á flótta"

Krakkarnir voru í hlutverki flóttamanna í einn sólarhring.
Fjörutíu unglingar á Húsavík tóku þátt í „Á flótta" leiknum um sl. helgi í tengslum við Ungmennahúsið Tún á Húsavík og Húsavíkurdeild Rauða kross Íslands.

Á flótta er hlutverkaleikur þar sem unglingar eru í hlutverki flóttamanna í einn sólarhring og fá að reyna á eigin skinni ýmsar dæmigerðar aðstæður sem flóttamenn lenda í. Leiðbeinendur, sem allir hafa sótt þartilgerð námskeið, eru í hlutverkum landamæravarða, lögreglu og þar fram eftir götunum.

10. okt. 2005 : Aðalfundur Urkí-R

Aðalfundur Urkí í Reykjavík var haldinn í síðustu viku.

Starfsemi Urkí-R var með hefðbundnu sniði síðasta starfsár og flest verkefnin gengu vel.

Stjórn Urkí-R starfsárið 2005-2006 er skipuð...

31. ágú. 2005 : Heimsþorpin

Tumi ásam Bubacarr Kalleh, sem er ofursjálfboðaliði, ásamt krökkum á förnum vegi.
Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands og gambíski Rauði krossinn hafa nýverið stofnað til viandeildasamstarfs. Einn hluti þess samstarfs er ungmennaskipti á milli landanna.

Gambía er lítið land á vesturströnd Afríku. Íbúafjöldinn þar er tæplega ein og hálf milljón manna sem flestir aðhyllast trúarbrögð islam. Landið er fátækt en friðsælt og íbúar lifa aðallega á ferðaiðnaði og jarðhneturækt.

18. ágú. 2005 : Starfsreglur á vefnum

Starfsreglur Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands dagsettar 28. janúar 2005 eru komnar á vefinn undir síðuna Um Urkí.

/urki/um_urki/starfsreglur/

12. ágú. 2005 : Rauði krossinn á skátamóti

Það var svona í heitara lagi fyrir Ísland þegar ég beygði inn á Hafravatnsafleggjarann um hálf tvöleytið. Ég geispaði, opnaði gluggann og reyndi að einbeita mér að akstrinum. ,,Agalega er heitt” hugsaði ég með mér og kveikti líka á miðstöðinni. Ég brunaði áfram eftir veginum en ferðinni var heitið á Úlfljótsvatn. Ég hafði tekið það að mér snemma í sumar að vera með verkefni frá Rauða krossinum á alþjóðlegu skátamóti á Úlfljótsvatni. Ég vissi svo sem ekki við hverju var að búast. Ég hafði aldrei áður farið á skátamót, þekkti lítið til starfsemi skátanna og vissi þess vegna ekkert hvað ég var í raun að fara út í. Ég hafði fengið leiðbeiningar um hvert ég ætti að fara þegar ég kæmi á svæðið. ,,Þú ferð bara að hvítu húsunum og þar fyrir neðan er blátt og hvítt tjald sem þú fer í, þar er Alþjóðaþorpið, þú verður þar” sagði kona við mig í símann sem ég var í sambandi við. Ég sá hvítu húsin þegar ég kom en ég sá líka nokkur blá og hvít tjöld! Eftir að vera búin að kíkja í eitt vitlaust blátt og hvít tjald fann ég Alþjóðaþorpið og hið rétta hvíta og bláa tjald. Þar tók á móti mér yndislega kona sem leiddi mig í allan sannleikann um skátamótið, hvað væru margir á staðnum, hvernig dagskráin væri og hvert mitt hlutverk væri á mótinu.

12. ágú. 2005 : Rauði krossinn á skátamóti

Hildur er virkur sjálfboðaliði hjá Ungmennahreyfingu Rauða krossins.

6. júl. 2005 : Saga Taslimah

Taslimah (fyrir miðju) er ein af mörgum ungum sjálfboðaliðum indverska Rauða krossins sem ýtti vandmálum sínum til hliðar og hjálpaði öðrum eftir flóðbylgjuna í desember 2004.
Ég heiti Taslimah, en vinir mínir kalla mig Tata. Ég er fædd 9. mars 1985 í Lhok Nga, Aceh Besar, Indónesíu. Ég er sjötta í röðinni af sjö systkinum og bý með þremur systkina minna, móður minni og föður, sem er sextugur og hættur að vinna. Þetta er mín saga.

Það vissu ekki margir áður fyrr hvernig mitt fólk, Aceh-búar, var. Við skulum orða það þannig að vegna erfiðra aðstæðna í landi okkar erum við vön því að bregðast við hættulegum aðstæðum. Ef við heyrum skothvell leggjumst við strax niður. Hverfið okkar er nálægt ströndinni og litlir jarðskjálftar eru tíðir. Við bregðumst einnig skjótt við jarðskjálftum og tökum þeim sem eðlilegum fylgifiski þess að búa nálægt ströndinni.

Sólin skein í heiði þennan sunnudagsmorgun, 26. desember 2004. Frábært veður fyrir lautarferð á ströndinni. Ég ætlaði að heimsækja vin minn. En fyrst gerði ég mín vanalegu húsverk á sunnudagsmorgnum frá 6:30 til 10. Þá geri ég alltaf hreint í húsinu, þvæ föt og hjálpa mömmu og systur minni við að elda matinn.

30. jún. 2005 : Námsvist við alþjóðlegan menntaskóla

Auglýst er eftir umsóknum um skólavist við alþjóðlegan menntaskóli í Fjaler í Noregi. Nám við skólann tekur tvö ár og því lýkur með viðurkenndu alþjóðlegu stúdentsprófi, International Baccalaureat Diploma (IB). Kennsla fer fram á ensku.

Alþjóðlegi menntaskólinn í Fjaler í Noregi er rekinn af Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Íslensk stjórnvöld eiga aðild að rekstri skólans og býðst árlega skólavist fyrir einn nemanda. Nemandi þarf sjálfur að greiða uppihaldskostnað sem nemur um það bil 20.000 norskum krónum á ári og auk þess ferðakostnað. Nánari upplýsingar um skólann má finna á heimasíðu skólans: http://www.rcnuwc.uwc.org

27. jún. 2005 : Alþjóðlegar sumarbúðir

Alþjóðlegar sumarbúðir í Uzbekistan verða haldnar 10. til 17 september 2005.

Áhugasamir hafi samband við Sólveigu á landsskrifstofu en umsóknarfrestur rennur út 30. júlí.

31. maí 2005 : Fréttir af ECM fundi

Dagana 12. til 17. maí stóð Evrópufundur Ungmennahreyfinga Rauða krossins og Rauða hálfmánans yfir. Þar komu saman 42 landsfélög, 40 innan Evrópu og einnig Ástralía og Filippseyjar. 

Ég fór á fundin sem fulltrúi ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands og var svo heppin að þetta er í þriðja sinn sem ég fer á slíkan fund. Þetta eru þrælskemmtilegir fundir.

Að þessu sinni fór ég ein svo ég lagði extra mikið á mig til þess að kynnast fólki og spjalla við sem flesta. Það er auðvitað samt alltaf mikill styrkur af hinum Norðulöndunum. Ef maður er eitthvað týndur þá finnur maður bara næsta mann frá Norðulöndunum, svo það er ekki eins og maður sé einn.

21. maí 2005 : Nýr formaður Ungmennahreyfingarinnar

Ingibjörg Halldórsdóttir nýkjörinn formaður Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands hlakkar til að takast á við formannshlutverkið.

Landsfundur Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands fór fram í gærkvöldi þar sem fram fór kosning nýs formanns og annarra stjórnarmanna til eins árs. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir sem gegnt hefur starfi formanns undanfarin tvö ár hætti sem formaður og var Ingibjörg Halldórsdóttir kjörin í hennar stað. Ingibjörg hefur setið í fulltrúaráði undanfarin fimm ár og sinnt störfum í þágu félagsins m.a. á Akranesi þar sem hún býr. „Ég hlakka til að takast á við þetta mikilvæga hlutverk sem formaður Ungmennahreyfingar Rauða krossins. Það hefur alltaf heillað mig að vinna með ungu fólki að verðugum málefnum og því verður gaman að takast á við þetta,” segir Ingibjörg nýkjörinn formaður.

Nýja stjórn Ungmennahreyfingarinnar skipa Ingibjörg Halldórsdóttir formaður, Jón Þorsteinn Sigurðsson, Brynjar Már Brynjólfsson, Jens Ívar Albertsson, Nanna Halldóra Imsland, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Atli Örn Gunnarsson.

4. maí 2005 : Landsfundur Urkí

Aðalfundur Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands verður haldinn föstudagskvöldið 20 maí að Efstaleiti 9, þar sem Landsskrifstofa Rauða kross Íslands er til húsa.

Mun fundurinn hefjast klukkan 20:00.

Dagskrá Landsfundar er eftir 6. grein starfsreglna.

1.   Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2.   Skýrsla stjórnar um síðasta starfsár lögð fram til umræðu.
3.   Framkvæmda- og fjárhagsáætlun næsta árs lagðar fram til umræðu og ákvörðunar.
4.   Breytingar á starfsreglum.
5.   Kosning formanns samkvæmt 7. gr.
6.   Kosning annarra stjórnarmanna til eins árs samkvæmt 7.gr.
7.   Önnur mál.

Ég hvet alla til að mæta.Og bjóða sig fram, það er gaman að geta tekið þátt í ákvöðrunartökum sem snertir Ungmennastarf á landsvísu.

Hlakka til að sjá ykkur
Kv.Þóra Kristín Ásgeirsdóttir
Formaður Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands.

 

27. apr. 2005 : Upplýsingar um evrópusamstarf komið á vefinn


Í maí nk. verður haldinn samstarfsfundur meðal ungmennahreyfinga Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Evrópu, European Cooperation Meeting, ECM. Þessi fundur hefur verið haldin frá 1992 og höfum við tekið þátt nánast frá upphafi.

Fundurinn er til þess að kynnast því hvað er að gerast hjá öðrum og eins að kynna sitt starf. Einnig eru pólitísk mál innan hreyfingarinnar rædd, staða ungmennahreyfingarinnar innan alþjóðasamfélaginu, staða ungmennahreyfingarinnar innan landsfélaga og eins staða ungmennadeildanna innan deilda.

Ýmis mál eru tekin fyrir, á síðasta fundi var rætt um stefnuyfirlýsingu Alþjóðasambandsins 2010, sem er hægt að nálgast á Landsskrifstofu og stefnuna um ungmennamál sem var samþykkt 1999 sem hægt er að nálgast hér.

Hópavinna er algeng á svona fundum, en henni hefur verið skipt upp á tvo vegu, annarsvegar er verið að ræða verkefni, hinsvegar önnur mál eins og samstarf, hlutverk, aukin samskipti á milli ungmennahreyfinga og fleira.

14. apr. 2005 : Rokktónlist notuð til að hefta útbreiðslu alnæmis í Ekvador

Hugo Ferro, söngvari hljómsveitarinnar Cacería de lagartos hittir aðdáendur sína þegar geisladiskur sveitarinnar kom formlega út.
„Þú heldur kannski að það komi ekki fyrir þig
að það komi aðeins fyrir þá sem eru ekki hreinir.
Finnst þér þú vera öruggur? Hver getur fullvissað þig um það?
Það deyr alltaf einhver í rússneskri rúllettu.
Og ef prófið reynist jákvætt? Hvað um það?
Hvað muntu þá gera við líf þitt?”

Svona dægurlagatextar eru sláandi. Þeir segja ungu fólki að það getur orðið fyrir beinum áhrifum af þessu vandamáli. Þetta er kannski fjarlægt, en á hverjum degi verður ný fjölskylda fyrir þessu.

Rauði krossinn í Ekvador notar tónlist í forvarnir fyrir ungt fólk, og textunum er ætlað að svara tveimur spurningum sem brennur á öllum unglingum; hvaða upplýsingar hefurðu og hvernig get ég nálgast þær? „Það er erfitt að ræða þessi mál en við verðum að vera með áróður sem höfðar til ungs fólks, en sá hópur er í mestri hættu á að smitast af alnæmi. Ungu fólki finnst ekkert illt geta hent sig og að framtíðin sé björt,” segir Guillermo Yánes, svæðisstjóri hjá ungliðahreyfingu Rauða krossins í Ekvador.

29. mar. 2005 : Árshátíð Urkí-R var mjög vel heppnuð

Árshátíð URKÍ-R var haldin miðvikudaginn 23. mars síðastliðinn á Póstbarnum. Gleðin byrjaði klukkan 19:00 og matur borin fram klukkan átta.

Við fengum alveg rosa góðan mat, sjávarréttarsúpu í forrétt, lambakjöt í aðalrétt og súkkulaðiköku í forrétt. Þema árshátíðarinnar var Mulin Ruge, og voru sumir greinilega búnir að stúdera myndina betur en aðrir. Nonni var Cristian sem er aðal karlpersónan í myndinni og hún Unnur var Satine sem er aðal kvenpersónan. Þau voru rosa flott. Eins var Inga Birna í rosa búning og sló öllum við. 

Á meðan við vorum að borða var Mulin Ruge myndinni varpað á vegg og var það mjög flott og tónlistin úr myndinni spiluð. Salurinn var magnaður, rauðleitur og djarfur eins og myndin er.

23. feb. 2005 : Á flótta

Ljósmynd: Birgir Freyr

Skrifstofuatriðið - flóttamenn þurfa oft að hafa mikið fyrir því að nálgast ýmis eyðublöð og fá þau útfyllt.

Hlutverkaleikurinn Á flótta var leikinn um síðustu helgi. Þetta er leikur sem haldinn er um helgar og tekur um sólarhring að spila.

Leikurinn er einkum ætlaður unglingum á aldrinum 13-16 ára og þurfa þátttakendur að ganga í gegnum ýmsar dæmigerðar eldraunir sem flóttamenn mega þola. Leiðbeinendur í leiknum eru sjálfboðaliðar í Ungmennahreyfingu Rauða krossins.

Með því að upplifa þessar aðstæður  á eigin skinni eykst umburðarlyndi þátttakenda og skilningur á aðstæðum flóttamanna.

Eftir leikinn var svo haldið námskeið fyrir nýja leiðbeinendur. Kennari var Mikael Schollert einn af forsprökkum leiksins í Danmörku sem hingað var kominn til að kenna námskeiðið.

Átján nýjir leiðbeinendur voru á námskeiðinu og komu  margir þeirra  utan af landi fyrir milligöngu landsfélags Rauða krossins.

15. feb. 2005 : Sumarbúðir í Þýskalandi

Tveimur Ungmennum (16 til 27 ára) gefst kostur á að fá 25 þúsund króna styrk til að fara á eftirfarandi Rauða kross sumarbúðir í Munchen í Þýskalandi, dagana 21. til 29. maí 2005. Þema búðanna er "media og communication: qualify yourself". Gæti hentað þeim sem hafa áhuga á að vinna meira í heimasíðu URKÍ.

Áhugasamir hafi samband við Sólveigu (5704035), í síðasta lagi föstudaginn 25. febrúar.

17. jan. 2005 : Kveðja frá formanninum

Komið þið sæl og gleðilegt nýtt ár, ég vil þakka ykkur fyrir árið sem er liðið, og þá sérstaklega sumarbúðirnar sem voru í september.

Þær tókust afskaplega vel, þáttakendur voru ánægðir og ég tel að takmarkinu hafi verið náð. Vekja athygli á börnum í stríði. Hér er hægt að sjá myndasýningu á vefnum.

En nú eru ný verkefni framundan, á árinu er Ungmennahreyfingin 20 ára, já við erum komin upp úr gelgjunni.

Í tilefni af afmælinu okkar ætlum við að stofna afmælisnefnd, sem mun sjá um afmælið og nú hvet ég alla sem hafa áhuga á því að starfa í þessari nefnd til þess að hafa samband við mig með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected]

Eins ef þið hafið einhverjar hugmyndir fyrir hópinn.

Kveðja
Þóra Kristín formaður Ungmennahreyfingarinnar


 

13. jan. 2005 : Stórskemmtileg söfnun í MR

Fannar Freyr Ívarsson og Steindór Grétar Jónsson afhenda Þór Daníelssyni verkefnisstjóra Rauða krossins ágóðann af sfönuninni.
Nemendur Menntaskólans í Reykjavík héldu skemmtilega söfnun á dögunum þar sem ágóðanum var varið til að styrkja fórnarlömb hamfaranna í Asíu. Alls söfnuðust 344.000 krónur.

„Söfnunin gekk framar björtustu vonum. Nemendur sýndu ekki einungis samhug heldur einni frumleika og áhuga á verkefninu,” segir Steindór. Hann lýsir yfir ánægju með það hvernig söfnunin gekk fyrir sig og hvetur aðra skóla til að gera eitthvað svipað.

Fyrirkomulag söfnunarinnar var stórskemmtilegt en hún fór þannig fram að nemendur söfnuðu áheitum frá samnemendum fyrir að gera eitthvað skemmtilegt í skólanum. Svo dæmi séu tekin þá fór einn á vettvang og fékk nokkra ráðherra til að faðma sig, einn nemandi var  límdur við ræðupúlt í 70 mínútur, danska fánanum var flaggað, einn bekkur tróð sér inn í fólksbíl og tveir strákar dvöldu í þrjár klukkustundir og 20 mínútur í kolakjallaranum í skólanum.