17. jan. 2005 : Kveðja frá formanninum

Komið þið sæl og gleðilegt nýtt ár, ég vil þakka ykkur fyrir árið sem er liðið, og þá sérstaklega sumarbúðirnar sem voru í september.

Þær tókust afskaplega vel, þáttakendur voru ánægðir og ég tel að takmarkinu hafi verið náð. Vekja athygli á börnum í stríði. Hér er hægt að sjá myndasýningu á vefnum.

En nú eru ný verkefni framundan, á árinu er Ungmennahreyfingin 20 ára, já við erum komin upp úr gelgjunni.

Í tilefni af afmælinu okkar ætlum við að stofna afmælisnefnd, sem mun sjá um afmælið og nú hvet ég alla sem hafa áhuga á því að starfa í þessari nefnd til þess að hafa samband við mig með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected]

Eins ef þið hafið einhverjar hugmyndir fyrir hópinn.

Kveðja
Þóra Kristín formaður Ungmennahreyfingarinnar


 

13. jan. 2005 : Stórskemmtileg söfnun í MR

Fannar Freyr Ívarsson og Steindór Grétar Jónsson afhenda Þór Daníelssyni verkefnisstjóra Rauða krossins ágóðann af sfönuninni.
Nemendur Menntaskólans í Reykjavík héldu skemmtilega söfnun á dögunum þar sem ágóðanum var varið til að styrkja fórnarlömb hamfaranna í Asíu. Alls söfnuðust 344.000 krónur.

„Söfnunin gekk framar björtustu vonum. Nemendur sýndu ekki einungis samhug heldur einni frumleika og áhuga á verkefninu,” segir Steindór. Hann lýsir yfir ánægju með það hvernig söfnunin gekk fyrir sig og hvetur aðra skóla til að gera eitthvað svipað.

Fyrirkomulag söfnunarinnar var stórskemmtilegt en hún fór þannig fram að nemendur söfnuðu áheitum frá samnemendum fyrir að gera eitthvað skemmtilegt í skólanum. Svo dæmi séu tekin þá fór einn á vettvang og fékk nokkra ráðherra til að faðma sig, einn nemandi var  límdur við ræðupúlt í 70 mínútur, danska fánanum var flaggað, einn bekkur tróð sér inn í fólksbíl og tveir strákar dvöldu í þrjár klukkustundir og 20 mínútur í kolakjallaranum í skólanum.