27. apr. 2005 : Upplýsingar um evrópusamstarf komið á vefinn


Í maí nk. verður haldinn samstarfsfundur meðal ungmennahreyfinga Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Evrópu, European Cooperation Meeting, ECM. Þessi fundur hefur verið haldin frá 1992 og höfum við tekið þátt nánast frá upphafi.

Fundurinn er til þess að kynnast því hvað er að gerast hjá öðrum og eins að kynna sitt starf. Einnig eru pólitísk mál innan hreyfingarinnar rædd, staða ungmennahreyfingarinnar innan alþjóðasamfélaginu, staða ungmennahreyfingarinnar innan landsfélaga og eins staða ungmennadeildanna innan deilda.

Ýmis mál eru tekin fyrir, á síðasta fundi var rætt um stefnuyfirlýsingu Alþjóðasambandsins 2010, sem er hægt að nálgast á Landsskrifstofu og stefnuna um ungmennamál sem var samþykkt 1999 sem hægt er að nálgast hér.

Hópavinna er algeng á svona fundum, en henni hefur verið skipt upp á tvo vegu, annarsvegar er verið að ræða verkefni, hinsvegar önnur mál eins og samstarf, hlutverk, aukin samskipti á milli ungmennahreyfinga og fleira.

14. apr. 2005 : Rokktónlist notuð til að hefta útbreiðslu alnæmis í Ekvador

Hugo Ferro, söngvari hljómsveitarinnar Cacería de lagartos hittir aðdáendur sína þegar geisladiskur sveitarinnar kom formlega út.
„Þú heldur kannski að það komi ekki fyrir þig
að það komi aðeins fyrir þá sem eru ekki hreinir.
Finnst þér þú vera öruggur? Hver getur fullvissað þig um það?
Það deyr alltaf einhver í rússneskri rúllettu.
Og ef prófið reynist jákvætt? Hvað um það?
Hvað muntu þá gera við líf þitt?”

Svona dægurlagatextar eru sláandi. Þeir segja ungu fólki að það getur orðið fyrir beinum áhrifum af þessu vandamáli. Þetta er kannski fjarlægt, en á hverjum degi verður ný fjölskylda fyrir þessu.

Rauði krossinn í Ekvador notar tónlist í forvarnir fyrir ungt fólk, og textunum er ætlað að svara tveimur spurningum sem brennur á öllum unglingum; hvaða upplýsingar hefurðu og hvernig get ég nálgast þær? „Það er erfitt að ræða þessi mál en við verðum að vera með áróður sem höfðar til ungs fólks, en sá hópur er í mestri hættu á að smitast af alnæmi. Ungu fólki finnst ekkert illt geta hent sig og að framtíðin sé björt,” segir Guillermo Yánes, svæðisstjóri hjá ungliðahreyfingu Rauða krossins í Ekvador.