24. feb. 2006 : Fjör í útgáfu vegabréfa URKÍ-H

Þau Anna María og Bjarni skemmtu sér vel í myndatöku fyrir vegabréf URKÍ-H
Í gærkvöldi var mikið fjör í Sjálfboðamiðstöðinni á Strandgötu er félagar í URKÍ-H undirbjuggu vegabréfaverkefni sem verður á dagskrá á næstunni. Allir sem mættir voru bjuggu sér til vegabréf með myndum og tilheyrandi. Vegabréfin á svo að nota þegar haldin verða sérstök þemakvöld tileinkuð ákveðnu landi.

Á þemakvöldi munu góðir gestir líta við og kynna krökkunum menningu og lífi í ákveðnu landi auk þess sem starf Rauða krossins og Rauða hálfmánans í hverju landi verður kynnt. Á hverju þemakvöldi eða vegabréfafundi fá viðstaddir fána landsins sem kynnt er í vegabréfið sitt.

22. feb. 2006 : Heimsókn í Rauða krossinn

Þrjár fréttasyrpur eftir nemendur skólans um heimsókn í Fataflokkunarstöð Rauða krossins. Tekið af heimasíðu skólans og birt með góðfúslegu leyfi.

Þriðjudaginn 14. febrúar s.l. fór H-14 í heimsókn í fataflokkunarstöð Rauða krossins. Svona vettvangsferðir eru lærdómsríkar.

Fáir geta ímyndað sér hvernig starfssemi Rauða krossins er fyrr en maður er kominn þangað og sér þetta með eigin augum. Hérna koma þrjár fréttir sem nemendur skrifuðu um heimsóknina þangað. 

16. feb. 2006 : Ungir innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur

Sjálfboðaliðarnir Helena og Freyja með Antoni og Irfan í ráðhúsinu.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands fóru á dögunum með unga innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur. Krakkarnir þurftu að finna Austurvöll, Arnarhól, útitaflið, Bæjarins bestu og svara spurningum á hverjum stað.

Á Austurvelli fannst 10 ára dömu ekki nóg að svara því hvaða dag Jón Sigurðsson ætti afmæli heldur bætti því við að hann væri fæddur 1811. Endastöðin hjá öllum var við stóra kortið af Íslandi í ráðhúsinu.

15. feb. 2006 : Opið hús í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð á 112 daginn

Margir litu við hjá Rauða krossinum og fræddust um starf félagsins innan almannavarnakerfisins.
Þann 11. febrúar síðastliðinn fylktu allir helstu viðbragðsaðilar á höfuðborgarsvæðinu liði í sameiginlegri kynningu á því umfangsmikla björgunar- og neyðarkerfi sem fer í gang þegar fólk í nauðum hringir í Neyðarlínuna 112.

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu voru með tvo kynningarbása á sýningunni. Í öðrum þeirra gafst almenningi kostur á að kynnast nýjum staðli í endurlífgun ásamt því að prófa sjálfvirk hjartastuðtæki. Fjölmargir gestir notuðu tækifærið og reyndu kunnáttu sína í skyndihjálp á kennslubrúðum

7. feb. 2006 : Fræðslufundir „Náum áttum"

Rauði kross Íslands er einn af aðilum Náum áttum sem er samstarfshópur um fræðslu- og fíkniefnamál. Haldnir eru morgunverðarfundir einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og hafa þeir verið vel sóttir.

Á síðasta fundi var fjallað um áhrif tölvunotkunar á líf ungs fólks og mættu um 100 manns. Þar fjallaði Jóna Möller aðstoðarskólastjóri Kópavogsskóla um upplifun skólakerfisins af tölvufíkn ungs fólks, Elín Thorarensen framkvæmdastjóri Heimilis og skóla fjallaði um svefnþarfir ungs fólks og Björn Harðarson sálfræðingur hélt erindi um tölvufíkn.

2. feb. 2006 : Ungmennastarf hafið að nýju

Hér má sjá hluta þeirra sem mættu á fyrsta fundinn hjá URKÍ-H.
Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands í Hafnarfirði, eða URKÍ-H, tók til starfa að nýju í gærkvöldi eftir nokkura ára hlé. Það voru um 15 manns sem mættu á fyrsta fundinn og kynntu sér það starf sem boðið verður uppá fram á sumarið.

Krakkarnir horfðu á stutt kynningarmyndband um Rauða krossinn, kynntu sig fyrir þeim sem mættir voru og skoðuðu aðstöuna hjá Hafnarfjarðardeildinni. Því næst var sest niður í hugmyndavinnu en flest höfðu þau fullt af góðum hugmyndum um hvernig þau sjálf vilja móta starfið. Að lokum var rykið dustað af gömlum spilastokkum og slegið á létta strengi.