28. mar. 2006 : Unglingar berjast gegn fodómum og mismunun

Félagar í URKÍ-H máluðu myndir undir yfirskriftinni ,,Byggjum betra samfélag".
Síðastliðinn fimmtudag tóku félagar í ungmennahreyfingu Rauða krossins í Hafnarfirði (URKÍ-H) sig til og hófu formlega þátttöku í átakinu ,,Byggjum betra samfélag". Krakkarnir skoðuðu hvað það er sem leiðir til fordóma og mismununar í íslensku samfélagi og hvað ungt fólk getur gert til að stuðla að betra samfélagi.

Krakkarnir túlkuðu viðfangsefnið á blaði og voru búnar til margar fallegar og áhugaverðar myndir. Allir þátttakendur voru sammála um að vinátta og skilningur milli ólíkra þjóðfélagshópa væri vænlegastur til að móta jákvætt samfélag. Þema myndanna fjallaði í flestum tilvikum um vináttu fólks af ólíku þjóðerni. Í apríl munu krakkarnir bjóða foreldrum sínum á litla sýningu á myndunum.

21. mar. 2006 : Skemmtileg heimsókn úr Grafarvogi

Hér má sjá hluta nemenda Foldaskóla sem heimsóttu Hafnarfjörðinn.
Um 80 hressir krakkar úr Foldaskóla í Grafarvogi heimsóttu Rauða krossinn í Hafnarfirði í síðustu viku. Voru þar á ferðinni 8. bekkingar sem voru að kynna sér starf Rauða krossins. Ferðin var liður í þemadögum sem nú standa yfir í skólanum.

Hver bekkur fékk þrjár kynningar um starfsemi Rauða krossins. Í Fataflokkunarstöðinni tók Örn Ragnarsson verkefnisstjóri á móti krökkunum og kynnti þeim það starf sem þar fer fram s.s. fataflokkun, fatasendingar til útlanda og fataúthlutun.

17. mar. 2006 : Styttist í næsta grunnnámskeið

Næsta grunnnámskeið verður haldið á landsskrifstofu Rauða kross Íslands, Efstaleiti 9, 14. febrúar og 22. mars kl. 18–21.
Námskeiðið er ætlað nýjum sjálfboðaliðum eða fólki sem hefur hug á að kynna sér hjálpar- og félagsstarf Rauða krossins.
Farið er í upphaf og sögu hreyfingarinnar, grundvallarmarkmið, alþjóðleg mannúðarlög, stefnu Rauða kross Íslands og helstu áherslur í starfi félagsins innanlands og utan.

 

Grunnnámskeið Rauða krossins er 3 klst og er ókeypisSkráning og nánari upplýsingar: Svæðisskrifstofa Rauða kross Íslands á höfuðborgarsvæðinu
í síma 565 2425 eða með tölvupósti á [email protected].

17. mar. 2006 : Hagkaup gefur föt

Gunnar Ingi Sigurðsson framkvæmdastjóri Hagkaupa og Örn Ragnarsson starfsmaður Fataflokkunarstöðvar Rauða krossins.

Hagkaup færði Rauða krossi Íslands 10 bretti af ónotuðum fatnaði að gjöf nýverið. Um er að ræða fatnað og skó, bæði á börn og fullorðna. Fatnaðurinn verður sendur til Malaví og Gambíu á næstu dögum.

„Gjöfin kemur í mjög góðar þarfir enda er fátækt mikil á þeim svæðum sem fötin eru send til. Margir eiga um sárt að binda vegna alnæmis og þurfa á aðstoð að halda. Svo er svalt haustið framundan í Malaví,” segir Örn Ragnarsson, verkefnisstjóri fataflokkunar, sem tók við gjöfinni fyrir hönd Rauða kross Íslands.

16. mar. 2006 : Fjölsmiðjan heldur upp á fimm ára afmæli

Kristján Guðmundsson stjórnarformaður Fjölsmiðjunnar.

Fjölsmiðjan, vinnusetur fyrir ungt fólk, fagnaði því í gær að fimm ár eru liðin síðan starfsemin hófst. Fjölsmiðjan er ætluð 16-24 ára ungmennum sem af einhverjum ástæðum hafa ekki náð að fóta sig á vinnumarkaði eða í skólakerfinu. Ætlunin er að þau fái þjálfun á þeim sviðum er hæfileikar og áhugi þeirra liggja.

Frá því starfsemin hófst hefur hún stækkað og þróast. Nú eru um 50 krakkar í þjálfun í einu í sjö deildum sem eru trésmíðadeild, bíladeild, hússtjórnardeild, pökkun, skrifstofu- og tölvudeild, rafmagnsdeild auk kennslu. Framundan er að stofna sjávarútvegsdeild þar sem stefnt er að því að gera út 150 tonna bát.

15. mar. 2006 : Fjöldahjálparstöð á Breiðdalsvík

Deild Rauða krossins á Breiðdalsvík brást við þegar kviknaði í frystihúsinu á staðnum í gærkvöldi. Rýmd voru fjórtán hús þar sem búa alls 23 einstaklingar. Fjöldahjálparstöð var opnuð í grunnskólanum og mættu þangað þeir aðilar sem ekki fóru til vina og ættingja.

Sex sjálfboðaliðar Rauða krossins tóku þátt í aðgerðinni sem gekk vel því fólk var rólegt. Fólk mátti ekki fara heim fyrr en í dag og útvegaðir Rauða kross deildin þeim íbúum sem á þurftu að halda gistingu.

Rauði krossinn fékk hótelið að láni til að veita slökkviliðinu og öðru björgunarfólki veitingar.

14. mar. 2006 : Kynhegðun ungs fólks og kynlífsfræðsla

Rauði kross Íslands er einn af aðilum Náum áttum sem er samstarfshópur um fræðslu- og fíkniefnamál. Haldnir eru morgunverðarfundir einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Á fundi þann 15. febrúar var fjallað um kynhegðun ungs fólks og kynlífsfræðslu.

Á dagskrá voru fjölbreyttir fyrirlestrar:
• Unglingamóttakan - Hildur Kristjánsdótatir, verkefnastjóri unglingamóttöku
• Neyðarmóttakan - Eyrún Jónsdóttir, deildarstjóri Neyðarmóttöku vegna nauðgunar
• Ástráður - Félag læknanema – Ómar Sigurvin og Lilja Rut.
• Tölum saman – samskipti foreldra og unglinga um kynlíf - Guðbjörg Edda Hermannsdóttir / Dagbjörg Ásbjarnardóttir / Sigurlaug Hauksdóttir

14. mar. 2006 : Kynhegðun ungs fólks og kynlífsfræðsla

Náum áttum, samstarfshópur um fræðslu- og fíkniefnamál, stóð fyrir fundi um kynhegðun ungs fólks og kynlífsfræðslu. Helga Margrét tók saman niðurstöður fundarins.

9. mar. 2006 : Er lífið erfitt?

Átaksvika Hjálparsíma 1717 er að þessu sinni helguð málefnum barna og unglinga.
Tilgangur átaksvikunnar er m.a. að minna börn og unglinga á að 1717 er einnig ætlaður þeim, en Hjálparsíminn 1717 er nú ætlaður öllum aldurshópum. Einnig er ætlunin að vekja athygli á vandamálum sem börn og unglingar geta haft, benda á leiðir/úrræði og hvetja til umræðu.

8. mar. 2006 : Rauði krossinn vinnur að velferð kvenna víða um heim

Alþjóðlegur dagur kvenna 8. mars

Í fjölmörgum löndum heims búa konur við hvað kröppustu kjörin í þjóðfélaginu. Stríðsátök, sjúkdómar, hamfarir, fátækt og ofbeldi koma oft hvað harðast niður á þeim sem ekkert eiga undir í samfélaginu. Alþjóða Rauði krossinn hefur það að markmiði að aðstoða þá sem minnst mega sín og gerir því ýmislegt til að meta og mæta þörfum kvenna sem eiga undir högg að sækja.

Í Kongó aðstoðar Alþjóða Rauði krossinn fórnarlömb kynferðisofbeldis, í Pakistan er boðið upp á sérstaka umönnun fyrir mæður og börn á skjálftasvæðunum og í Yemen eru haldin námskeið fyrir kvenfanga til að auðvelda þeim að fóta sig í lífinu eftir að konurnar losna úr fangelsi.

7. mar. 2006 : Er lífið erfitt?

Átaksvika Hjálparsíma 1717 er að þessu sinni helguð málefnum barna og unglinga.

2. mar. 2006 : URKÍ-H félagar kynna sér fataflokkun

URKÍ-H félagar saman inní gámi.
Nú í kvöld skruppu félagar í ungmennahreyfingu Rauða krossins í Hafnarfirði í heimsókn í fataflokkunarstöð Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæðinu. Þar tók Örn Ragnarsson verkefnisstjóri fataflokkunar vel á móti þeim og kynnti starfsemina.

Í fataflokkunarstöðinni er tekið á móti öllum þeim fatnaði sem til fellur á höfuðborgarsvæðinu og á síðasta ári barst stöðinni yfir 1.000 tonn af notuðum fatnaði. Fötin eru notuð í hjálparstarf innanlands, seld í Rauðakrossbúðunum, send til annara landsfélaga Rauða krossins og seld óflokkuð til flokkunarfyrirtækja í Evrópu. Allur ágóði verkefnisins rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins.