17. des. 2007 : Nýr kafli í fræðsluefninu Ef bara ég hefði vitað

Rauði krossinn hefur bætt nýjum kafla við vef-fræðsluefnið „Ef bara ég hefði vitað”. Kaflinn heitir Ungar mæður og tekur á ýmsum málum sem varða kynlíf unglinga.

Á unglingsárunum verða margar líkamlegar, félagslegar og andlegar breytingar. Unglingurinn byrjar til dæmis að þroskast sem kynvera og kynferðislegar langanir vakna. Margir unglingar eru óöruggir þegar kemur að kynlífi, t.d. hvernig þeir eiga að fara að því að koma í veg fyrir þungun og smit af völdum kynsjúkdóma. Oft er það svo að unglingum finnst að ekkert geti komið fyrir þá.

„Ef bara ég hefði vitað” er fræðsluefni sem fjallar um hvernig maður getur hjálpað sjálfum sér, og öðrum, þegar maður upplifir alvarlega atburði. Með alvarlegum atburðum er átt við t.d. skilnað, dauðsfall, umferðarslys, alvarlega ólæknandi sjúkdóma, þunglyndi, ástarsorg og einelti.

3. des. 2007 : Frí faðmlög í boði Ungmennahreyfingarinnar

Á Alþjóðlega alnæmisdeginum 1. desember var Ungmennahreyfing Rauða krossins stödd í Smáralindinni til að vekja athygli á málefninu. Boðið var upp á frí faðmlög til þess að sýna fram á að alnæmi berst ekki með snertingu auk þess sem að krakkarnir bjuggu til alnæmismerkið á gólfi Smáralindar.

Krakkarnir seldu rauðar alnæmisnælur sem búnar voru til af fólki sem tekur þátt í sjálfshjálparhópi smitaðra á vegum Rauða krossins í Malaví og rennur allur ágóði af sölunni til hópsins. Á tveimur tímum náðist að safna um 27.000 krónum og á sá peningur eftir að koma að góðum notum.

Fyrr í vetur kom fulltrúi frá alþjóðasviði Rauða krossins og fræddi krakkana í Ungmennahreyfingunni um alnæmisvandann í sunnanverðri Afríku og starf Rauða krossins á þeim slóðum. Einnig komu læknanemar í heimsókn og voru með fræðslu um kynsjúkdóma og þar á meðal alnæmi.