23. des. 2008 : Tælensk börn taka þátt í barnastarfi á Ísafirði

Ísafjarðardeild Rauða krossins hefur haldið uppi barnastarfi í vetur. Börnin sem sækja barnastarfið eru öll frá Tælandi og hittast á þriðjudögum milli klukkan 16 og 19.

23. des. 2008 : Árangursrík jafningjafræðsla ungmennahreyfingar afganska Rauða hálfmánans

Rauði hálfmáni Afgansistans hefur náð til tæplega 80 þúsund ungmenna með átaki í vitundarvakningu um alnæmi í framhaldsskólum í Kabul, Herat og Mazar-e-Sharif.

1. des. 2008 : Ókeypis faðmlag í Smáralind

Vegfarendur virtust í fyrstu feimnir, hissa eða kímnir þegar sjálfboðaliðar Ungmennahreyfingar Rauða krossins buðu frítt faðmalag í Smáralindinni í gær í tilefni alþjóðlega alnæmisdagsins.

29. nóv. 2008 : Ókeypis faðmlög og lifandi alnæmisslaufa í Smáralind

Ungmennahreyfing Rauða krossins stendur fyrir uppákomum í Smáralind sunnudaginn 30. nóvember til að vekja athygli á alþjóða alnæmisdeginum frá kl. 13:00-15:00. Ungmennin munu með reglulegu millibili mynda stóra alnæmisslaufu fyrir framan verslunina Debenhams, bjóða upp á ókeypis faðmlög, dreifa bæklingum  og selja alnæmismerki sem alnæmissmitaðir skjólstæðingar Rauða krossins í Malaví hafa búið til.

Allur ágóði af sölu merkjanna rennur til alnæmisverkefna Rauða krossins í sunnanverðri Afríku. Rauði kross Íslands hefur um árabil unnið að alnæmisverkefnum í samvinnu við Rauða krossinn í Malaví, Mósambík og Suður-Afríku.
 

28. nóv. 2008 : Unglingastarf URKÍ-R gefur gjafir

Unglingastarf Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands fékk gefins á dögunum lager af gömlum tímaritum.

24. nóv. 2008 : Nemendur í Hjallaskóla fá fræðslu um starf Kópavogsdeildar

Um fimmtíu nemendur unglingadeildar Hjallaskóla komu í sjálfboðamiðstöðina fyrir helgi og fengu fræðslu um starf deildarinnar. Fræðslan var hluti af þemadögum í skólanum sem stóð yfir í síðustu viku og var þemað mannúð.

Í sjálfboðamiðstöðinni fengu nemendurnir fræðslu um heimsóknaþjónustuna, fataverkefnið, verkefni tengd innflytjendum, vinadeildasamstarfið og að sjálfsögðu Eldhugana en það er starf sem þessum nemendum stendur einmitt til boða að taka þátt í. Þeir sáu myndband úr starfinu frá því í fyrra og myndir úr starfi síðustu mánaða. Eldhugarnir hittast á fimmtudögum kl. hálfsex og er opið fyrir alla 13-16 ára Kópavogsbúa.

20. nóv. 2008 : Skyndihjálparhópur ungmenna á Austurlandi

Skyndihjálparhópur ungmenna á Austurlandi stendur fyrir vinnuhelgi um næstu helgi.

Staður: Einarsstaður í sumarbústað og hefst klukkan 20 á föstudeginum.

Nánari upplýsingar hjá Margréti Ingu Guðmundsdóttur, [email protected]

3. nóv. 2008 : Vilja gefa til baka!

Ungmennahreyfing Rauða krossins hefur um árabil boðið uppá starf unglingastarf fyrri 13 ára og eldri. Margir ungir og öflugir sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í starfinu og nú þegar þau eldast sjálf vilja þau víkka út starfið og bjóða því uppá barnastarf fyrir 10 til 12 ára börn alla miðvikudaga frá 16:30-18:00 í Rauðakrosshúsinu Strandgötu 24. Einn af þessum ungu sjálfboðaliðum er Arna Bergrún Garðardsóttir en hún hefur starfað sem sjálfboðaliði í tæp þrjú ár. Fjarðarpósturinn tók Örnu tali og spurði hana útí barnastarfið.

Vildum gefa til baka
„Við erum nokkrir ungir sjálfboðaliðar sem höfum verið í leiðtogaþjálfun hjá Rauða krossinum og okkur fannst kominn tími á að víkka út ungmennastarfið okkar. Við höfum lengi verið með starf fyrir þá sem eru í unglingadeildum og framhaldsskólaaldurinn en það vantaði eitthvað fyrir aðeins yngri krakka. Litlu systkyni okkar höfðu líka suðað í okkur um að fá að vera í Rauða krossinum eins og við svo við tókum bara áskoruninni.“

Áhersla á leiki, glens og gaman
„Við ætlum að hafa starfið á léttu nótunum. Leikir og slíkt í bland við fræðslu um Rauða krossinn. Það hefur líka alltaf verið lögð áhersla á það í ungmennastarfi Rauða krossins að þeir sem taka þátt fá að hafa eitthvað að segja um verkefnin. Krakkarnir fá því líka að móta sitt starf alveg eins og við höfum fengið að gera í okkar starfi.“
 

3. nóv. 2008 : Vinnuhelgi um ungmennamál

Sameiginleg vinnuhelgi Ungmennahreyfingar Rauða krossins var haldin 17.-19. október í Munaðarnesi í Borgarfirði. Þar komu saman stjórnarmeðlimir ásamt stjórn Ungmennahreyfingar Reykjavíkurdeildar ásamt nefndarmönnum í alþjóða-, rit-, og verkefnanefnd URKÍ.

Helgin var nýtt í að skipuleggja þau verkefni sem stjórnirnar og nefndir URKÍ ætla að vinna að á komandi mánuðum og má segja að ýmislegt sé í deiglunni.

Að sjálfsögðu var haustveðrið nýtt, grillað var ofan í liðið og haldin frábær kvöldvaka. Vinnan gekk einstaklega vel og voru allir ánægðir með árangur helgarinnar.

13. okt. 2008 : Hlutverkaleikurinn Á flótta er 10 ára

Hlutverkaleikurinn Á flótta varð 10 ára á haustdögum, sjálfboðaliðar sem komið hafa að verkefninu síðastliðin ár komu saman í gær og héldu upp á afmælið.

Sjálfboðaliðar Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sem hafa unnið að hlutverkaleiknum Á flótta gerðu sér glaðan dag og héldu upp á afmæli verkefnisins með pomp og prakt. Veislugestir klæddu sig upp í þau fjölmörg hlutverk sem koma fyrir í leiknum og rifjuðu upp góðar stundir saman.

10. okt. 2008 : Hjálparsími Rauða krossins 1717 er alltaf opinn!

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem finnst þeir vera komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu.

Síðustu daga hefur fjöldi manns hringt í 1717 í tengslum við fjárhagsáhyggjur og vanlíðan vegna þeirra umbrota sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Starfsmenn og sjálfboðaliðar 1717 veita upplýsingar um hvar leita megi frekari úrræða ásamt því að veita sálrænan stuðning á erfiðum tímum.

1. sep. 2008 : Sjálfboðaliðar tóku virkan þátt í Menningarnótt

Sjálfboðaliðar Ungmennahreyfingar Rauða krossins, URKÍ-R tóku virkan þátt í Menningarnótt. Sjálfboðaliðarnir sáu ýmist um að hjálpa gestum og gangandi við að losa sig við fordómana sína með því að skrifa þá á blað og henda þeim í ruslið og einnig voru þrír gönguhópar Skyndihjálparhóps á rölti um miðbæinn og veitu þeim sem þurftu fyrstu hjálp.

Skyndihjálparhópurinn gegndi sem áður mikilvægu hlutverki í öryggisgæslu borgarinnar þar sem hópurinn starfaði við hlið lögreglunnar og björgunarsveita við fyrstu hjálp og aðstoð. Hópurinn skipti sér upp í þrjá gönguhópa sem vöktu hver og einn sinn bæjarhlutann. Mikil reynsla er í hópnum og þátttaka í hátíðarhöldum sem þessum er ekki ný af nálinni, en þetta var fjórða árið sem Skyndihjálparhópur URKÍ-R tekur þátt í Menningarnótt með þessum hætti.

25. ágú. 2008 : Æskulýðsgáttin ný vefsíða Landsambands æskulýðsfélaga

Ný vefsíða Landssambands æskulýðsfélaga, Æskulýðsgáttin, var formlega vígð þann 12. ágúst sl. á alþjóðadegi unga fólksins í höfuðstöðvum Rauða krossins við Efstaleiti.

21. ágú. 2008 : Alþjóðlegar sumarbúðir í Austurríki

Katla Björg Kristjánsdóttir sjálfboðaliði Ungmennahreyfingar Reykjavíkurdeildar, URKÍ-R, sótti Alþjóðlegar sumarbúðir í Langenlois  í Austurríki í sumar. Þátttakendur sumarbúðanna komu víða að en markmið búðanna var meðal annars að kynnast starfi Rauða krossins betur, menningu þátttakenda og að hafa gaman saman.

Katla sótti fjölmarga fyrirlestra sem í boði voru. Meðal fyrirlesara var Marco Feingold 97 ára fyrrum fangi í fangabúðum nasista. Marco sagði sögu sína og lýsti sex ára dvöl sinni í fangabúðunum og lífsreynslu sinni. Einnig voru fyrirlestrar um Mannúaðarlögin, Genfarsáttmálann og saga Rauða krossins var kynnt svo eitthvað sé nefnt.

19. ágú. 2008 : Mikið fjör á sumarmóti Ungmennahreyfingarinnar

Ungmennahreyfing Rauða krossins stóð fyrir bráðskemmtilegu sumarmóti fyrir unglinga dagana 13.-17. ágúst á Löngumýri í Skagafirði. Leiðbeinendur voru sjálfboðaliðar frá Ungmennahreyfingu Rauða krossins og systursamtökum á Norðurlöndum.

Dagskrá mótsins einkenndist bæði af gamni og alvöru. Unnið var með viðhorf þátttakenda til ýmissa hópa með námsefninu Viðhorf og virðing og var mikið lagt upp úr hvers kyns leikjum og útiveru. Á Löngumýri er prýðileg sundlaug og var hún óspart notuð til að fá útrás eftir annir dagsins. Hápunktarnir voru flúðasigling niður Vestari Jökulsá og klettasig á Hegranesi.

Síðasta kvöldið var svo haldin mikil kvöldvaka með varðeldi, gítarspili, söngvakeppni og öðru sem einkennir allar sumarbúðir.

 

14. ágú. 2008 : Rauða kross fræðsla í Vinnuskólum Reykjavíkur

Fræðsla um starf Rauða krossins fyrir nemendur Vinnuskólans í Reykjavík var haldin í sumar í samstarfi við Lýðheilsustöð líkt og síðastliðin sumur.

30. júl. 2008 : Allir taka þátt á sumarbúðum Rauða krossins

Sumarbúðum Rauða krossins á Löngumýri í Skagafirði fyrir fatlaða lauk um helgina en þær voru nú haldnar tíunda sumarið í röð. Einnig hafa verið reknar sumarbúðir í Stykkishólmi síðustu fjögur sumur.

 

25. júl. 2008 : Rauða kross kynning á skátamóti

Ungmennahreyfing Rauða krossins verður með kynningu á landsmóti skáta á morgun, laugardag, sem fram fer á tjaldstæðinu Hömrum á Akureyri.

22. júl. 2008 : Tombólur út um allar trissur

Á þessum árstíma má víða sjá ungt fólk sem leggur mikið á sig við hvers kyns safnanir til að leggja góðu málefni lið.

11. júl. 2008 : Sjálfboðaliðar URKÍ-R í Gambíu

Sjálfboðaliðarnir Sigurbjörg Birgisdóttir og Egill Þór Níelsson fóru í byrjun júlí sem fulltrúar Ungmennahreyfingar Reykjavíkurdeildar til Gambíu.

28. maí 2008 : Unglingastarfið í vorferð

Krakkarnir sem taka þátt í unglingarstarfi deilda á höfuðborgarsvæðinu héldu í sína árlegu vorferð á laugardaginn.

7. maí 2008 : Unglingastarf URKÍ-R í sælgætisgerð

Eitt af fjölmörgum skemmtilegum verkefnum unglingastarfs Reykjavíkurdeildar (URKÍ-R) er sælgætisgerð. Nú stendur yfir sala á afurðunum og verður ágóðinn notaður til að styrkja Rauða kross starfið í Gambíu.

Hugmyndin að sælgætisgerðinni vaknaði í kjölfar heimsóknar tveggja sjálfboðaliða frá vinadeildum Reykjavíkurdeildar, Banjul og KM í Gambíu. Þeir dvöldu á Íslandi í sex vikur í vetur.

Eftir mikið föndur og flókna vinnu við sælgætisgerðina er nú loks hægt að kaupa molana sykursætu hjá sjálfboðaliðum unglingastarfsins eða á skrifstofu deildarinnar að Laugavegi 120. Pokinn af þessum ljúfu molum kostar 300 krónur en valið stendur á milli brjóstsykurs með peru- jarðaberja- og/eða lakkrísbragði.

23. apr. 2008 : Sjálfboðaliðar URKí lögðu fram 930 vinnustundir á síðasta ári

Landsfundur Ungmennahreyfingar Rauða krossins var haldinn á landsskrifstofu um helgina að viðstöddum tveimur tugum sjálfboðaliða. Í máli Jóns Þorsteins Sigurðssonar formanns URKÍ hefur stjórn og nefndir URKÍ lagt fram um 930 vinnustundir eða tæplega 40 vinnudaga á árinu 2007. Helst ber þar að nefna störf verkefnanefndar sem skipulagði og hélt utan um landsmót URKÍ á Kjalarnesi. Þá hefur hin nýstofnaða alþjóðanefnd styrkt samstarf URKÍ við ungmennahreyfingar Rauða krossins í Evrópu svo sem með þátttöku í samstarfsvettvangi ungmennahreyfinga.

Á fundinum voru drög að markmiðum og stefnu URKÍ til 2010 kynnt og rædd í hópum.

7. apr. 2008 : Laus pláss á sumarmóti URKÍ

Um helgina var haldið undirbúningsnámskeið fyrir þá sjálfboðaliða sem hyggjast verða leiðbeinendur á sumarmóti URKÍ í ágúst á þessu ári.

 

4. apr. 2008 : Landsfundur Urkí

L a n d s f u n d u r Urkí verður haldinn laugardaginn 19. apríl 2008 frá kl. 13:00-15:00
í húsnæði Rauða kross Íslands, Efstaleiti 9, 103 Reykjavík

2. apr. 2008 : Söngstund hjá Enter-krökkunum í Kópavogi

Enter-krakkarnir komu í dag í Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og var söngur á dagskránni. Krakkarnir fengu sönghefti með gömlum og góðum íslenskum barnalögum og spreyttu sig á ýmsum lögum. Meðal annars tóku þau Sá ég spóa og Höfuð, herðar, hné og tær sem vakti mikla kátínu krakkanna. Síðan tók við dálítill dans og enduðu krakkarnir á því að fara í nokkra leiki. Tíkin Karó kom einnig í heimsókn og gerði hún hundakúnstir fyrir krakkana og gáfu þau henni nammi að launum.

19. mar. 2008 : Dæmir þú fólk eftir útlitinu?

Í tilefni af Evrópuviku gegn fordómum tók Rauði krossinn þátt í hátíðarhöldum í gær ásamt Mannréttindaskrifstofu, Alþjóðahúsi, Amnesty International, Þjóðkirkjunni, Íslandi Panorama og Soka Gakkai Íslandi.

18. mar. 2008 : Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands tekur ásamt sex öðrum félagasamtökum þátt í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti sem stendur 15.-21. mars.

7. mar. 2008 : Grunnskólar höfuðborgarsvæðis fá heimsókn frá Rauða krossinum

Deildir á höfuðborgarsvæðinu hafa í vetur eins og undanfarin ár heimsótt áttundu bekkinga grunnskólanna og kynnt starf félagsins innanlands og hvaða verkefni fyrir ungmenni deildir hafa upp á að bjóða. Krakkarnir geta til dæmis lagt sitt af mörkum við hjálparstarfið með því að gefa fötin sem þau eru hætt að nota til Fataflokkunarstöðvarinnar á höfuðborgarsvæðinu.

 

Svæðisfulltrúi heldur utan um kynningarnar og fer í skólana ásamt sjálfboðaliðum og starfsmönnum deilda. Um þessar mundir eru sjálfboðaliðar frá Gambíu í Vestur-Afríku í heimsókn hjá Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar og hafa þeir komið með í nokkrar kynningar og kynnt land og þjóð og starfsemi Rauða krossins þar. Heimsóttir hafa verið 20 skólar og nokkrar heimsóknir eru framundan.

Rauði krossinn hefur á boðstólnum fræðsluefni fyrir öll skólastig á skólvef, www.redcross.is/skoli. Kennsluleiðbeiningar fylgja.

21. feb. 2008 : Vel heppnuð æfingarferð skyndihjálparhópa

Það var oft handagangur í öskjunni hjá skyndihjálparhópum Reykjavíkurdeildar og ungmenna á Austurlandi í sameiginlegri æfingarferð þeirra um síðustu helgi í Alviðru í Ölfusi.

20. feb. 2008 : Spennandi sumarmót fyrir unga fólkið

Sumarmót Ungmennahreyfingar Rauða krossins, Viðhorf og virðing, verður haldið dagana 13.- 17. ágúst 2008 að Löngumýri í Skagafirði. Mótið er opið öllum unglingum á aldrinum 13-16 ára. Þátttökugjald er 20.000 krónur og innifalið í því er akstur til og frá Reykjavík, gisting, fullt fæði og þátttaka í öllum dagskrárliðum.

Í dagskrá mótsins er blandað saman bæði gamni og alvöru. Unnið verður með viðhorf þátttakenda til ýmissa hópa og fá þeir meðal annars tækifæri til að setja sig í spor þeirra í formi hlutverkaleikja. Einnig verður mikið lagt upp úr leikjum, ferðum, kvöldvökum og annarri skemmtun.

1. feb. 2008 : Siðferðisboðskapur óskast

Hver er ástæðan fyrir því að skyndilega virðast flestar flóðgáttir hafa brostið og fordómar ungs fólks í garð innflytjenda orðið svo áberandi?

24. jan. 2008 : VegaHÚSIÐ á Egilsstöðum komið í stærra húsnæði

VegaHÚSIÐ var enduropnað í Sláturhúsinu sem er menningarsetur Fljótsdalshéraðs 22. janúar og í tilefni þess var haldin hátíð þar sem bæjarbúar fjölmenntu.

21. jan. 2008 : Hjálpfús áfram í Stundinni okkar

Samstarf Rauða krossins og Ríkissjónvarpsins um sýningar á Hjálpfúsi í Stundinni okkar heldur áfram í vetur. Í síðustu viku voru teknir upp átta þættir sem sýndir verða á næstu mánuðum.

Handritshöfundarnir eru fjórir en auk þeirra Þorgeirs Tryggvasonar og Sveinbjörns Ragnarssonar sem unnu handritin að fyrri þáttum bættust við þeir Ármann Guðmundsson og Sævar Sigurgeirsson. Eins og áður eru systkinin Anna og Ragnar leikin af þeim Bjögvini Franz Gíslasyni og Arnbjörgu Valsdóttur og Helga Arnalds er í hlutverki brúðunnar Hjálpfúss.

Það var líf og fjör í stúdíóinu meðan verið var að taka upp nýja þætti með Hjálpfúsi. Anna og Ragnar hafa ekkert breyst frá því í fyrra, eru með alls konar uppátæki og rífast oft.  Þá kemur Hjálpfús til skjalanna með góðar ábendingar og leysir málin.

14. jan. 2008 : Sjálfboðaliðar óskast fyrir sumarmót Ungmennahreyfingarinnar

Sumarmót Ungmennahreyfingar Rauða krossins, Viðhorf og virðing, verður haldið dagana 13.- 17. ágúst 2008 að Löngumýri í Skagafirði. Mótið er fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára og miðast fjöldinn við 30 manns. Þátttökugjald og dagskrá verða birt á vefnum á næstunni og opnað verður fyrir skráningu 20. febrúar næstkomandi.

Dagskrá mótsins verður blanda af gamni og alvöru. Unnið verður með viðhorf þátttakenda til ýmissa hópa og fá þeir m.a. tækifæri til að setja sig í spor þeirra í formi hlutverkaleikja. Einnig verður mikið lagt upp úr leikjum, ferðum, kvöldvökum og annarri skemmtun.

Auglýst er eftir sjálfboðaliðum, 18 ára og eldri, til að starfa sem leiðbeinendur við mótið. Ekki er nauðsynlegt fyrir sjálfboðaliðana að vera allan tímann heldur gefst þeim kostur á að velja sér daga til að starfa við búðirnar. Þeir fá svo stundatöflu að loknu leiðbeinendanámskeiði sem haldið verður í apríl.

Áhugasamir geta haft samband við Jón Brynjar Birgisson, verkefnisstjóra URKÍ á landsskrifstofu Rauða kross Íslands í síma 570 4000 eða á netfangið [email protected]

10. jan. 2008 : Unglingar í Rauða krossinum eru í skemmtilegum verkefnum

Unglingastarf Reykjavíkurdeildar, URKÍ-R, er öflugt um þessar mundir. Tveir hópar hittast á hverjum fimmtudegi og funda. Annar hópurinn í Breiðholti, Álfabakka 14a, 3. hæð og hinn hópurinn í miðbænum á Laugavegi 120, 5. hæð.
 
Síðustu mánuði hafa verkefnin verið fjölbreytt. Meðal annars fengu krakkarnir leiklistarkennara til að kenna spuna og heimsóttu fataflokkun Rauða krossins og aðstoðuðu við fataflokkun. Einnig fengu þau fræðslu í skyndihjálp, heimsóttu aðrar Rauða kross deildir og leiklistarhópurinn Perlan kom í heimsókn.
 
Fyrir jól föndruðu hóparnir jólakort og skrifuðu í þau kveðju og fóru með á Elliheimilið Grund. Var vel tekið á móti þeim og í tilefni heimsóknarinnar söng kór nokkur vel valin jólalög. Krakkarnir röltu svo um heimili Grundar og afhentu vistmönnum jólakortin.