24. jan. 2008 : VegaHÚSIÐ á Egilsstöðum komið í stærra húsnæði

VegaHÚSIÐ var enduropnað í Sláturhúsinu sem er menningarsetur Fljótsdalshéraðs 22. janúar og í tilefni þess var haldin hátíð þar sem bæjarbúar fjölmenntu.

21. jan. 2008 : Hjálpfús áfram í Stundinni okkar

Samstarf Rauða krossins og Ríkissjónvarpsins um sýningar á Hjálpfúsi í Stundinni okkar heldur áfram í vetur. Í síðustu viku voru teknir upp átta þættir sem sýndir verða á næstu mánuðum.

Handritshöfundarnir eru fjórir en auk þeirra Þorgeirs Tryggvasonar og Sveinbjörns Ragnarssonar sem unnu handritin að fyrri þáttum bættust við þeir Ármann Guðmundsson og Sævar Sigurgeirsson. Eins og áður eru systkinin Anna og Ragnar leikin af þeim Bjögvini Franz Gíslasyni og Arnbjörgu Valsdóttur og Helga Arnalds er í hlutverki brúðunnar Hjálpfúss.

Það var líf og fjör í stúdíóinu meðan verið var að taka upp nýja þætti með Hjálpfúsi. Anna og Ragnar hafa ekkert breyst frá því í fyrra, eru með alls konar uppátæki og rífast oft.  Þá kemur Hjálpfús til skjalanna með góðar ábendingar og leysir málin.

14. jan. 2008 : Sjálfboðaliðar óskast fyrir sumarmót Ungmennahreyfingarinnar

Sumarmót Ungmennahreyfingar Rauða krossins, Viðhorf og virðing, verður haldið dagana 13.- 17. ágúst 2008 að Löngumýri í Skagafirði. Mótið er fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára og miðast fjöldinn við 30 manns. Þátttökugjald og dagskrá verða birt á vefnum á næstunni og opnað verður fyrir skráningu 20. febrúar næstkomandi.

Dagskrá mótsins verður blanda af gamni og alvöru. Unnið verður með viðhorf þátttakenda til ýmissa hópa og fá þeir m.a. tækifæri til að setja sig í spor þeirra í formi hlutverkaleikja. Einnig verður mikið lagt upp úr leikjum, ferðum, kvöldvökum og annarri skemmtun.

Auglýst er eftir sjálfboðaliðum, 18 ára og eldri, til að starfa sem leiðbeinendur við mótið. Ekki er nauðsynlegt fyrir sjálfboðaliðana að vera allan tímann heldur gefst þeim kostur á að velja sér daga til að starfa við búðirnar. Þeir fá svo stundatöflu að loknu leiðbeinendanámskeiði sem haldið verður í apríl.

Áhugasamir geta haft samband við Jón Brynjar Birgisson, verkefnisstjóra URKÍ á landsskrifstofu Rauða kross Íslands í síma 570 4000 eða á netfangið [email protected]

10. jan. 2008 : Unglingar í Rauða krossinum eru í skemmtilegum verkefnum

Unglingastarf Reykjavíkurdeildar, URKÍ-R, er öflugt um þessar mundir. Tveir hópar hittast á hverjum fimmtudegi og funda. Annar hópurinn í Breiðholti, Álfabakka 14a, 3. hæð og hinn hópurinn í miðbænum á Laugavegi 120, 5. hæð.
 
Síðustu mánuði hafa verkefnin verið fjölbreytt. Meðal annars fengu krakkarnir leiklistarkennara til að kenna spuna og heimsóttu fataflokkun Rauða krossins og aðstoðuðu við fataflokkun. Einnig fengu þau fræðslu í skyndihjálp, heimsóttu aðrar Rauða kross deildir og leiklistarhópurinn Perlan kom í heimsókn.
 
Fyrir jól föndruðu hóparnir jólakort og skrifuðu í þau kveðju og fóru með á Elliheimilið Grund. Var vel tekið á móti þeim og í tilefni heimsóknarinnar söng kór nokkur vel valin jólalög. Krakkarnir röltu svo um heimili Grundar og afhentu vistmönnum jólakortin.