13. okt. 2008 : Hlutverkaleikurinn Á flótta er 10 ára

Hlutverkaleikurinn Á flótta varð 10 ára á haustdögum, sjálfboðaliðar sem komið hafa að verkefninu síðastliðin ár komu saman í gær og héldu upp á afmælið.

Sjálfboðaliðar Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sem hafa unnið að hlutverkaleiknum Á flótta gerðu sér glaðan dag og héldu upp á afmæli verkefnisins með pomp og prakt. Veislugestir klæddu sig upp í þau fjölmörg hlutverk sem koma fyrir í leiknum og rifjuðu upp góðar stundir saman.

10. okt. 2008 : Hjálparsími Rauða krossins 1717 er alltaf opinn!

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem finnst þeir vera komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu.

Síðustu daga hefur fjöldi manns hringt í 1717 í tengslum við fjárhagsáhyggjur og vanlíðan vegna þeirra umbrota sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Starfsmenn og sjálfboðaliðar 1717 veita upplýsingar um hvar leita megi frekari úrræða ásamt því að veita sálrænan stuðning á erfiðum tímum.