29. nóv. 2008 : Ókeypis faðmlög og lifandi alnæmisslaufa í Smáralind

Ungmennahreyfing Rauða krossins stendur fyrir uppákomum í Smáralind sunnudaginn 30. nóvember til að vekja athygli á alþjóða alnæmisdeginum frá kl. 13:00-15:00. Ungmennin munu með reglulegu millibili mynda stóra alnæmisslaufu fyrir framan verslunina Debenhams, bjóða upp á ókeypis faðmlög, dreifa bæklingum  og selja alnæmismerki sem alnæmissmitaðir skjólstæðingar Rauða krossins í Malaví hafa búið til.

Allur ágóði af sölu merkjanna rennur til alnæmisverkefna Rauða krossins í sunnanverðri Afríku. Rauði kross Íslands hefur um árabil unnið að alnæmisverkefnum í samvinnu við Rauða krossinn í Malaví, Mósambík og Suður-Afríku.
 

28. nóv. 2008 : Unglingastarf URKÍ-R gefur gjafir

Unglingastarf Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands fékk gefins á dögunum lager af gömlum tímaritum.

24. nóv. 2008 : Nemendur í Hjallaskóla fá fræðslu um starf Kópavogsdeildar

Um fimmtíu nemendur unglingadeildar Hjallaskóla komu í sjálfboðamiðstöðina fyrir helgi og fengu fræðslu um starf deildarinnar. Fræðslan var hluti af þemadögum í skólanum sem stóð yfir í síðustu viku og var þemað mannúð.

Í sjálfboðamiðstöðinni fengu nemendurnir fræðslu um heimsóknaþjónustuna, fataverkefnið, verkefni tengd innflytjendum, vinadeildasamstarfið og að sjálfsögðu Eldhugana en það er starf sem þessum nemendum stendur einmitt til boða að taka þátt í. Þeir sáu myndband úr starfinu frá því í fyrra og myndir úr starfi síðustu mánaða. Eldhugarnir hittast á fimmtudögum kl. hálfsex og er opið fyrir alla 13-16 ára Kópavogsbúa.

20. nóv. 2008 : Skyndihjálparhópur ungmenna á Austurlandi

Skyndihjálparhópur ungmenna á Austurlandi stendur fyrir vinnuhelgi um næstu helgi.

Staður: Einarsstaður í sumarbústað og hefst klukkan 20 á föstudeginum.

Nánari upplýsingar hjá Margréti Ingu Guðmundsdóttur, [email protected]

3. nóv. 2008 : Vilja gefa til baka!

Ungmennahreyfing Rauða krossins hefur um árabil boðið uppá starf unglingastarf fyrri 13 ára og eldri. Margir ungir og öflugir sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í starfinu og nú þegar þau eldast sjálf vilja þau víkka út starfið og bjóða því uppá barnastarf fyrir 10 til 12 ára börn alla miðvikudaga frá 16:30-18:00 í Rauðakrosshúsinu Strandgötu 24. Einn af þessum ungu sjálfboðaliðum er Arna Bergrún Garðardsóttir en hún hefur starfað sem sjálfboðaliði í tæp þrjú ár. Fjarðarpósturinn tók Örnu tali og spurði hana útí barnastarfið.

Vildum gefa til baka
„Við erum nokkrir ungir sjálfboðaliðar sem höfum verið í leiðtogaþjálfun hjá Rauða krossinum og okkur fannst kominn tími á að víkka út ungmennastarfið okkar. Við höfum lengi verið með starf fyrir þá sem eru í unglingadeildum og framhaldsskólaaldurinn en það vantaði eitthvað fyrir aðeins yngri krakka. Litlu systkyni okkar höfðu líka suðað í okkur um að fá að vera í Rauða krossinum eins og við svo við tókum bara áskoruninni.“

Áhersla á leiki, glens og gaman
„Við ætlum að hafa starfið á léttu nótunum. Leikir og slíkt í bland við fræðslu um Rauða krossinn. Það hefur líka alltaf verið lögð áhersla á það í ungmennastarfi Rauða krossins að þeir sem taka þátt fá að hafa eitthvað að segja um verkefnin. Krakkarnir fá því líka að móta sitt starf alveg eins og við höfum fengið að gera í okkar starfi.“
 

3. nóv. 2008 : Vinnuhelgi um ungmennamál

Sameiginleg vinnuhelgi Ungmennahreyfingar Rauða krossins var haldin 17.-19. október í Munaðarnesi í Borgarfirði. Þar komu saman stjórnarmeðlimir ásamt stjórn Ungmennahreyfingar Reykjavíkurdeildar ásamt nefndarmönnum í alþjóða-, rit-, og verkefnanefnd URKÍ.

Helgin var nýtt í að skipuleggja þau verkefni sem stjórnirnar og nefndir URKÍ ætla að vinna að á komandi mánuðum og má segja að ýmislegt sé í deiglunni.

Að sjálfsögðu var haustveðrið nýtt, grillað var ofan í liðið og haldin frábær kvöldvaka. Vinnan gekk einstaklega vel og voru allir ánægðir með árangur helgarinnar.