15. des. 2009 : Æskan og ellin á jólunum

Æskan og ellin er samstarfsverkefni Kjósarsýsludeildar, grunnskóla Mosfellsbæjar og Eirhamra, þjónustuíbúða aldraða í Mosfellsbæ.  Tilgangur með verkefninu er að auka vitund og tengsl yngri kynslóðarinnar við þá eldri.  Í nútíma þjóðfélagi virðist bilið milli kynslóða aukast jafnt og þétt og er verkefninu ætlað að vinna gegn þeirri þróun og um leið draga úr félagslegri einangrun.

Kjósarsýsludeild útvegaði gjafir sem nemendur 6. bekkjar Varmárskóla pökkuðu inn og skreyttu fyrir eldri borgara á Eirhömrum. Krakkarnir teiknuðu og skrifuðu inní jólakort og fóru síðan í roki og rigningu í göngutúr sl. föstudag ásamt kennurum sínum með alla pakkana handa heimilisfólkinu þar á bæ. Börnin stóðu sig mjög vel voru kurteis og yndisleg og voru sjálfum sér og skólanum til fyrirmyndar. Þau tóku lagið ásamt heimilisfólkinu á Eirhömrum. Allir fengu smá nammi í þakklætisskyni í lokin.

2. des. 2009 : Ungmenni á Ísafirði og Gambíu skiptast á bréfum

Nemendur í 9. bekk Grunnskólans á Ísafirði hafa verið í bréfasamskiptum við börn á sama aldri í North Bank í Gambíu. Er þetta í tengslum við vinadeildarsamstarf milli Rauða kross deilda á Vestfjörðum og deilda í North Bank.

Nemendurnir fengu fræðslu um landið hjá ungmennum frá Gambíu sem heimsóttu Rauða krossinn síðasta vetur. Þeir unnu síðan verkefni um land og þjóð og héldu sýningu á verkum sínum fyrir sjálfboðaliða Ísafjarðardeildar sem eru nemendur í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.

1. des. 2009 : Jafningjafræðsla á alþjóðlegum alnæmisdegi

Alþjóðlegur baráttudagur gegn alnæmi er í dag 1. desember. Fræðsluhópur Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar hefur af því tilefni sinnt forvarnarfræðslu um alnæmi fyrir alla lífsleikninema Menntaskólans í Kópavogi undanfarna daga og vikur. Auk þess hélt hópurinn fyrirlestur og kynningu á Tyllidögum skólans í haust.

Fræðsluhópur sinnir fræðslu og forvörnum, bæði fyrir jafningja og yngri hópa og vinnur með eitt átaksverkefni á hverri önn. Verkefnið sem varð fyrir valinu í haust var fræðsla um alnæmi og hefur hópurinn leitast við að vekja jafningja sína til umhugsunar. Fræðslan var í formi hlutverkaleiks, auk fyrirlesturs þar sem fjallað var um helstu staðreyndir er varða sjúkdóminn. Fræðsluhópur vann þetta átaksverkefni í samstarfi við HIV–samtök Íslands.

 

30. nóv. 2009 : Vel heppnaður skiptidótamarkaður og kakó á laugardaginn

Tuttugu og þrír sjálfboðaliðar Kópavogsdeildarinnar stóðu vaktina síðasta laugardag á skiptidótamarkaði í Molanum og við að gefa gestum og gangandi kakó og piparkökur á jólaskemmtun á Hálsatorgi á laugardaginn. Á markaðinum voru notuð leikföng sem fólk gat fengið í skiptum fyrir dót sem það átti og þannig endurnýjað í dótakassa barna sinna. Þá var einnig hægt að kaupa notuð leikföngin á vægu verði. Alls var selt fyrir 16 þúsund krónur og munu þær renna í neyðaraðstoð innanlands.

Þegar kveikt var á jólatré Kópavogs á Hálsatorgi síðar um daginn voru sjálfboðaliðar tilbúnir með heitt kakó og piparkökur fyrir þá sem komu til að fylgjast með dagskránni á torginu. Þetta voru heimsóknavinir, sjálfboðaliðar í neyðarvörnum og í verkefninu Föt sem framlag. Þá voru einnig sjálfboðaliðar í eldhúsinu í Molanum að búa til kakóið.

18. nóv. 2009 : BUSLarar í Keilu

Keilunum í Keiluhöllinni voru þeyttar niður hver á fætur annarri síðastliðinn miðvikudag þegar BUSLarar komu saman á sínum hálfsmánaðar hittingum. Snilldar taktar voru sýndir enda mikið keppnisfólk mætt á svæðið. Sjálfboðaliðar og BUSLarar skemmtu sér konunglega enda alltaf líf og fjör þegar þessi skemmtilegi hópur hittist.

BUSL er samstarfsverkefni Sjálfsbjargar og URKÍ-R og er fyrir hreyfihamlaða unglinga. Hópurinn hittist annan hvern miðvikudag milli kl. 19:30-22:00 og eru verkefnin fjölbreytt og skemmtileg.  Bakstöðvar hópsins eru í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25 og er starfið opið öllum unglingum á aldrinum 13-18 ára.

5. nóv. 2009 : Á flótta á Keilissvæðinu

Hlutverkaleikurinn Á flótta var haldinn á Keilissvæðinu á Miðnesheiðinni um síðustu helgi. Þátttakendur voru að vanda hópur ungs fólks sem var tilbúið að setja sig í fótspor flóttamanna í heilan sólahring og taka þeim áskorunum sem flóttamenn í heiminum þurfa gjarnan að glíma við í sínu daglega lífi.  Það er Ungmennahreyfin Rauða krossins  sem á veg og vanda að skipulagningu og framkvæmd leiksins.

Í upphafi fá þátttakendur nýtt nafn, þjóðerni, vegabréf og jafnvel nýja fjölskyldu. Þarnæst hefst örlagarík atburðarás þar sem þátttakendur neyðast til þess að flýja lengri eða styttri vegalengdir, kljást við skæruliða, hermenn, svartamarkaðsbraskara, fólkssmyglara og skriffinna, matarlausir, þreyttir og niðurlægðir. Allt miðar að því að upplifun þátttakenda verði eins raunveruleg og hægt er.

9. okt. 2009 : Yoko Ono býður Rauða krossinum að safna fyrir fjölskyldur

Listakonan og friðarsinninn Yoko Ono býður Rauða krossi Íslands að vera með fjársöfnun í tengslum við tendrun Friðarsúlunnar í Viðey og minningartónleikana um John Lennon í Hafnarhúsinu föstudaginn 9. október. 

Sjálfboðaliðar Rauða krossins munu selja pakka með friðarnælum sem hannaðar eru af Yoko Ono í Hafnarhúsinu á föstudagskvöldið og úti í Viðey föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld, auk þess að taka við frjálsum framlögum frá fólki. Þá verður söfnunarsími Rauða krossins 904 1500 opinn næstu daga, en 1.500 kr. dragast af næsta símreikningi þegar hringt er í hann.

18. sep. 2009 : Enter- og Eldhugastarf hefst að nýju eftir sumarfrí

Nú er barna- og ungmennastarf Kópavogsdeildarinnar komið á fullt skrið en í fyrradag var fyrsta samvera Enter hópsins og í gærkvöldi hittust Eldhugar einnig í fyrsta sinn á nýju hausti. Enter er verkefni fyrir unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára en Eldhugar eru fyrir 13-16 ára unglinga af íslenskum og erlendum uppruna. Bæði verkefnin miða að því að auðvelda ungum innflytjendum að aðlagast nýju samfélagi og taka virkan þátt í því en Eldhugar vinna auk þess sérstaklega með hugtökin vináttu og virðingu í gegnum skapandi verkefni.

15. sep. 2009 : Undirbúningur, hópefli og fræðsla fyrir nýja sjálfboðaliða í ungmennastarfi

Í gærkvöldi var haldið undirbúnings- og fræðslukvöld fyrir þá sjálfboðaliða Kópavogsdeildar sem munu vinna í verkefnum er lúta að börnum og unglingum í vetur.

Kvöldið hófst með hópefli þar sem sjálfboðaliðarnir fengu tækifæri til að kynnast hver öðrum. Þá kynnti verkefnastjóri ungmennamála fyrir þeim verkefnin sem sjálfboðaliðarnir munu koma til með að starfa í; Enter og Eldhuga. Hann fór einnig yfir hlutverk sjálfboðaliðans með tilliti til þessara tveggja verkefna. Auk þess fengu sjálfboðaliðarnir tækifæri til að koma með tillögur og hugmyndir að þemaverkefnum og viðfangsefnum fyrir starf vetrarins.

2. sep. 2009 : Þorir þú Á Flótta?

Langar þig til að komast að því hvernig 20 milljónir flóttamanna í heiminum upplifa lífið? Fólk sem neyðist til að flýja landið sitt með óvissuna í farteskinu því það hafði ekki tíma til að pakka niður eigum sínum.

Langar þig að kynnast hvernig er að vera óvelkominn í eigin landi vegna skoðanna þinna?

Leikurinn Á Flótta verður næst 12. september 2009.

28. ágú. 2009 : Uppskeruhátíð Austurbæjarbíós – Húss Unga Fólkssins, mánudaginn 31. ágúst kl. 18:00.

Á sjötta tug ungs listafólks sýnir verk sín á uppskeruhátíð Austurbæjarbíós mánudagskvöldið 31. ágúst kl. 18.00. Dagskránni lýkur svo með tónleikum þar sem ungar og upprennandi hljómsveitir láta ljós sitt skína.

Listamennirnir sem sýna verk sín hafa haft aðsetur í Austurbæjarbíói í sumar og unnið verk sín þar en húsið hefur verið rekið sem miðstöð ungs fólks á aldrinum 16-25 ára.

20. ágú. 2009 : Ungir sjálfboðaliðar í Kópavogi taka á móti ungum sjálfboðaliðum frá Palestínu

Um þessar mundir eru tveir ungir sjálfboðaliðar frá Rauða hálfmánanum í Palestínu staddir á Íslandi í boði Rauða kross Íslands og í gær komu þeir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem sjálfboðaliðar í ungmennastarfi deildarinnar, Plúsnum, tóku á móti þeim. Ungmennin frá Palestínu dvelja á landinu í þrjár vikur til að kynna sér starfsemi Rauða krossins en næstu dagana munu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sjá um dagskrána þeirra. Hún hljóðar meðal annars upp á kynningu á deildinni, hestaferð í boði Íshesta, hvalaskoðun í boði Eldingar og aðrar skoðunarferðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

13. ágú. 2009 : Skyndihjálparhópur URkÍ-R að störfum á Gay Pride

Skyndihjálparhópur Ungmennahreyfingar Rauða krossins í Reykjavík var við sjúkragæslu meðan Gay pride hátíðin fór fram síðasta laugardag. 

12. ágú. 2009 : Ungir sjálfboðaliðar vöktu athygli á Genfarsamningunum á 60 ára afmælinu

Ungir sjálfboðaliðar Rauða krossins vöktu athygli vegfarenda í miðbænum á því að í dag eru 60 ár liðin frá undirritun Genfarsamninganna sem veita mönnum vernd í vopnuðum átökum. Börnin báru skilti með þeim reglum sem ber að virða í stríðsátökum og stöðvuðu gesti og gangandi til að fræða þá um samningana sem bjargað hafa ótöldum mannslífum. Börnin sækja þessa dagana námskeiðið Mannúð og menning í boði Garðabæjardeildar Rauða krossins.

Rauði krossinn reisti einnig fangaklefa á Lækjartorgi að eftirmynd hefðbundins fangaklefa í Rúanda. Eftir þjóðarmorðin þar í landi árið 1994 dvöldust að meðaltali um 17 manns í einu í slíkum klefa sem var 6 fermetrar að stærð. Fangarnir urðu að sofa og sinna öðrum þörfum sínum innan þessara veggja, oft um margra mánaða skeið. Vegfarendum var boðið að giska á hversu margir hefðu gist fangaklefann í einu, og fara inn í klefann ásamt þeim fjölda sem að jafnaði hafðist þar við.

28. júl. 2009 : Tilraunaverkefni með miðbæjarölt hjá skyndihjálparhópi URKÍ-R

Skyndihjálparhópur Ungmennahreyfingar Rauða krossins í Reykjavík hefur síðustu fjórar helgar verið á miðbæjarrölti og sinnt sjúkragæslu eftir þörfum. Um er að ræða tilraunaverkefni.

24. júl. 2009 : Lífleg starfsemi í Austurbæjarbíói, Húsi Unga Fólksins

Húsnæði Austurbæjarbíós hefur tekið miklum breytingum frá því verkefnið Austurbæjarbíó, Hús Unga Fólksins var formlega opnað í byrjun júní. Starfsemin fór rólega af stað en nú starfa þar 70 til 80 einstaklingar að fjölbreyttum verkefnum. Mikið líf er alla daga í Austurbæjarbíói og er rýmið mjög vel nýtt.

Hús Unga Fólksins er opið alla virka daga frá kl. 10 til 22. Þar er rekið lítið kaffihús sem bíður þátttakendum og gestum uppá frítt kaffi en einnig er boðið uppá gæðakaffi  og vöfflur gegn vægu gjaldi. Verkefnið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16 til 25 ára og eru allir velkomnir þangað til að spjalla, leita ráða um útfærslu hugmynda sinna, taka þátt í „endurbyggingu“ Austurbæjarbíós eða til að nýta sér þá fjölbreyttu afþreyingu sem þar er að finna.

26. maí 2009 : Vorferð barna og ungmenna í Heiðmörk

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Í þessari dagsferð gefst ungmennunum einstakt tækifæri til að hittast og kynnast krökkum í öðrum deildum sem starfa með Rauða krossinum. Ferðin var afar vel sótt en rúmlega 70 börn og ungmenni auk sjálfboðaliða tóku þátt í ár.

Alls komu 28 börn og ungmenni frá Kópavogsdeild að þessu sinni. Úr Enter starfinu, sem er vikulegt starf  með sjálfboðaliðum fyrir 9-12 ára innflytjendur, komu 18 börn. Eldhugarnir voru 10 talsins en þeir eru unglingar á aldrinum 13-16 ára sem einnig hafa hist einu sinni í viku í vetur. Hópurinn var í heild sinni mjög alþjóðlegur en krakkarnir frá Kópavogsdeild komu meðal annars frá Póllandi, Litháen, Tælandi, Dóminíska lýðveldinu, Rúmeníu og Íslandi.

4. maí 2009 : Bjartari framtíðarsýn

Fyrir tveimur árum sá ég mig ekki vera sú týpa sem gæti stundað Háskólanám því að mér gekk illa í skóla og hafði nánast engan áhuga. Ég er búin að gera þrjár tilraunir til að fara í framhaldsskóla og byrja önnina alltaf með bjartsýni og ég ætla að vinna heiminn en þegar líður á önnina þá hef ég alltaf misst áhugann. Ég tel að þetta sé út af því ég hef aldrei verið neitt sérstaklega góð í námi í grunnskóla og var alltaf miklu betri í verklegum fögum eins og handavinnu og matreiðslu. Ég hafði ef til vill mikla minnimáttarkent gagnvart öðrum sem gengur vel að læra því að ég er lesblind og geri að mestu enn.

Enn síðan ég byrjaði að vinna sem sjálfboðaliði og var kosin í stjórn URKÍ þá hefur mín minnimáttarkennd minnkað og ég er farinn að sjá að það skiptir engu hvort þú ert menntaður eða ómenntaður þegar þú vinnur sjálfboðastarf því að þar eru allir jafnir og skoðanir hvers og eins skipta alveg jafn miklu máli.

30. apr. 2009 : Nemendur Fjölbrautarskóla Suðurlands læra um Rauða krossinn

Árnesingadeild Rauða krossins var með námskeið á vorönn Fjölbrautaskóla Suðurlands í áfanganum Sjá 172. Námskeiðið sóttu fimm nemendur og kennarinn var Ingibjörg Elsa Björnsdóttir.

29. apr. 2009 : Vika á Vesturbakkanum

Gunnlaugur Bragi Björnsson naut gestrisni fátækrar fjölskyldu í Palestínu, kynntist krökkum sem stefna hátt og komst að því að sálrænn stuðningur sem Rauði krossinn veitir börnum skilar góðum árangri. Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.

27. apr. 2009 : Landsfundur URKÍ haldinn um helgina

Landsfundur Ungmennahreyfingar Rauða krossins var haldinn á laugardaginn á landsskrifstofu félagsins í Efstaleiti 9. Rúmlega 30 URKÍ félagar sátu fundinn, auk formanns Rauða kross Íslands. Jón Þorsteinn Sigurðsson, sem setið hefur sem formaður síðastliðin tvö ár, gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Pálína Björk Matthíasdóttir (Reykjavíkurdeild) sjálfkjörinn formaður til næstu tveggja ára.

Pálína er 27 ára viðskiptafræðingur og starfaði síðast sem varaformaður URKÍ. Auk þess hefur hún setið í ýmsum nefndum og ráðum á vegum Rauða krossins. Þá situr Pálína jafnframt í stjórn Landsambands æskulýðsfélaga (LÆF).

25. apr. 2009 : Árshátíð URKÍ

15. apr. 2009 : Áhugaverður fyrirlestur

Mánudagskvöldið 20. apríl klukkan 20:00 ætla þau Gunnlaugur Bragi og Kristín Helga, sjálfboðaliðar í Ungmennahreyfingu Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, að vera með fyrirlestur um ferð sína til Palestínu.

Fyrirlesturinn verður haldinn að Laugavegi 120, hjá Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands í sal á fimmtu hæð (Hús KB banka við Hlemm).

Gunnlaugur og Kristín heimsóttu Palestínu í marsmánuði sl. og upplifðu ýmislegt sem við þekkjum ekki svo vel hér.

8. apr. 2009 : Samnorrænn fundur Ungmennahreyfinga Rauða krossins

Samnorrænn fundur Ungmennahreyfinga Rauða krossins var haldinn hér á landi í lok mars. Um sjötíu þátttakendur sóttu fundinn en hann var haldinn í húsnæði Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins. Meginumræðuefnið var málsvarastarf og var það rætt út frá ýmsum sjónarhornum.

Að sögn Jóns Þorsteins Sigurðssonar, formanns URKÍ, tókst fundurinn mjög vel og bindur hann miklar vonir við það að næsta árið muni samskipti stjórna Ungmennahreyfinganna á Norðurlöndum eflast til mikilla muna sem skila sér svo áfram í þróun verkefna tengdum ungu fólki.

Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins ávarpaði fundinn og í máli hennar kom meðal annars fram að afrakstur funda af þessu tagi geti verið mikilvægt innlegg í umræðuna um stefnumótun hreyfingarinnar, svokallaða Stefnu 2020, sem er í fullum gangi um þessar mundir.

3. apr. 2009 : Sumarbúðir fyrir unglinga - skráning er hafin

Sumarbúðir Ungmennahreyfingar Rauða krossins verða haldnar að Löngumýri í Skagafirði í sumar, annað árið í röð. Í þetta sinn verða þær dagana 12.-16. ágúst. Þátttaka er opin öllum unglingum á aldrinum 12-16 ára.

Aðstaða á Löngumýri er til fyrirmyndar. Unglingarnir gista í tveggja til þriggja manna herbergjum, boðið er upp á hollan og góðan mat og séð er til þess að engum leiðist frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Á sumarbúðunum er unnið út frá grundvallarmarkmiðum Rauða krossins og farið í viðhorf unglinganna til ýmissa þjóðfélagshópa. Að auki gerist eitthvað ævintýralegt og spennandi á hverjum degi svo sem klettasig, flúðasiglingar, hlutverkaleikir og hamagangur í litlu kringlóttu sundlauginni á Löngumýri. Það verður enginn svikinn af dvöl á Löngumýri.

30. mar. 2009 : Ungt fólk nýtir tímann

Vilt þú stuðla að því að ungt fólk nýti tímann í sumar? Stjórn Ungmennahreyfingarinnar í Reykjavík er að setja af stað vinnuhóp til að undirbúa opnun sumarmiðstöðvar fyrir ungt fólk.

30. mar. 2009 : Brjálað veður í Vík í Mýrdal - Landsmót URKÍ

Katrín Björg Stefánsdóttir sendi þessa skemmtilegu söga frá ógleymanlegu landsmóti Urkí sem haldið var í Vík í Mýrdal helgina 14. og 15 mars.

24. mar. 2009 : „Flóttamenn í heimreiðinni: Af hverju hér? “

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna stendur í þessari viku fyrir greinasamkeppni sem nær til Eystrasalts- og Norðurlanda. Þátttakendur eru nemar í fjölmiðlafræði en samkeppnin er skipulögð í samstarfi við helstu dagblöð í þessum löndum. Háskólar og hjálparstofnanir, þar á meðal Rauði kross Íslands, koma einnig að samkeppninni.

„Ólöglegir innflytjendur frá Afríku koma að landi í Evrópu, óttast er að margir þeirra hafi drukknað“. Fyrirsagnir svipaðar þessum eru algengar í evrópskum fréttum. En er allt þetta fólk „ólöglegir innflytjendur“? Getur ekki verið að sumir þeirra séu á flótta undan stríði og ofsóknum? Eru ef til vill hælisleitendur á meðal þeirra? Vitum við hvað býr að baki þessum fréttum í raun og veru. Getur verið að fréttir í þessum málaflokki endurspegli aðallega stjórnmálaskoðanir og almenningsálit? Gera blaðamenn sér alltaf grein fyrir því að á meðal ólöglegra innflytjenda eru oft einstaklingar sem flúið hafa skelfilegan mannúðarvanda og þurfa á vernd að halda?

18. mar. 2009 : Ungmenni kynna sér starfsemi Rauða krossins

Nú stendur yfir árleg þemavika í Lindaskóla í Kópavogi og þemað í unglingadeildinni í ár er Rauði kross Íslands. Nemendur úr skólanum hafa kynnt sér starfsemi Rauða krossins og hafa nokkrir hópar komið í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og tekið viðtöl við starfsmenn deildarinnar. Þeir hafa fræðst um rekstur deildarinnar, verkefnin, námskeið og ungmennastarfið. Þá hafa nokkrir hópar líka farið á landsskrifstofu Rauða krossins og fengið upplýsingar um starfið þar. Þeir fengu meðal annars stutta kennslu í skyndihjálp.

17. mar. 2009 : Ungt fólk og fjölmenning

14. mar. 2009 : Landsmót í stormi

Landsmót Ungmennahreyfingar Rauða krossins er haldið um helgina í Vík í Mýrdal. Ekki er hægt að segja annað en mótið hafi byrjað með stæl þar sem stór hluti hópsins var veðurtepptur á leiðinni.

Notið var leiðsagnar formanns Rangárvallasýsludeildar Rauða krossins og fékk hópurinn inni í bændagistingunni í Drangshlíð þar sem vel fór um alla í nótt.

Miklir fagnaðarfundir urðu þegar hópurinn mætti í Vík klukkan 9:30 í morgun.
 

12. mar. 2009 : Kastljósþátturinn um alnæmisleikinn kominn á vefinn

Rauða kross ungmenni af öllu höfuðborgarsvæðinu sameinuðust fimmtudagskvöldið 27. nóvember 2008 í húsakynnum Kópavogsdeildar. Samkoman var liður í undirbúningi fyrir alþjóðlega alnæmisdaginn, sem haldinn er ár hvert 1. desember.

Auður Ásbjörnsdóttir stjórnarmeðlimur URKÍ hélt utan um svokallaðan „alnæmisleik". Leikurinn varpar ljósi á hvernig fólk getur sýkst af alnæmisveirunni. Kastljós kom í heimsókn og fylgdist með leiknum.

4. mar. 2009 : Kínversk heimsókn

Á dögunum fengu félagar í unglingastarfi URKÍ-H góða heimsókn frá Kína. Þar var á ferðinni Changlong Xu frá Kína sem búsettur er hér á landi en hann sagði krökkunum frá heimalandi sínu og hvernig upplifun það er fyrir hann að búa á Íslandi. Sýndi hann myndir frá heimahögunum og spjallaði um heima og geima.

Heimsóknin var einkar skemmtileg og fróðleg en hún er hluti af svo kölluðu vegabréfaverkefni URKÍ-H. Í því verkefni koma gestir og kynna ákveðið land, sögu þess og menningu. Annað hvort er um að ræða Íslendinga sem hafa búið erlendis um tíma eða innflytjendur sem búsettir eru hér á landi og koma og fræða krakkana um sitt heima land.

Markmið verkefnisins er að auka á víðsýni ungmenna, fræðast um ólík lönd og menningarheima, vinna gegn fordómum og auka á umburðarlyndi. Verkefnið er hluti af þemanu byggjum betra samfélag sem félagar URKÍ-H vinna að og er ætlað að draga úr fordómum og auka á vináttu, umburðarlyndi og virðingu í íslensku samfélagi.

4. mar. 2009 : Unglingahópur URKÍ-R Miðbæjar og Breiðholts

Miðbæjarhópur URKÍ-R kvaddi á dögunum verkefnastjóra sinn hana Hjördísi Dalberg, en hún er að fara í fæðingarorlof. Í tilefni þess að þetta var hennar síðasti hittingur var keyptur blómvöndur og föndrað kort handa tilvonandi móður. Hjördís kom einnig með gómsæta súkkulaðiköku og saman eyddu unglingarnir tímanum í að föndra persónuskjal hvers og eins þar sem helstu upplýsingar um þátttakendur í starfinu koma fram. Suluman Bah sjálfboðaliði Gambíska Rauða krossins, sem er á Íslandi í tengslum við vinadeildarsamstarfs Reykjavíkurdeildarinnar við Gambíu, kíkti á krakkanna og föndraði með þeim sitt persónuleikaskjal.

2. mar. 2009 : Heilahristingur og Vinanet – verkefni Rauða krossins fyrir ungmenni í Reykjavík

Heilahristingur, nýtt samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, Alþjóðahúss í Breiðholti og Borgarbóksafns, hófst þann 10. febrúar. Heilahristingur er heimanámsaðstoð fyrir börn af erlendum uppruna í 8. til 10. bekk Fella- og Hólabrekkuskóla. Einnig er fyrirhugað að setja á laggirnar heimanámsaðstoð fyrir yngri bekki Hólabrekkuskóla á næstu mánuðum. Verkefnið er starfrækt í Gerðubergssafni Borgarbókasafns.

Tilgangur verkefnisins er að bregðast við ótímabæru brottfalli grunnskólabarna af erlendum uppruna og auka líkur á að þau kjósi að fara í framhaldsskóla. Megináherslan er skapandi unglingastarf sem miðar að því að opna augu ungmennanna fyrir möguleikum sem fyrir hendi eru hvað varðar framtíð þeirra og styrkja sjálfsmynd þeirra.

28. feb. 2009 : Augu opnuð og víðsýni aukin fyrir þjóð í nauð

Rauði kross Íslands tekur þátt í samstarfsverkefni franskra, ítalskra og danskra systurfélaga sinna með því að veita stríðshrjáðum börnum í Palestínu sálrænan stuðning, en þangað héldu tvö ungmenni í gær. Viðtal við Gunnlaug Braga Björnsson birtist í Fréttablaðinu í dag.

27. feb. 2009 : Rauða kross ungmenni á leið til Palestínu að kynnast aðstæðum jafnaldra sinna

Gunnlaugur Bragi Björnsson og Kristín Helga Magnúsdóttir halda í dag til Palestínu á vegum Ungmennahreyfingar Rauða krossins til að kynna sér aðstæður jafnaldra sinna þar.  Rauði kross Íslands hefur í samstarfi við Rauða hálfmánann í Palestínu unnið að verkefnum í sálrænum stuðningi fyrir börn og ungmenni síðan árið 2002.

Gunnlaugur og Kristín munu ásamt sex öðrum ungmennum frá Rauða kross félögum í Danmörku, Frakklandi og Ítalíu kynna sér verkefni Rauða krossins og Rauða hálfmánans um sálrænan stuðning en átökin í landinu valda mikilli streitu og röskun í daglegu lífi barna og unglinga í Palestínu.  Ungmennin munu heimsækja skóla, heimili og fjölskyldur og kynnast lífi jafnaldra sinna í skugga átakanna í landinu á vikuferð sinni.  Þau snúa heim 7. mars.

24. feb. 2009 : Á flótta leiðbeinendanámskeið

Stór hluti skyndihjálparhóps ungmenna á Austurlandi, þær sömu og höfðu áður farið á Flótta, fóru í byrjun mánaðarins á leiðbeinendanámskeið fyrir Á flótta sem var haldið í Alviðru. 

23. feb. 2009 : Framadagar 2009

Framadagar voru haldnir föstudaginn 20. febrúar í húsakynnum Háskólabíós í fimmtánda skipti. Var Ungmennadeild Rauða krossins á staðnum til að kynna verkefni sín og Rauða krossinn almennt  fyrir gestum og gangandi.

Á Framadögum koma fyrirtæki og félagasamtök frá höfuðborgarsvæðinu saman til að kynna starfsemi sína fyrir dugandi menntafólki. Tilgangurinn er einnig að skapa sér jákvæða ímynd í huga háskólanema. Síðan 1995 hafa Framadagar skilað ómetanlegum tengslum á milli fyrirtækja, starfsmanna og menntafólks. Nemendur hafa m.a. komist í framtíðarstarf sitt í framhaldi af Framadögum og unnið lokaverkefni í samstarfi við fyrirtæki.

20. feb. 2009 : Öflugur fundur um áhrif ungs fólks í deildum

Ungmennahreyfing Rauða krossins (URKÍ) stóð á miðvikudaginn fyrir opnum umræðufundi um málefnið Ungt fólk til áhrifa hjá Rauða krossi Íslands.

18. feb. 2009 : Ungt fólk til áhrifa hjá Rauða krossi Íslands

„Ég  vil hvetja sem flesta háskólanema til að kíkja á fundinn hjá okkur í kvöld því þarna verða áhugaverð erindi og án efa líflegar umræður," segir Pálína Björk Matthíasdóttir, diplómanemi í alþjóðasamskiptum við HÍ og varaformaður ungmennahreyfingar Rauða krossins. 

18. feb. 2009 : Fréttabréf URKÍ

Kæra deildarfólk

Fréttabréf Ungmennahreyfingarinnar er ekki komið í endanlega útgáfu. Þið eruð því vinsamlegast beðin um að koma þessum pósti áfram til ungra sjálfboðaliða á ykkar svæði.

Við höfum líka skoðanir! Ungt fólk til áhrifa hjá Rauða krossi Íslands.
Er yfirskrift málþings sem ungmennahreyfingin mun halda í dag, 18. febrúar. Ætlunin er að fá fleira ungt fólk til að sitja í stjórnum Rauða krossins, en samkvæmt nýlegri könnun sem URKÍ lét gera á þátttöku ungs fólks í starfi hreyfingarinnar, eru tæplega 30% sjálfboða Rauða kross Íslands 30 ára og yngri á meðan einungis tæp 4% stjórnarmanna í deildum félagsins eru á sama aldri.

Fyrirhugað málþing verður haldið á Hótel Sögu og hvetur URKÍ deildir á suður- og vesturlandi til að senda sína sjálfboðaliða til Reykjavíkur til að taka þátt. Til þess að flest ungmenni út um allt land geti fylgst með munu verða gerðar tæknilegar ráðstafanir um að senda málþingið út í gegnum streymisbúnað eða netvarp. Gert er ráð fyrir að útstöðvar sem munu netvarpa málþinginu verði á helstu þéttbýlisstöðum svæða Rauða krossins, t.d. Egilsstöðum, Akureyri og Ísafirði, hvetjum við því alla sem sjá sér fært um að mæta.

17. feb. 2009 : Hjálpfús stjórnaði Stundinni okkar

Hjálpfús tók að sér að stjórna Stundinni okkar síðasta sunnudag. Björgvin Franz sem venjulega er við stjórnvölinn þurfi nefnilega endilega að fara á skyndihjálparnámskeið þegar upptökurnar fóru fram og leitaði því til Hjálpfúsar um að leysa hann af á meðan.

Ragnar og Anna komu Hjálpfúsi til aðstoðar og tóku þau á nokkrum brýnum málum. Komið var inn á einelti, sjálfboðið starf og skyndihjálp. Að vanda áttu sér stað fjörlegar umræður en málin voru að sjálfsögðu leyst á farsælan hátt.

16. feb. 2009 : Hefur þú áhuga á að byggja betra samfélag? Vilt þú taka þátt í að móta starf Rauða kross Íslands til framtíðar? Vilt þú láta skoðanir þínar heyrast?

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands, URKÍ, stendur fyrir opnum umræðufundi um málefni ungs fólks innan hreyfingarinnar miðvikudagskvöldið 18. febrúar kl. 18 á Hótel Sögu.

13. feb. 2009 : Ungt fólk til áhrifa

 Ungt fólk til áhrifa hjá Rauða kross Íslands!
Opinn umræðufundur URKÍ 

-          Hefur þú áhuga á að byggja betra samfélag?

-          Vilt þú taka þátt í að móta starf Rauða kross Íslands til framtíðar?

-          Vilt þú láta skoðanir þínar heyrast?

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands (URKÍ) býður þér að koma á opinn umræðufund um málefni ungs fólks innan hreyfingarinnar.

Fundurinn verður haldinn miðvikudagskvöldið 18. febrúar kl. 18 á Hótel Sögu. Kvöldmatur verður í boði fyrir þátttakendur.

12. feb. 2009 : Nýtt merki

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands ákvað að taka upp á stjórnarfundi nýtt merki hreyfingarinnar. Fyrirmyndin er merki sem notað var fyrir nokkrum árum.

6. feb. 2009 : Þorir þú Á Flótta? 14.-15. feb.

Langar þig til að komast að því hvernig 20 milljónir flóttafólks í heiminum upplifir lífið?
Fólk sem neyðist til að flýja landið sitt með óvissuna í farteskinu því það hafði ekki tíma til að pakka niður eigum sínum.
Langar þig að kynnast hvernig er að vera óvelkominn í eigin landi vegna skoðanna þinna?

,,Á Flótta" er hlutverkaleikur þar sem að fólk á aldrinum 13 ára og eldra gefst kostur á að upplifa hvernig það er að vera flóttamaður í sólarhring. Þátttakendur fá nýja fjölskyldu, nýtt þjóðerni, ný trúarbrögð og upplifa dæmigerðar aðstæður flóttamanns frá stríði, spillingu og hungri á meðan þeir hrekjast frá einum stað til annars í leit að öruggum stað til að hefja nýtt líf. Allt miðar að því að upplifun þátttakenda verði eins raunveruleg og hægt er. 

30. jan. 2009 : Grófleg misnotkun á nafni Rauða krossins

Rauði kross Íslands gagnrýnir harðlega vinnubrögð blaðamanna Morgunblaðsins varðandi grein sem birt er á blaðsíðu 16 í dag þar sem fullyrt er að Rauði krossinn hylji slóð Landsbankans í Panama. Þar er alvarlega vegið að starfsheiðri Rauða kross Íslands sem á engan hátt tengist málinu. Ekki var haft samband við Rauða krossinn við vinnslu greinarinnar.

Rauði kross Íslands hefur engin tengsl við Landsbankann varðandi sjálfseignarsjóðinn Aurora sem skráður er í eigu Zimham Corp. í Panama samkvæmt grein Morgunblaðsins. Rauði kross Íslands vísar algerlega á bug dylgjum um að Rauði krossinn hjálpi fjárfestum við að hylja slóð gegn þóknun.

26. jan. 2009 : Nýtt verkefni hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins

Vinanet er nýtt samstarfsverkefni Ungmennadeildar R-RKÍ og Hjálparsíma Rauða Krossins 1717

Hlutverk Vinanets
Vinanet er hugsað sem spjall fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem af einhverjum ástæðum hefur einangrað sig frá samfélaginu. Ætlunin er að ná til þessa hóps með aðstoð Internetsins en það er sá vettvangur þar sem auðvelt er að ná til sem flestra. Á Vinaneti getur fólk rætt saman á uppbyggilegan hátt um hin ýmsu málefni. Ekki er um vandamálamiðað spjall að ræða. Einu sinni í mánuði verða hittingar meðal þeirra sem eru á spjallinu ásamt sjálfboðaliðum og verður ýmislegt skemmtilegt gert eins og fara saman í bíó, í keilu, á skauta, á kaffihús og svo framvegis.

23. jan. 2009 : Ungmennastarfið í Mosfellsbæ byrjar árið með fullum þunga

Mórall, Ungmennastarf Rauða krossins í Kjósarsýsludeild, heldur fyrsta fund sinn á þessu ári í dag klukkan 17:00 í húsnæði deildarinnar að Þverholti 7 Mosfellsbæ. Fundur í X-hópnum verður síðan haldinn fimmtudaginn 29. janúar klukkan 20:00.

Mórall er ungmennastarf fyrir hressa krakka á aldrinum 13-16 ára. Hist er einu sinni í viku og gert ýmislegt sem tengist Rauða krossinum og skemmt sér saman. Dagskráin fyrir vormisserið er tilbúin og verður mikið um að vera. Það má nefna keiluferð, gestakomur og lokaferð í sumar.

22. jan. 2009 : Ungt fólk með í ráðum

Í því þjóðfélagsumróti sem nú gengur yfir eftir fall bankanna er í sífellu rætt um framtíðina og þá óvissuna sem í henni býr. Hæst ber umræðuna um atvinnu og efnahagslegt öryggi ásamt tryggri afkomu heimilanna.

16. jan. 2009 : Leiðbeinendanámskeið fyrir Á flótta

Leiðbeinendanámskeið fyrir leikinn Á flótta verður haldið helgina 30. janúar til 1. febrúar.