28. feb. 2009 : Augu opnuð og víðsýni aukin fyrir þjóð í nauð

Rauði kross Íslands tekur þátt í samstarfsverkefni franskra, ítalskra og danskra systurfélaga sinna með því að veita stríðshrjáðum börnum í Palestínu sálrænan stuðning, en þangað héldu tvö ungmenni í gær. Viðtal við Gunnlaug Braga Björnsson birtist í Fréttablaðinu í dag.

27. feb. 2009 : Rauða kross ungmenni á leið til Palestínu að kynnast aðstæðum jafnaldra sinna

Gunnlaugur Bragi Björnsson og Kristín Helga Magnúsdóttir halda í dag til Palestínu á vegum Ungmennahreyfingar Rauða krossins til að kynna sér aðstæður jafnaldra sinna þar.  Rauði kross Íslands hefur í samstarfi við Rauða hálfmánann í Palestínu unnið að verkefnum í sálrænum stuðningi fyrir börn og ungmenni síðan árið 2002.

Gunnlaugur og Kristín munu ásamt sex öðrum ungmennum frá Rauða kross félögum í Danmörku, Frakklandi og Ítalíu kynna sér verkefni Rauða krossins og Rauða hálfmánans um sálrænan stuðning en átökin í landinu valda mikilli streitu og röskun í daglegu lífi barna og unglinga í Palestínu.  Ungmennin munu heimsækja skóla, heimili og fjölskyldur og kynnast lífi jafnaldra sinna í skugga átakanna í landinu á vikuferð sinni.  Þau snúa heim 7. mars.

24. feb. 2009 : Á flótta leiðbeinendanámskeið

Stór hluti skyndihjálparhóps ungmenna á Austurlandi, þær sömu og höfðu áður farið á Flótta, fóru í byrjun mánaðarins á leiðbeinendanámskeið fyrir Á flótta sem var haldið í Alviðru. 

23. feb. 2009 : Framadagar 2009

Framadagar voru haldnir föstudaginn 20. febrúar í húsakynnum Háskólabíós í fimmtánda skipti. Var Ungmennadeild Rauða krossins á staðnum til að kynna verkefni sín og Rauða krossinn almennt  fyrir gestum og gangandi.

Á Framadögum koma fyrirtæki og félagasamtök frá höfuðborgarsvæðinu saman til að kynna starfsemi sína fyrir dugandi menntafólki. Tilgangurinn er einnig að skapa sér jákvæða ímynd í huga háskólanema. Síðan 1995 hafa Framadagar skilað ómetanlegum tengslum á milli fyrirtækja, starfsmanna og menntafólks. Nemendur hafa m.a. komist í framtíðarstarf sitt í framhaldi af Framadögum og unnið lokaverkefni í samstarfi við fyrirtæki.

20. feb. 2009 : Öflugur fundur um áhrif ungs fólks í deildum

Ungmennahreyfing Rauða krossins (URKÍ) stóð á miðvikudaginn fyrir opnum umræðufundi um málefnið Ungt fólk til áhrifa hjá Rauða krossi Íslands.

18. feb. 2009 : Ungt fólk til áhrifa hjá Rauða krossi Íslands

„Ég  vil hvetja sem flesta háskólanema til að kíkja á fundinn hjá okkur í kvöld því þarna verða áhugaverð erindi og án efa líflegar umræður," segir Pálína Björk Matthíasdóttir, diplómanemi í alþjóðasamskiptum við HÍ og varaformaður ungmennahreyfingar Rauða krossins. 

18. feb. 2009 : Fréttabréf URKÍ

Kæra deildarfólk

Fréttabréf Ungmennahreyfingarinnar er ekki komið í endanlega útgáfu. Þið eruð því vinsamlegast beðin um að koma þessum pósti áfram til ungra sjálfboðaliða á ykkar svæði.

Við höfum líka skoðanir! Ungt fólk til áhrifa hjá Rauða krossi Íslands.
Er yfirskrift málþings sem ungmennahreyfingin mun halda í dag, 18. febrúar. Ætlunin er að fá fleira ungt fólk til að sitja í stjórnum Rauða krossins, en samkvæmt nýlegri könnun sem URKÍ lét gera á þátttöku ungs fólks í starfi hreyfingarinnar, eru tæplega 30% sjálfboða Rauða kross Íslands 30 ára og yngri á meðan einungis tæp 4% stjórnarmanna í deildum félagsins eru á sama aldri.

Fyrirhugað málþing verður haldið á Hótel Sögu og hvetur URKÍ deildir á suður- og vesturlandi til að senda sína sjálfboðaliða til Reykjavíkur til að taka þátt. Til þess að flest ungmenni út um allt land geti fylgst með munu verða gerðar tæknilegar ráðstafanir um að senda málþingið út í gegnum streymisbúnað eða netvarp. Gert er ráð fyrir að útstöðvar sem munu netvarpa málþinginu verði á helstu þéttbýlisstöðum svæða Rauða krossins, t.d. Egilsstöðum, Akureyri og Ísafirði, hvetjum við því alla sem sjá sér fært um að mæta.

17. feb. 2009 : Hjálpfús stjórnaði Stundinni okkar

Hjálpfús tók að sér að stjórna Stundinni okkar síðasta sunnudag. Björgvin Franz sem venjulega er við stjórnvölinn þurfi nefnilega endilega að fara á skyndihjálparnámskeið þegar upptökurnar fóru fram og leitaði því til Hjálpfúsar um að leysa hann af á meðan.

Ragnar og Anna komu Hjálpfúsi til aðstoðar og tóku þau á nokkrum brýnum málum. Komið var inn á einelti, sjálfboðið starf og skyndihjálp. Að vanda áttu sér stað fjörlegar umræður en málin voru að sjálfsögðu leyst á farsælan hátt.

16. feb. 2009 : Hefur þú áhuga á að byggja betra samfélag? Vilt þú taka þátt í að móta starf Rauða kross Íslands til framtíðar? Vilt þú láta skoðanir þínar heyrast?

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands, URKÍ, stendur fyrir opnum umræðufundi um málefni ungs fólks innan hreyfingarinnar miðvikudagskvöldið 18. febrúar kl. 18 á Hótel Sögu.

13. feb. 2009 : Ungt fólk til áhrifa

 Ungt fólk til áhrifa hjá Rauða kross Íslands!
Opinn umræðufundur URKÍ 

-          Hefur þú áhuga á að byggja betra samfélag?

-          Vilt þú taka þátt í að móta starf Rauða kross Íslands til framtíðar?

-          Vilt þú láta skoðanir þínar heyrast?

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands (URKÍ) býður þér að koma á opinn umræðufund um málefni ungs fólks innan hreyfingarinnar.

Fundurinn verður haldinn miðvikudagskvöldið 18. febrúar kl. 18 á Hótel Sögu. Kvöldmatur verður í boði fyrir þátttakendur.

12. feb. 2009 : Nýtt merki

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands ákvað að taka upp á stjórnarfundi nýtt merki hreyfingarinnar. Fyrirmyndin er merki sem notað var fyrir nokkrum árum.

6. feb. 2009 : Þorir þú Á Flótta? 14.-15. feb.

Langar þig til að komast að því hvernig 20 milljónir flóttafólks í heiminum upplifir lífið?
Fólk sem neyðist til að flýja landið sitt með óvissuna í farteskinu því það hafði ekki tíma til að pakka niður eigum sínum.
Langar þig að kynnast hvernig er að vera óvelkominn í eigin landi vegna skoðanna þinna?

,,Á Flótta" er hlutverkaleikur þar sem að fólk á aldrinum 13 ára og eldra gefst kostur á að upplifa hvernig það er að vera flóttamaður í sólarhring. Þátttakendur fá nýja fjölskyldu, nýtt þjóðerni, ný trúarbrögð og upplifa dæmigerðar aðstæður flóttamanns frá stríði, spillingu og hungri á meðan þeir hrekjast frá einum stað til annars í leit að öruggum stað til að hefja nýtt líf. Allt miðar að því að upplifun þátttakenda verði eins raunveruleg og hægt er.