30. apr. 2009 : Nemendur Fjölbrautarskóla Suðurlands læra um Rauða krossinn

Árnesingadeild Rauða krossins var með námskeið á vorönn Fjölbrautaskóla Suðurlands í áfanganum Sjá 172. Námskeiðið sóttu fimm nemendur og kennarinn var Ingibjörg Elsa Björnsdóttir.

29. apr. 2009 : Vika á Vesturbakkanum

Gunnlaugur Bragi Björnsson naut gestrisni fátækrar fjölskyldu í Palestínu, kynntist krökkum sem stefna hátt og komst að því að sálrænn stuðningur sem Rauði krossinn veitir börnum skilar góðum árangri. Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.

27. apr. 2009 : Landsfundur URKÍ haldinn um helgina

Landsfundur Ungmennahreyfingar Rauða krossins var haldinn á laugardaginn á landsskrifstofu félagsins í Efstaleiti 9. Rúmlega 30 URKÍ félagar sátu fundinn, auk formanns Rauða kross Íslands. Jón Þorsteinn Sigurðsson, sem setið hefur sem formaður síðastliðin tvö ár, gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Pálína Björk Matthíasdóttir (Reykjavíkurdeild) sjálfkjörinn formaður til næstu tveggja ára.

Pálína er 27 ára viðskiptafræðingur og starfaði síðast sem varaformaður URKÍ. Auk þess hefur hún setið í ýmsum nefndum og ráðum á vegum Rauða krossins. Þá situr Pálína jafnframt í stjórn Landsambands æskulýðsfélaga (LÆF).

25. apr. 2009 : Árshátíð URKÍ

15. apr. 2009 : Áhugaverður fyrirlestur

Mánudagskvöldið 20. apríl klukkan 20:00 ætla þau Gunnlaugur Bragi og Kristín Helga, sjálfboðaliðar í Ungmennahreyfingu Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, að vera með fyrirlestur um ferð sína til Palestínu.

Fyrirlesturinn verður haldinn að Laugavegi 120, hjá Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands í sal á fimmtu hæð (Hús KB banka við Hlemm).

Gunnlaugur og Kristín heimsóttu Palestínu í marsmánuði sl. og upplifðu ýmislegt sem við þekkjum ekki svo vel hér.

8. apr. 2009 : Samnorrænn fundur Ungmennahreyfinga Rauða krossins

Samnorrænn fundur Ungmennahreyfinga Rauða krossins var haldinn hér á landi í lok mars. Um sjötíu þátttakendur sóttu fundinn en hann var haldinn í húsnæði Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins. Meginumræðuefnið var málsvarastarf og var það rætt út frá ýmsum sjónarhornum.

Að sögn Jóns Þorsteins Sigurðssonar, formanns URKÍ, tókst fundurinn mjög vel og bindur hann miklar vonir við það að næsta árið muni samskipti stjórna Ungmennahreyfinganna á Norðurlöndum eflast til mikilla muna sem skila sér svo áfram í þróun verkefna tengdum ungu fólki.

Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins ávarpaði fundinn og í máli hennar kom meðal annars fram að afrakstur funda af þessu tagi geti verið mikilvægt innlegg í umræðuna um stefnumótun hreyfingarinnar, svokallaða Stefnu 2020, sem er í fullum gangi um þessar mundir.

3. apr. 2009 : Sumarbúðir fyrir unglinga - skráning er hafin

Sumarbúðir Ungmennahreyfingar Rauða krossins verða haldnar að Löngumýri í Skagafirði í sumar, annað árið í röð. Í þetta sinn verða þær dagana 12.-16. ágúst. Þátttaka er opin öllum unglingum á aldrinum 12-16 ára.

Aðstaða á Löngumýri er til fyrirmyndar. Unglingarnir gista í tveggja til þriggja manna herbergjum, boðið er upp á hollan og góðan mat og séð er til þess að engum leiðist frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Á sumarbúðunum er unnið út frá grundvallarmarkmiðum Rauða krossins og farið í viðhorf unglinganna til ýmissa þjóðfélagshópa. Að auki gerist eitthvað ævintýralegt og spennandi á hverjum degi svo sem klettasig, flúðasiglingar, hlutverkaleikir og hamagangur í litlu kringlóttu sundlauginni á Löngumýri. Það verður enginn svikinn af dvöl á Löngumýri.